Reglur um innheimtu
Þessar reglur taka til innheimtu eftirtalinna gjalda:
- Fasteignagjöld
- Leikskólagjöld
- Skólamötuneyti
- Heilbrigðiseftirlitsgjöld
- Losun rotþróa
- Þjónusta vinnuskóla
- Útseld þjónusta frá skrifstofu
- Leigutekjur af húsnæði
- Gjöld skv. gjaldskrá félagsheimila
Reglurnar taka ekki til innheimtu eftirtalinna gjalda:
- Útsvar
- Kostnaðarhlutdeild annarra opinberra aðila
Innheimtuferill
Innheimtuferill hefst á skrifstofu sveitarfélagsins með gerð reiknings og stofnun kröfu á viðskiptamann í viðskiptabanka eða greiðslukortafyrirtæki. Reikningar og greiðsluseðlar skulu uppfylla allar kröfur opinberra aðila varðandi útgáfu slíkra seðla.Þegar um er að ræða kröfu sem stofnuð er í banka er gefinn út greiðsluseðill. Á honum kemur fram fjárhæð kröfunnar, gjalddagi hennar og eindagi.
Heimilt er að fela banka og/eða innheimtufyrirtækjum að annast innheimtu krafna sem ekki hafa verið greiddar á eindaga. Innheimtuferill slíkra krafna er sem hér segir:
- Hafi krafa ekki verið greidd 8 dögum eftir eindaga er innheimtuviðvörun send viðskiptamanni.
- Hafi innheimtuviðvörunin ekki borið árangur 11 dögum eftir að hún hefur verið send, er viðskiptamanni sent innheimtubréf.
- Hafi það ekki borið árangur 15 dögum síðar er viðskiptamanni sent annað innheimtubréf.
- Hafi krafan ekki verið greidd 13 dögum eftir dagsetningu síðara innheimtubréfsins er haft samband símleiðis við viðkomandi.
- Hafi krafan ekki verið greidd 10 dögum eftir símtalið er viðskiptamanni send lokaaðvörun um að lögfræðiinnheimta hefjist.
Ferill lögfræðiinnheimtu hverju sinni er samkvæmt samningum þar um milli Hörgárbyggðar og viðkomandi lögmannsstofu.
Vegna innheimtu leikskólagjalda gildir eftirfarandi til viðbótar við framangreindan innheimtuferil:
Beri innheimtuaðgerðir ekki árangur, þar með talin lögfræðiinnheimta, skal segja upp dvalarsamningi viðkomandi barns við leikskólann. Uppsögnin skal taka gildi um næstu mánaðamót eftir að 30 dagar er liðnir frá dagsetningu uppsagnarinnar, enda sé skuldin ásamt áföllnum kostnaði þá ekki að fullu gerð upp.
Dráttarvextir
Dráttarvextir reiknast í skuld eftir eindaga og reiknast frá gjalddaga. Dráttarvextir reiknast hverju sinni skv. ákvörðunum Seðlabanki Íslands.
Kostnaður
Allur kostnaður vegna innheimtu fellur á viðskiptamanninn.
Afskriftir
Afskrift á höfuðstól kröfu er gerð af sveitarstjórn.
Sveitarstjóra er heimilt, í undantekningartilvikum, að semja um lækkun dráttarvaxta af kröfu, ef slíkt er talið rétt vegna aðstæðna og í þeim tilgangi að fá skuldina að öðru leyti að fullu greidda.
Reglur þessar voru samþykktar af sveitarstjórn 18. mars 2009