Sveitarstjórn, fundur nr. 86

14.12.2017 15:00

Sveitarstjórn Hörgársveitar

 86. fundur

Fundargerð

 

Fimmtudaginn 14. desember 2017 kl.15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Jóhanna María Oddsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jón Þór Benediktsson og Ásrún Árnadóttir.

 

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

 

1.        Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 12. desember 2017

Fundargerðin lögð fram ásamt fylgigögnum og þarfnast fjórir liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í 1. lið deiliskipulag Hjalteyri

Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Hjalteyrar, Hörgársveit skv. 41. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

b) Í 3. lið erindi frá eigendum Glæsibæjar varðandi breytingu á skipulagi

Sveitarstjórn samþykkti að unnin verði aðalskipulagsbreyting er taki til breytinga á landnotkun á jörðinni Glæsibæ. Markmið breytinganna er að heimila íbúðabyggð á allt að 16,8 ha svæði og verslunar- og þjónustusvæði á allt að 16 ha svæði.  Í sam-ræmi við ákvæði í núgildandi aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir að íbúðasvæðið verði skilgreint sem þéttbýli. Kynning og lýsing á breytingunni mun fara fram í því ferli, eins og lög gera ráð fyrir. Gerður verði samningur við landeigendur um kostnaðargreiðslur við aðalskipulagsbreytinguna.

Sveitarstjórn samþykkti að eigendum Glæsibæjar verði heimilað að vinna að deiliskipulagi fyrirhugaðs íbúða- , verslunar- og þjónustusvæðis samhliða aðalskipulagsbreytingunni.

Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði heimiluð efnistaka á jörðinni nema til einkanota.

c) Í 4. lið erindi frá eigendum Hjalteyrarskóla varðandi kaup á lóð og lóðarstækkun

Sveitarstjórn samþykkti að lóðin/lóðirnar verði ekki seldar.  Hinsvegar er fullur vilji til stækkunar á núverandi leigulóð.

d) Í 5. lið erindi frá HGH verk ehf varðandi malarnámu í landi Spónsgerðis

Sveitarstjórn samþykkti að afgreiðslu málsins verði frestað og óskað verði eftir því að umsækjandi leggi fram álit Skipulagsstofnunar á matskyldu framkvæmdarinnar samkv. lögum um umhverfismat nr. 106/2000.

2.        Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, rekstrarleyfi

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um starfsleyfi fyrir rekstur gististaðar án veitinga fyrir sumarhúsin Sílastöðum.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd fyrir sitt leyti við að rekstrarleyfið verði veitt.

3.        Samþykkt og gjaldskrá fyrir gatnagerðargjöld

Rætt um gildandi samþykkt og gjaldskrá fyrir gatnagerðargjöld og mögulegar breytingar. 

Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa að yfirfara samþykkt og gjaldskrá fyrir gatngagerðargjöld og leggja tillögu fyrir næsta fund sveitarstjórnar.

4.        Fráveita Lónsbakka

Rætt um mögulegan samning við Norðurorku um yfirtöku á fráveitunni Lónsbakka.

Sveitarstjórn samþykkti að senda Norðurorku erindi með tillögum Hörgársveitar um ákveðin samningsatriði og væntir þess að drög að samningi liggi fyrir sem fyrst.

5.        Viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2017

Lögð fram tillaga að viðauka 03 við fjárhagsáætlun 2017.

Sveitarstjórn samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2017, sem hefur auðkennið 03/2017, og gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði jákvæð sem nemur 32.199 þús.kr. og handbært fé í árslok verði 45.072 þús. kr.

6.        Fjárhagsáætlun 2018-2021, síðari umræða

Fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og veitna fyrir árin 2018-2021 var tekin til síðari umræðu. Fyrir lá endurskoðuð tillaga með breytingum á þeirri tillögu sem var til fyrri umræðu, í samræmi við nýjar upplýsingar. Þar var meðal annars rætt um rekstur og fjárfestingar og var ákveðið að sem framlag til bættrar lýðheilsu starfsmanna að þeir fastráðnir starfsmenn sveitarfélagsins sem vilja fái árskort í sundlaugina Þelamörk endurgjaldslaust.  Þá var ákveðið að tillögu verkfræðings og verktaka að fresta framkvæmdum er varðar aukna loftun við endurgerð á þaki Þelamerkurskóla þar til frekari reynsla hefur fengist en að allir aðrir þættir við verkið verði kláraðir.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og stofnana hans fyrir árin 2018-2021. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að á árinu 2018 verði skatttekjur 472.086 þús. kr., að heildarrekstrarkostnaður A-hluta (nettó) verði 430.089 þús. kr. og að rekstrarhalli veitna verði 10.600 þús. kr, þannig að rekstrar-afgangur verði 31.397 þús. kr. Veltufé frá rekstri verði 54.187 þús. kr. Áætlað er að til framkvæmda og annarra eignabreytinga á árinu verði varið 40,5 millj. kr. og að engin ný lántaka verði á árinu 2018 en eldri skuldir verði greiddar niður um 24,5 milljónir. Þá er áætlað að handbært fé í árslok 2018 verði 34,3 millj. kr.  

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 gerir ráð fyrir að afgangur af rekstri samstæðunnar verði 32 millj. kr., á árinu 2020 verði hann 32,7 millj. kr. og 33,3 millj. kr. á árinu 2021.

7.        Trúnaðarmál

 

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 17:55