Fjallskilanefnd, fundur nr. 12

26.06.2014 21:00


Fimmtudaginn 26. júní 2014 kl. 21:00 kom fjallskilanefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Sveitarstjórn kaus á fundi sínum 18. júní 2014 eftirtalda í fjallskilanefnd á yfirstandandi kjörtímabili: Aðalsteinn H. Hreinsson, formaður, Jónas Þór Jónasson og Sigríður Kristín Sverrisdóttir.

 

Fundarmenn voru ofantaldir fulltrúar í nefndinni og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Tímasetning gangna haustið 2014

Rætt um tímasetningu gangna haustið 2014. Fyrir lágu upplýsingar um gangnadaga í Akrahreppi og á Árskógsströnd.

Fjallskilanefnd samþykkti að 1. göngur haustið 2014 verði víðast hvar frá miðvikudeginum 10. september til sunnudagsins 14. september og að aðrar göngur verði víðast hvar viku síðar.

 

2. Álagning gangnadagsverka

Rætt um fyrirkomulag á gerð draga að fjallskilaboðum.

Fjallskilanefnd samþykkti að gerð draga að fjallskilaboðum fari fram á skrifstofu sveitarfélagsins og var sveitarstjóra falið að leita eftir samningum við eiganda viðkomandi tölvulíkans um kaup á því.

 

3. Undanþágur frá fjallskilum

Fjallskilanefnd samþykkti að þeir sem hafa allt sitt fé í sauðheldum girðingum allt sumarið, geti sótt um til fjallskilanefndar að vera undanþegnir fjallskilum.

 

4. Fjallskilastjórn

Fjallskilanefnd samþykkti að nefndarmenn verði fjallskilastjórar hver í sinni deild og að óskað verði eftir því að Davíð Jónsson taki að sér fjallskilastjórn í Arnarnesdeild.

 

5. Um utansveitarfé

Fram kom á fundinum að til rétta í Hörgárdal 2013 komu samtals 184 kindur úr Skagafirði og til rétta í Öxnadal komu 264 kindur úr Skagafirði og 45 kindur úr Eyjafjarðarsveit. Í janúar 2014 komu 20 kindur úr Skagafirði fram á Almenningi. Ennfremur kom fram að engin kind úr Skriðudeild kom fram í Skagafirði og að úr Öxnadalsdeild komu 19 kindur til réttar í Skagafirði.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 23:10.