Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 137

10.02.2010 20:00

Miðvikudaginn 10. febrúar 2010 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 50. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar, álit samstarfsnefndar, síðari umræða

Lögð var fram eftirfarandi drög að ályktun, sem birt verður í kynningarblaði samstarfsnefndar, vegna sameiningarkosninganna í Arnarneshreppi og Hörgárbyggð:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar telur að sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar feli í sér veruleg sóknarfæri fyrir svæðið í heild og að sú hagræðing sem í henni felst skapi tækifæri á að auka þjónustuna við íbúana. Auk þess munu lögbundin framlög Jöfnunarsjóðs vegna sameiningarinnar gefa svæðinu þróunarmöguleika sem ekki eru í boði með öðrum hætti.

Sveitarstjórnin telur að sameiningin muni ekki hafa í för með sér nein vandamál og bendir á að samstarf sveitarfélaganna á undanförnum árum hefur verið afar farsælt. Íbúar Hörgárbyggðar eru því eindregið hvattir til að koma á kjörstað og samþykkja sameininguna.

Framangreind drög að ályktun voru samþykkt samhljóða.

Einnig var samþykkt að kynningarblaðið komi út 3. mars og að kynningarfundur fyrir íbúa Hörgárbyggðar verði haldinn í Hlíðarbæ 11. mars. Þá samþykkti sveitarstjórn fyrir sitt leyti, sbr. 5. mgr. 90. gr. sveitarstjórnarlaga, að kosið verði um sameiningu sveitarfélaganna þann 20. mars 2010.

 

2. Lánasjóður sveitarfélaga, heimild til upplýsingagjafar

Bréf, dags. 24. janúar 2010, frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. þar sem óskað er eftir að veitt verði almenn heimild fyrir að lánasjóðurinn birti upplýsingar um stöðu lána sveitarfélagsins hjá sjóðnum.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir, með vísan til 60. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að veita Lánasjóði sveitarfélaga heimild til að miðla upplýsingum um lán sveitarfélagsins hjá lánasjóðnum opinberlega og til fjárfesta, þ.m.t. upplýsingar um nafn skuldara, tilgangs láns, stöðu láns, lánstíma og önnur kjör. Upplýsingunum er miðlað í þeim tilgangi að fjárfestar hafi sem besta mynd af útlánasafni og starfsemi lánsveitanda og mun miðlunin einkum eiga sér stað í gögnum frá lánveitanda s.s. í ársreikningum, árshlutareikningum, fjárfestakynningum og afmælisritum.

 

3. Fyrirkomulag skólaaksturs, næsta skólaár, var rætt og var sveitarstjóra falið að vinna að málinu fyrir næsta fundi.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl.  20:50