Sveitarstjórn Hörgársveitar 87. fundur Fundargerð

18.01.2018 16:15

Fimmtudaginn 18. janúar 2018 kl.16:15 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Jóhanna María Oddsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Ásrún Árnadóttir og Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir varamaður.

 

Skipulags- og byggingarfulltrúi, Vigfús Björnsson var mættur á fundinn varðandi

liði 1.- 4.

 

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

1.        Norðurorka, umsókn um framkvæmdaleyfi vegna borholu við Hjalteyri

Fyrir fundinum liggur umsókn Norðurorku um framkvæmdaleyfi vegna borunar dæluholu fyrir heitt vatn við Hjalteyri. Umsóknin tekur aðeins til borunar og frágangs holu en ekki byggingar skýlis, lagningar veitulagnar, breytinga á skilju eða dælubúnaði eða annarar mannvirkjagerðar. Framkvæmdatími og frágangur í lok framkvæmdar er tilgreindur í umsóknargögnum. Framkvæmdin er C-framkvæmd og telst ekki matsskyld skv. lögum um umhverfismat framkvæmda nr. 106/2000.

Sveitarstjórn samþykkti erindið og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi.

2.        Samþykkt um gatnagerðargjald í þéttbýli í Hörgársveit

Lögð fram drög að samþykkt fyrir gatnagerðargjald í þéttbýli í Hörgársveit.

Sveitarstjórn staðfesti samþykktina og felur sveitarstjóra að annast gildistöku hennar.

3.        Gjaldskrá fyrir framkvæmdaleyfisgjald og gjald fyrir skipulagsvinnu í Hörgársveit

Lögð fram drög að gjaldskrá. 

Sveitarstjórn samþykkti gjaldskrána og felur sveitarstjóra að annast gildistöku hennar.

4.        Fundargerð svæðisskipulagsnefndar og skipulagslýsing

Fundargerðin og skipulagslýsing lögð fram, en Svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar hefur unnið skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á svæðisskipulaginu vegna flutningslína raforku, Blöndulínu 3 og Hólasandslínu 3, sbr. 1. mgr. 23. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Í lýsingunni er gerð grein fyrir helstu forsendum, fyrirliggjandi stefnu, umfangi og áherslum umhverfismats áætlunarinnar og hvernig samráði og kynningu verður háttað. Svæðisskipulagsnefnd leggur lýsinguna fram til samþykktar sveitarstjórna allra sveitarfélaga á skipulagssvæðinu. Lýsingin verður síðan send umsagnaraðilum og kynnt almenningi og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta.

Sveitarstjórn samþykkti lýsinguna og felur svæðisskipulagsnefnd að kynna hana almenningi og öðrum hagsmunaaðilum.

5.        Fundargerð Heilbrigðisnefndar norðurlandssvæðis frá 7. nóv. 2017

Fundargerðin lögð fram.

Í 4.lið fundargerðarinnar kemur fram að brennsluofn B. Jensen er enn í notkun, þrátt fyrir að heilbrigðisnefnd hafi hafnað B.Jensen um endursnýjun á starfsleyfi.

Bókað er að heilbrigðisnefnd feli heilbrigðisfulltrúa að fylgja málinu eftir.

6.        Fundargerð stjórnar Eyþings frá 13. desember 2017

Fundargerðin lögð fram.

7.        Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, tækifærisleyfi

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi vegna þorrablóts Hörgársveitar 3. febrúar 2018. 

Sveitarstjórn samþykkti að leggjast gegn því að samkomur í Hörgársveit verði umfram þann tíma sem lögreglusamþykkt segir til um en gerir ekki athugasemd við að öðru leyti að leyfið verði veitt.

8.        Fráveita Lónsbakka

Framhald umræðu varðandi mögulega yfirtöku Norðurorku á fráveitunni á Lónsbakka og lagt fram bréf frá Norðurorku dags. 22. desember 2017 varðandi málið.

Sveitarstjórn samþykkti að fela oddvita og sveitarstjóra að vinna áfram að málinu og sjá til þess að drög að samningi liggi fyrir sem fyrst.

9.        Aðildarumsókn að rammasamningum Ríkiskaupa

Lögð fram gögn varðandi formlega aðild Hörgársveitar að rammasamningum Ríkiskaupa.

Sveitarstjórn samþykkti aðildarumsókn.

10.        Landspilda úr landi Grundar (Pálmholt 1) afsal

Lögð fram drög að afsali og uppdráttur vegna sölu Hörgársveitar á landsspildunni Pálmholt 1, landnúmer 225913 (8.880 fm að stærð) til Kristbjargar Þóroddsdóttur og Þórðar Stefánssonar.

Sveitarstjórn samþykkti söluna í samræmi við framlagt afsal og felur sveitarstjóra að undirrita það fyrir hönd sveitarfélagsins.

11.        Vegagerðin, erindi vegna ristarhliðs Öxnadalsheiði

Lagt fram nýtt erindi frá Vegagerðinni dags. 6.11.2017 vegna málsins en það var áður á dagskrá sveitarstjórnar á 84. fundi.  Jafnframt var lögð fram bókun hreppsnefndar Akrahrepps frá 6. desember 2017 þar sem m.a. kemur fram að í nefndinni séu bændur sem þekkja hvernig sauðfé hagar sér og nefndin sættir sig ekki við hugmynd sem byggir á því að sauðfé hafi enga hæfileika til að hugsa.

Sveitarstjórn Hörgársveitar ítrekar fyrri bókun sína um málið og leggst algjörlega gegn því að ekki verði til framtíðar ristarhlið á veginum á Öxnadalsheiði. Sveitarstjórn Hörgársveitar telur það skyldu Vegagerðarinnar að setja nýtt ristarhlið í stað þess eldra, enda nauðsynlegt til að hefta för fjár milli svæða.

12.        Brú lífeyrissjóður, samkomulag um uppgjör

Lögð fram gögn frá Brú lífeyrissjóði varðandi uppgjör Hörgársveitar á lífeyrisiðgjöldum til sjóðsins.

Sveitarstjórn samþykkti að fresta afgreiðslu til næsta fundar.

Brú lífeyrissjóður beinir jafnframt kröfu að Tónlistarskóla Eyjafjarðar (TE) vegna samkomulags um uppgjör lífeyrisskuldbindinga.

Í sundurliðun uppgjörs vegna skuldbindinga og greiðslu launagreiðenda í jafnvægissjóð, lífeyrisauka og varúðarsjóð, er skuldbinding TE tæpar 33 mkr.

Rekstrarkostnaður TE hefur skipst milli aðildarsveitarfélaganna í hlutföllum sem liggja nálægt, fyrir Eyjafjarðarsveit 60%, og Hörgársveit og Grýtubakkahreppur 20% hvort sveitarfélag.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra umboð til að ganga frá skuldbindingum TE fyrir þess hönd í samstarfi við samstarfssveitarfélögin sem standa að TE. Vegna þess hve skammur greiðslufrestur kröfunnar er, þykir sveitarstjórn rétt að setja fyrirvara um útreikning og réttmæti kröfunnar.

13.        „Konur uppá dekk“ styrkbeiðni og dagskrá

Lagt fram erindi þar sem kynnt er samræðuþing um stjórnmál á Akureyri 27.1. n.k. Þá fylgir erindi frá Akureyrar Akademíunni um styrk vegna viðburðarins.

Sveitarstjórn hafnaði erindinu.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:15