Sveitarstjórn, fundur nr. 79

28.04.2017 15:00

Sveitarstjórn Hörgársveitar

79. fundur

 Fundargerð

 

Föstudaginn 28. apríl 2017 kl.15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Jóhanna María Oddsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jón Þór Benediktsson og Ásrún Árnadóttir.

 

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

 

1.        Ársreikningur Hörgársveitar 2016, fyrri umræða

Lagður fram ársreikningur fyrir árið 2016. Samkvæmt ársreikningnum urðu rekstrartekjur alls 570,8 millj. kr. og rekstrargjöld 533,1 millj. kr. á árinu 2016. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 5 millj. kr.  Heildarrekstrarniðurstaða á árinu varð því jákvæð upp á 32,7 millj. kr.

Eigið fé í árslok er 540,7 millj. kr. Veltufé frá rekstri á árinu var 55,3 millj. kr.

Nettó fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum var 84,2 millj. kr. og skuldir og skuldbindingar hækkuðu um kr. 52,5 millj á árinu og eru skuldir í árslok 41,6% af tekjum. Handbært fé í árslok var 32,3 millj. kr.

Aðalheiður Eiríksdóttir og Rúnar Bjarnason frá PriceWaterhouseCoopers komu á fundinn, fóru yfir ársreikninginn og svöruðu fyrirspurnum um hann.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa ársreikningi Hörgársveitar fyrir árið 2016 til síðari umræðu.

Vigfús Björnsson skipulagsfulltrúi mætti á fundinn.

2.        Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 6. apríl 2017

Fundargerðin er í sjö liðum og þarfnast fjórir liðir afgreiðslu sveitarstjórnar:

a) Í 3.lið Lækjarvellir 3-5, ósk um stækkun á lóð

Umsagnar Norðurorku og Vegagerðarinnar var leitað varðandi erindið.

Sveitarstjórn samþykkti að unnin verði tillaga að deiliskipulagsbreytingu skv. umsókn á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga um óverulegar breytingar á deiliskipulagi með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar fyrir eigendum Lækjarvalla 1 og 4 og Vegagerðarinnar.

b) Í 4.lið neðansjávarlistigarður við Hjalteyri

Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu, enda fellur uppsetning neðansjávarlistigarðs á þessum stað ekki að skipulagsáformum svæðisins.

c) Í 6.lið aðalskipulag Akureyrar – til kynningar og umsagnar

Sveitarstjórn samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa eins og hún liggur fyrir.

d) Í 7. lið gróðursetning skjólbelta

Sveitarstjórn samþykkti að gróðursett verði skjólbelti í útjaðri skipulagssvæðis Hjalteyrar.

3.        Lækjarvellir 6-8 umsókn um lóðir

Lögð fram umsókn frá Íslyft ehf kt. 411173-0469 um lóðirnar Lækjarvelli 6 og 8.

Sveitarstjórn samþykkti að úthluta Íslyft ehf kt. 411173-0469 lóðirnar nr. 6 og 8 við Lækjarvelli og er sveitarstjóra falið að gera samning við umsækjanda um lóðirnar og greiðslu gatnagerðargjalda.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 6 og 8 við Lækjarvelli en breytingin felst í því að sameina lóðirnar, breytingu á stærð lóðar og breytingu á byggingarreit.

Að mati sveitarstjórnar er um óverulega breytingu að ræða og samþykkti sveitarstjórn breytinguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar fyrir eigendum Lækjarvalla 3-5 og Lækjarvalla 4

4.        Skógrækt - Grjótgarði

Lagt fram erindi frá Skógræktinni þar sem óskað er heimildar til að hefja framkvæmdir við skógræktarsvæði á Grjótgarði.

Sveitarstjórn samþykkti erindið.

Helgi Bjarni Steinsson vék af fundi undir þessum lið.

5.        Dagverðareyrarvegur, umsókn um framkvæmdaleyfi

Lagt fram erindi frá Vegagerðinni þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna bundins slitlags á 1,55 km kafla á Dagverðareyrarvegi.  Umsókninni fylgir uppdráttur.

Sveitarstjórn samþykkti að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi.

6.        Auðnir – breytingar á skráningu

Lagt fram erindi ásamt uppdráttum frá eigendum Auðna þar sem óskað er eftir heimildum sveitarstjórnar til eftirfarandi breytinga:

1) Heimild fyrir sameiningu á jörðinni Auðnum I, landnr. 152426, við jörðina Auðni II, landnr.189453 í eina jörð undir nafninu Auðnir. (Sjá meðf. landsk.kort. sept. 2000).

2) Heimild til að minnka lóð fyrir íbúðarhúsið Auðnir 2 úr 0,59 ha sbr. uppdrátt, frá sept. 2000 í 1190 fm, sbr. meðf. afstöðum. frá 08.05.2015.

3) Heimild fyrir að fella út úr þjóðskrá lóðina Auðnir I og II, landnr. 189454, þar sem sömu eigendur eru nú að öllum mannvirkjum innan lóðarinnar og jörðinni Auðnum.

Sveitarstjórn samþykkti umbeðnar breytingar fyrir sitt leyti í samræmi við meðfylgjandi uppdrætti enda verði afnotaréttur að vegi og veitum að Auðnum 2 tryggður.

7.        Merkjagirðing á Gili í Öxnadal

Lagt fram erindi frá Guðmundi Heiðmann varðandi merkjagirðingu á Gili en í erindinu er óskað eftir að sveitarfélagið taki þátt í kostnaði við girðingu sem eigandi Gils hefur girt í landi jarðarinnar.

Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu þar sem landamerki eru Öxnadalsá og telst hún fjárheld með tilvísun í fordæmi Vegagerðarinnar sem girðir ekki meðfram Öxnadalsánni.

Vigfús Björnsson vék af fundi.

8.        Fundargerðir HNE frá 1. feb. og 8. mars 2017

Fundargerðirnar ásamt ársreikningi HNE 2016 lagðar fram til kynningar.

9.        Fundargerðir Eyþings frá 15. mars og 19. apríl 2017

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

10.        Samningur um tæmingu rotþróa

Rætt um samning varðandi tæmingu rotþróa frá 19.12. 2000 sem í gildi er. Samskonar samningur er í gildi milli annarra sveitarfélaga í Eyjafirði og Gámaþjónustu Norðurlands ehf

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti fyrir sitt leyti að samningnum verði sagt upp með samningsbundnum fyrirvara.

11.        Verksmiðjan Hjalteyri

Lagt fram erindi frá Gústaf Geir Bollasyni f.h. Verksmiðjunnar þar sem m.a. er óskað eftir endurnýjun á styrktarsamningi ofl.

Sveitarstjórn samþykkti endurnýjun á styrktarsamningi fyrir árið 2017 að upphæð kr. 400.000,- 

Jafnframt fól sveitarstjórn atvinnu- og menningarmálanefnd að ræða við bréfritara um önnur þau mál sem fram koma í erindi hans varðandi framtíð Verksmiðjunnar.

12.        Úttekt á smávirkjanakostum í Eyjafirði

Lagt fram erindi frá AFE þar sem óskað er heimildar til að félagið leiti tilboða í gerð geiningar fyrir smávirkjanakosti í Eyjafirði.

Sveitarstjórn samþykkti að veita AFE heimild til að hafa milligöngu um að leita tilboða í verkið.

13.        Samningur um ráðgjafaþjónustu

Lögð fram til kynningar gögn varðandi endurnýjun á samningum við Akureyrarbæ varðandi ráðgjafaþjónustu. 

Sveitarstjórn samþykkti að vinna málið áfram á grundvelli framlagðra gagna.

14.        Aðalfundur AFE

Lagt fram fundarboð á aðalfund AFE þann 4. maí 2017 ásamt tilllögum að breytingum á samþykktum félagsins.

Sveitarstjórn samþykkti að Axel Grettisson fari með umboð Hörgársveitar á fundinum.

15.        Tenging við Vatnsveitu Hjalteyrar

Lagt fram erindi frá eigendum sumarhúsa á Arnarnesreit þar sem óskað er eftir að kannað verði með möguleika á lögn frá kaldavatnslögn Hjalteyrar að sumarhúsunum.

Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu þar sem hún telur ekki æskilegt að tengja inná stofnlögnina til Hjalteyrar.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:25