Samþykkt um kattahald í þéttbýli í Hörgárbyggð

Samþykkt um kattahald í þéttbýli í Hörgárbyggð

 

 

1. gr.

 

Kattarhald í Hörgárbyggð sætir þeim takmörkunum sem um greinir í samþykkt þessari.

 

Sveitarstjórn er heimilt að veita lögráða einstaklingum sem búa í þéttbýli í Hörgárbyggð leyfi til kattahalds.  Ekki er gert ráð fyrir að leyfi þurfi fyrir að halda kött á lögbýlum, en eigendur katta á lögbýlum (sveitarbýlum) skulu þó fara eftir samþykkt þessari sbr. greinar nr.  2, 3, 4, 8 og 9 og skulu skrá þá hjá sveitarstjóra.  Leyfið er bundið við þann kött sem sótt er um heimild fyrir hverju sinni. Leyfið er háð þeim skilyrðum sem fram koma í samþykkt þessari.

 

 

2. gr.

 

Ef sótt er um leyfi til að halda kött í parhúsi, raðhúsi og/eða öðru fjölbýlishúsi skal fylgja umsókn skriflegt samþykki íbúa sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt rými, sbr. 13. tölul., stafl. A, 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

 

 

3. gr.

 

Árlega ber leyfishafa að framvísa vottorði dýralæknis um að kötturinn hafi verið hreinsaður af spóluormum. Upplýsingar um að hreinsun hafi farið fram ber að skila til sveitarstjóra fyrir 1. febrúar ár hvert.

 

 

4. gr.

 

Leyfishafi er ábyrgur fyrir tjóni sem köttur hans sannarlega veldur og ber leyfishafa sem hefur kött sinn lausan utandyra að hafa hann ábyrgðartryggðan hjá viðurkenndu vátryggingarfyrirtæki. Vátrygging skal ná til alls þess tjóns sem dýr hans kann að valda á  mönnum og munum. Fyrir 1. febrúar ár hvert, skulu kattaeigendur senda staðfestingu til sveitarstjóra á að köttur hans sé ábyrgðartryggður.

 

 

5. gr.

 

Kettir skulu ávallt bera merki sem veitir upplýsingar um hver er eigandi hans eða umráðamaður. Leyfishafa ber að sjá svo um að köttur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði eða raski ró manna eða næturfriði.

 

 

6. gr.

 

Óheimilt er að láta kött dvelja lengur en einn mánuð á heimili án þess að sótt sé um leyfi fyrir hann.

 

 

7. gr.

 

Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en tvo ketti eldri en þriggja mánaða á sama heimili.

 

 

8. gr.

 

Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum að takmarka útiveru þeirra.

 

 

9. gr.

 

Köttum má ekki hleypa inn í verslanir, matvælavinnslur, veitingastaði, samkomuhús, skóla, leikvelli, almennar skrifstofur, snyrtistofur, íþróttastöðvar, heilbrigðisstofnanir og aðra sambærilega staði.

 

 

10. gr.

 

Sé köttur ætlaður til undaneldis, þarf sérstaklega að taka það fram í umsókn.

 

 

11. gr.

 

Umsókn um leyfi til kattahalds skal skila inn til sveitarstjóra og með undirritun umsóknar skuldbindur umsækjandi sig til að hlíta í einu og öllu fyrirmælum samþykktar um kattahald.

 

 

12. gr.

 

Sveitarstjóri synjar eða gefur út umbeðið leyfi. Sé leyfis ekki vitjað mánuði eftir að það er veitt fellur það sjálfkrafa úr gildi.

 

 

13. gr.

 

Sveitarstjóri skal sjá um að upplýsingar um leyfð dýr séu skráð í þar til gerða bók. Þar skal einnig skráð nafn og heimilisfang leyfishafa.

 

 

14. gr.

 

Sveitarstjórn getur afturkallað leyfi til kattahalds telji hún þess brýna þörf.

 

 

15. gr.

 

Sveitarstjórn er heimilt að láta eyða ómerktum köttum, enda hafi framkvæmdin verið auglýst með áberandi hætti með a.m.k. sjö sólarhringa fyrirvara.

 

 

16. gr.

 

Sé kvartað yfir ágangi katta í íbúðarhverfum er heimilt að veiða í búr og eyða ómerktum köttum án þess að það sé auglýst sérstaklega.

 

 

17. gr.

 

Heilbrigðisnefnd fer með eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar.

 

Með broti á samþykkt þessari skal fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum.

 

 

18. gr.

 

Samþykkt þessi sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Hörgárbyggðar staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit til þess að öðlast gildi við birtingu.

 

 

 

Ákvæði til bráðabirgða:

 

Þeir sem halda ketti nú skulu sækja um leyfi fyrir þá fyrir 30. september 2005.

 

 

 

Umhverfisráðuneytinu, 4. ágúst 2005

 

F.h.r.

 

Ingimar Sigurðsson

Sigurbjörg Sæmundsdóttir

 

 

EYÐUBLAÐ FYRIR UMSÓKN UM KATTAHALD Í HÖRGÁRBYGGР