Sveitarstjórn Hörgársveitar 88. fundur Fundargerð

15.02.2018 15:00

Sveitarstjórn Hörgársveitar

88. fundur

Fundargerð

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2018 kl.15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson, Jóhanna María Oddsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Ásrún Árnadóttir og Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir varamaður.


Skipulags- og byggingarfulltrúi, Vigfús Björnsson var mættur á fundinn varðandi liði 1.- 5.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1. Engimýri, skógrækt ofl.
Umræðum frestað.
2. Samningur um kostnað við vinnu við breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins
Lögð fram drög að samningi ásamt kostnaðar- og tímaáætlun. Samningurinn er milli Hörgársveitar, GLB17 ehf. og Landmótunar sf vegna vinnu við breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins er varðar jörðina Glæsibæ.
Sveitarstjórn samþykkti samninginn.
3. Erindi Skipulagsstofnunar – beiðni um umsögn vegna laxeldis
Erindið lagt fram en með því fylgdi tillaga að matsáætlun fyrir 20.000 tonna fiskeldi í Eyjafirði í lokuðum kvíum. Lagt fram drög að að bréfi til Skipulagsstofnunar.
Sveitarstjórn samþykkti að senda bréfið sem umsögn Hörgársveitar.
Þá var lagt fram erindi frá AFE varðandi hugsanlega ferð til Noregs þar sem fengin yrði kynning á rekstri fiskeldis þar í lokuðum kvíum.
Sveitarstjórn samþykkti að einn fulltrúi fari frá Hörgársveit ef af ferðinni verður.
4. Erindi frá AFE varðandi þátttöku í Degi byggingariðnaðarins á Norðurlandi
Erindið lagt fram.
Sveitarstjórn samþykkti að taka jákvætt í þátttöku.
5. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 21.desember 2017
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 26. janúar 2018
Fundargerðin lögð fram.
7. Brú lífeyrissjóður, samkomulag um uppgjör
Fyrir fundinum lá það sem nefnt er "Samkomulag um uppgjör" frá lífeyrissjóðnum Brú. Samkvæmt samþykktum Brúar lífeyrissjóðs hvílir sú skylda á þeim launagreiðendum sem greiða til sjóðsins að inna af hendi aukin framlög, þannig að lífeyrisskuldbindingar sjóðsins séu tryggðar. Samtals er um að ræða 40 milljarða sem skipt er á milli þeirra laungreiðenda sem greitt hafa í sjóðinn. Krafan sem gerð er á Hörgársveit er kr. 9.779.551,- og vegna hlutdeilda í rekstri Tónlistarskóla Eyjafjarðar kr. 5.563.867,-, samtals er þetta kr. 15.343.418,-. Brú lífeyrissjóður gefur kost á að stærsti hluti þessara kröfu sé greiddur með skuldabréfi. 
Sveitarstjórn samþykkti að greiða ofangreindar kröfur kr. 15.343.418.- með fyrirvara um réttmæti útreikninga og kröfugerðar og skiptingu skuldbindinga milli ríkis og sveitarfélaga. Hörgársveit áskilur sér allan rétt til að krefjast endurgreiðslu og hæstu lögleyfðu vaxta, komi síðar í ljós að kröfugerðin hafi reynst of há eða óréttmæt að hluta eða í heild.
Bókun þessi skal fylgja „Samkomulagi um uppgjör“ og vera hluti þess, þar með talinn ofangreindur fyrirvari. Samkomulagið undirritar sveitarstjóri í umboði sveitarstjórnar og er honum jafnframt falið að annast greiðslur í samræmi við ofangreint. Greiðslan verði tekin af handbæru fé sveitarfélagsins og samráð verði haft við endurskoðendur sveitarfélagsins um meðferð gjaldfærslu.

8. Erindi frá Fallorku vegna ábyrgðar sveitarfélagsins vegna láns
Erindið lagt fram til umræðu og afgreiðslu.
Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns Fallorku ehf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 650.000.000, með lokagjalddaga þann 5. desember 2032, í samræmi við skilmála að lánssamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Nær samþykki sveitarstjórnar jafnframt til undirritunar lánssamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir. Fallorka ehf. er 100% í eigu Norðurorku hf. Eignarhlutur Hörgársveitar í Norðurorku hf. er 0,80% og er hlutdeild sveitarfélagsins í þessari ábyrgð því kr. 5.200.000,-
Er lánið tekið til byggingar nýrrar 3,3 MW vatnsaflsvirkjunar í Glerá ofan Akureyrar, sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Andra Teitssyni kt. 241266-3709, framkvæmdastjóra Fallorku ehf., veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hörgársveitar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.
9. Fráveita Lónsbakka
Lögð fram drög að samningi er varðar yfirtöku Norðurorku hf. á fráveitunni Lónsbakka, rekstur og eignum, frá og með 1. janúar 2019. Norðurorka hf. mun þó standa að hönnun,útboði og framkvæmdum lagna í nýrri götu á árinu 2018, verði af slíkum framkvæmdum í ár. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að Hörgársveit greiði Norðurorku hf. kr. 49.608.000,- þann 15. júni 2019. Greiðslan er m.a. til að mæta kostnaði við framkvæmdir við nýja dælustöð og tengingu fráveitunnar við fráveitukerfi Akureyrar.
Sveitarstjórn samþykkti samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann fyrir hönd Hörgársveitar.
10. Landspilda úr landi Grundar (Grund 1) afsal
Lögð fram drög að afsali og uppdráttur vegna sölu Hörgársveitar á landsspildunni Grund 1, landnúmer 220329 (11.700 fm að stærð) til Hans Péturs Kristjánssonar og Magnúsar Kristjánssonar. Sveitarstjórn samþykkti söluna í samræmi við framlagt afsal og felur sveitarstjóra að undirrita það fyrir hönd sveitarfélagsins.
11. Þjóðskrá Íslands – breytingar á gerð kjörskrárstofns
Erindið lagt fram til kynningar.
12. Bréf frá Norðurorku varðandi jörðina Laugaland
Lagt fram bréf frá Norðurorku dags. 7.2.2018 ásamt minnisblaði varðandi málið. Bréfinu fylgdi reikningur með kröfu um greiðslu vegna notkunar á árinu 2017 á heitu vatni umfram þá 3 l/sek sem tilgreindir eru í leigusamningi um jörðina Laugaland.
Sveitarstjórn samþykkti að oddviti og sveitarstjóri vinni áfram að málinu í samráði við tækniþjónustu og lögmann.
13. Trúnaðarmál

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 17:07