Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 66

28.10.2020 16:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

66. fundur

Fundargerð 

Miðvikudaginn 28. október 2020 kl. 16:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í húsnæði félagsmiðstöðvar í heimavist Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir, Ásgeir Már Andrésson (í fjarfundi), Inga Björk Svavarsdóttir og Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1. Aðalskipulagsbreytingar

Skipulagsfulltrúi gerir grein fyrir stöðu vinnu vegna skipulagsbreytingar sem auglýst var sl. sumar. Ekki hefur reynst unnt að klára yfirstandandi breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna þess að ekki er búið að leysa landbúnaðarland þar sem skógræktarsvæði er fyrirhugað úr landbúnaðarnotum skv. 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Fyrir liggur álit bæði Skipulagsstofnunar og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis þess efnis að ekki verði um flúið að leysa landið úr landbúnaðarnotum ef breyta á landnýtingarflokki úr landbúnaðarlandi (L) í skógræktar og landgræðslusvæði (SL).

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til sveitarstjórn að lausn fyrirhugaðs skógræktar-lands úr landbúnaðarnotum skuli fara fram án tafar skv. bókun á 64. fundi nefndarinnar og ef ekki reynist unnt að leiða það mál til lykta skuli hlutaðeigandi skógræktarsvæði fellt út úr skipulagstillögunni svo hægt sé að fullnusta gildistöku hennar. Skipulags- og umhverfis-nefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa sé falið að annast úrlausn málsins á þennan hátt.

2. Malarnámur og efnistaka, framkvæmdaleyfi

Rætt var um efnistökumál og útgefin framkvæmdaleyfi.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að settar verði reglur um árlegt eftirlit með efnistöku og umgengni á efnistökusvæðum.  Eftirlitsgjald verði sett í gjaldskrá fyrir framkvæmdaleyfi.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að kalla eigendur Skútabergs til fundar vegna umgengis- og skipulagsmála á námasvæði þeirra.

3. Göngu- og hjólastígar

Rætt um staðsetningu göngu- og hjólastíga á skipulagi.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fá hönnuði til að koma með tillögur varðandi staðsetningu stígs frá Lónsbakka að Þelamerkurskóla og leggja þær fyrir næsta fund nefndarinnar.

4. Deiliskipulag Lónsbakka

Umræða um upptöku og afgreiðslu á þeim hluta skipulagsins sem frestað var við afgreiðslu skipulagsins 2017.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fá hönnuð skipulagsins til að koma með tillögu að útfærslu deiliskipulags á frestuðu svæði.

5. Bitrugerði, umsókn um afmörkun lóðar

Lögð fram umsókn með uppdrætti þar sem sótt er um afmörkun lóðar í landi Bitrugerðis.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimiluð verði afmörkun 4.157 fm lóðar í landi Bitrugerðis Lnr.152463 , enda verði byggingarreitur staðsettur þannig að krafa skipulagsreglugerðar um 50 m fjarlægð íbúðarhúss frá vegi uppfyllt.

6. Akureyrarbær stígakerfi, umsögn

Lagt fram erindi frá Akureyrarbæ þar sem kynnt er heildarskipulag stígakerfisins sem er í endurskoðun.

Skipulagsnefnd bendir á að ekki sé gert ráð fyrir tengingu við gönguleið meðfram Hlíðarvegi (vegnr. 818) auk þess sem ekki sé gert ráð fyrir tengingu við reiðleið og gönguleið meðfram ströndinni við Brávelli í auglýstri skipulagstillögu. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ábendingu þess efnis að huga skuli að samræmi við samgöngukerfi við sveitarfélagsmörk verði komið til skipulagsyfirvalda Akureyrarbæjar.

7. Norðurorka, umsókn um framkvæmdaleyfi

Lagt fram erindi frá Norðurorku þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi vegna jarðvegs-skipta á Hjalteyri.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.

8. Fagranes, skógrækt

Lögð fram greinargerð með tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu vegna skógræktar að Fagranesi í Öxnadal.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að kynntar fyrirætlanir um skógrækt í landi Fagraness samrýmist markmiðum aðalskipulags sveitarfélagsins en bendir á að þar sem svæðið liggur að öðrum skógræktarsvæðum er heildarumfang skógræktar á svæðinu komið langt umfram þá 200 ha sem eru til viðmiðunar varðandi matsskyldu. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsögn þess efnis verði send Skipulagsstofnun.

9. Skógræktarsvæði í Hörgársveit

Umræður um skógræktarsvæði í sveitarfélaginu og kröfur vegna þeirra. Ákveðið var að þetta málefni verði tekið upp á vinnufundi nefndarinnar um umhverfisstefnu sem haldinn verði í nóvember n.k.

10. Skútaberg, umsókn um stöðuleyfi v. vatnstanka

Lagt fram erindi frá Skútabergi ehf. þar sem sótt er um framlengingu stöðuleyfa vegna

vatnstanka að Skútum.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að stöðuleyfið verði veitt en að gerð verði krafa um að lokið sé við málun vatnstanka sem á svæðinu eru.

11. Gáseyri, skipulagstillaga til auglýsingar

Lögð fram drög að deiliskipulagstillögu fyrir minjastaðinn að Gásum unnin af Minjastofnun.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði að vísa skipulagstillögu í auglýsingarferli skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

12. Erindi frá HNE, umsögn vegna hundaræktar í Glæsibæ

Lagt fram erindi frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra þar sem kynnt er starfs-leyfisumsókn vegna hundahalds í Glæsibæ.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að áður en umsögn verði gefin verði starfsumsóknin grenndarkynnt.

13. Lækjarvellir 2, ný útfærsla á uppskiptingu lóðarinnar

Lögð fram tillaga frá Landmótun þar sem lóðinni Lækjarvellir 2 er skipt upp í tvær lóðir.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði að fram fari breyting á deiliskipulagi Lækjarvalla skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulags- og umhverfisnefnd telur sýnt að breytingin varði ekki hagsmuni annarra aðila en sveitarfélagsins sjálfs og eiganda lóðarinnar og leggur því til við sveitarstjórn að fallið verði frá grenndarkynningu á grundvelli 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

14. Fjárhagsáætlun 2021

Lagðar fram og kynntar þær tillögur er varða þá málaflokka sem heyra undir nefndina.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 19:10