Sveitarstjórn, fundur nr. 64

09.12.2015 15:00

Sveitarstjórn Hörgársveitar

 64. fundur

Fundargerð

Miðvikudaginn 9. desember 2015 kl. 15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir, Jón Þór Benediktsson og Jónas Þór Jónasson.

 

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

1.        Fundargerð atvinnu- og menningarnefndar 24.11.2015

Fundargerðin er 7 liðum.  Afgreidd var tillaga nefndarinnar um gjaldskrárbreytingar í 2 lið.

Sveitarstjórn samþykkti að á árinu 2016 verði stakt gjald fyrir fullorðinn í sund 750 kr., 10 miða kort fyrir fullorðinn 5.250 kr., gjald fyrir afmæli 14.000-18.000 kr. fyrir hvert skipti en að aðrir liðir gjaldskrárinnar breytist ekki frá því sem gilti á árinu 2015. Einnig samþykkti sveitarstjórn að á árinu 2016 eigi íbúar sveitarfélagsins kost á sundkorti án greiðslu, með sama hætti og á árinu 2015. 

Þá samþykkti sveitarstjórn að gjaldskrá Hlíðarbæjar hækki um 5% frá gildandi gjaldskrá.

2.        Fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra 4.11.2015

Fundargerðin lögð fram. Ekkert í fundargerðinni varðar Hörgársveit beint.

3.        Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024.

Fyrir var tekið erindi frá Skipulagsstofnun, dags. 23. nóvember 2015, með athugasemdum við aðalskipulag sveitarfélagsins sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar 29. október 2015.

Sveitarstjórn samþykkti svör við erindi Skipulagsstofnunar með eftirfarandi bókun:

1.      Skipulagsstofnun bendir á að svara þurfi erindi Sifjar Konráðsdóttur við tillögu að aðalskipulagi efnislega.

Svör sveitarfélagsins við erindi Sifjar má sjá hér að neðan, lið fyrir lið.

Sif Konráðsdóttir, 11. október 2015.

a.      Óskað er eftir að felld verði úr aðalskipulagstillögu með öllu 12 hektara svæði fyrir frístundabyggð í landi Hrauns í Öxnadal. Til vara er óskað eftir að svæði fyrir frístundabyggð í landi Hrauns sé óbreytt frá gildandi aðalskipulagi.

a)      Ekki er eftirspurn er eftir 20 húsa frístundabyggð í Öxnadal

b)      Forsendum fyrir frístundabyggðar-tillögunni er ekki lýst í aðalskipulagstillögu og hvorki er fjallað um hvernig hún fer saman við aðra stefnumótun aðalskipulags-tillögunnar, svo sem um náttúruvernd eða landbúnaðarnot, eða lög nr. 44/1999.

c)      Engir valkostir eru settir fram við frístundabyggðartillöguna í samræmi við lög nr. 105/2006

d)      Ekkert umhverfismat skv. lögum nr. 105/2006 hefur farið fram á frístundabyggðartillögunni

e)      Meðferð skipulagsvalds, líkt og hér er ætlað að fari fram til að uppfylla skilyrði i einkaréttarlegum samningi um viðtöku hlutafjár í einkahlutafélagi árið 2012, fer í bága við lögbundið skipulagshlutverk sveitarfélagsins skv. lögum nr. 123/2010, og lögum 138/2011, sbr. og lög nr. 37/1993 og lög nr. 105/2006

Í kafla 3.1.2 í greinargerð með aðalskipulagstillögu er fjallað um frístundabyggð í dreifbýli. Í töflu á bls. 9 getur að líta lista um svæði undir frístundabyggð. Nr. F-7 á þeim lista er svæði sem nefnt er „Valsnes“. Þetta svæði er í landi jarðarinnar Hrauns í Öxnadal. Í öllum öðrum tilvikum er frístundabyggð í aðalskipulagstillögu kennd við bæjarnafn, og til samræmis við það væri því nafn svæðis „Hraun“ en ekki „Valsnes“.

Svar: Texta í greinargerð þar sem frístundabyggð er kennd við Valsnes verður breytt og nefnt eftir jörðinni Hraun.

Úr tillögunni sem nú liggur fyrir er unnt að lesa, en einungis með samanburði við núgildandi aðalskipulag, að gert sé annars vegar ráð fyrir að stækka skipulagt svæði undir frístundabyggð í landi Hrauns í Öxnadal úr 5 hekturum í 12 hektara og að leyfð verði þar 20 sumarhús í stað 10 húsa skv. gildandi skipulagi, og hins vegar að staðsetning frístundabyggðar verði skilgreind uppi í fjallshlíð í landi jarðarinnar (en ekki á Valsnesi). Í tillögunni er hvergi, hvorki í greinargerð, forsendum né umhverfisskýrslu, að finna umfjöllun um þessa breytingu og þetta aukna svæði úr heimalandi Hrauns, sem alls er 77 hektarar, sem skipuleggja á undir frístundabyggð fast upp við fólkvanginn í Hrauni. Ekki er hægt að lesa úr gögnunum að hér sé um breytingu að ræða frá gildandi skipulagi eins og áður sagði. Þó er svæði það sem færi undir frístundabyggð annars vegar tekið úr landbúnaðarnotum og hins vegar er um að ræða svæði sem er á náttúrminjaskrá. Er því bæði um umtalsverða breytingu á landnotum að ræða og umtalsverðan hluta alls heimalandsins. Fram kemur í aðalskipulagstillögu að milli 60 og 70 sumarhús séu nú þegar í sveitarfélaginu og flest þeirra séu einstök hús inná jörðum í einkaeigu, sjá kafla 3.1.2. Ef yrði af 20 sumarhúsa byggð í landi Hrauns í Öxnadal, myndi því sumarhúsum í sveitarfélaginu við það eitt fjölga mjög verulega og myndi framkvæmd slíkrar áætlunar breyta heildaryfirbragði sveitarinnar á ýmsan hátt væntanlega.

Svar: Um er að ræða stækkun um 7 ha og fjölgun frístundahúsa um 10. Það var mat sveitarfélagsins að þess konar stækkun svæðisins væri ekki þess eðlis að meta þyrftu áhrif hennar á umhverfið sérstaklega og því ekki nein umfjöllun um það í umhverfisskýrslu. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir aukningu á svæðum fyrir frístundabyggð í sveitarfélaginu.

Tillagan er í beinu ósamræmi við það sem kemur fram í kafla 3.2.1 um landbúnaðarsvæði, í greinargerð á bls. 14, þar sem segir að áður en ákvörðun sé tekin um breytta landnotkun á landbúnaðarsvæðum skuli virði þess m.t.t. ræktunargildi metið. Þetta er sagt m.a. eiga við um svæði það er svæði eru tekin undir frístundabyggð. Ekkert slíkt mat hefur þó farið fram í þessu tilviki og er tillagan því í ósamræmi við stefnumótun um landbúnaðarsvæði

Svar: Að einhverju leyti munu núverandi tún fara undir frístundabyggð en þó skal horft til þess við deiliskipulag af svæðinu að þéttleiki verði þannig að lítill hluti af túnum fari undir frístundabyggð en aðliggjandi melar verði nýttir undir byggð og tún fái að halda sér að mestu.

Vegna eðlis þess lands sem um er að ræða gerir tillagan einnig samkvæmt ofansögðu ráð fyrir svo mikilli breytingu frá gildandi aðalskipulagi að meira en fullt tilefni hefði verið til að geta hennar í kafla 1.4 um helstu breytingar frá gildandi skipulagi. Ella er almenningin í raun gert ókleyft að gera sér grein fyrir breytingunni og er það í andstöðu við tilgang laga nr. 105/2000 og 123/2010.

Svar: Í kafla 1.4 um helstu breytingar frá gildandi aðalskipulagi er ekki greint frá umræddri stækkun enda var það mat sveitarfélagsins að umrædd stækkun væri einungis minniháttar.

Efnislega er tillagan einnig frekar óljós hvað varðar þessa 12 hektara frístundabyggð. Af nafni hennar í greinargerð verður ekki einu sinni ráðið að um sé að ræða jörðina Hraun, sem þó skipar, að því er almennt má ætla, töluverðan sess í vitund þjóðarinnar sem og íbúa Hörgársveitar. Ekkert segir í tillögunni um að þessi frístundabyggð yrði á svæði á náttúruminjaskrá. Þá mætti ætla af nafni því sem svæðinu er gefið, Valsnes, að umrætt svæði sé ekki uppí fjalli heldur á Valsnesi, sem er niður við Öxnadalsá. Þetta síðastnefnda er mikilvægt þar sem í fyrrnefnda tilvikinu yrði um mun meiri röskun á jarðfræði og ásýnd að ræða (sjá Mynd 2 í VIÐAUKA I) heldur en væri á Valsnesi, svæðinu niður við Öxnadalsá, sem er nær röskuðu svæði, bæði rétt og þjóðvegi, og minna áberandi frá vegi. Ofan og sunnan við umrædda 12 hektara eru Hraunshraun og Einbúi, en þau náttúrufyrirbæri njóta landslagsverndar. Ekkert segir heldur í tillögunni um að nokkrir hektarar af ræktuðu landi færu undir frístundabyggðina.

Svar: Nafn svæðisins verður breytt úr Valsnesi í Hraun. Svæði á náttúruminjaskrá hefur í dag ekkert lögformlegt gildi og svæðið er fyrir utan fólkvanginn Hraun. Skv. gr. 4.5.3. í skipulagsreglugerð skal skal gera grein fyrir svæðum á náttúruminjaskrá, sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um að friðlýsa eða setja hverfisvernd á,  á þemauppdrætti. Svæði á náttúruminjaskrá eru sýnd á skýringarmynd 3-5 í kafla 3.3.6 í greinargerð og þá eingöngu til skýringar. Að einhverju leyti munu núverandi tún fara undir frístundabyggð en þó skal horft til þess við deiliskipulag af svæðinu að þéttleiki verði þannig að lítill hluti af túnum fari undir frístundabyggð en aðliggjandi melar verði nýttir undir byggð og tún fái að halda sér að mestu.

Örðugt er, að öllu samanlögðu, að koma auga á málefnaleg og lögmæt rök fyrir núverandi tillögu Hörgársveitar um umfangsmikla frístundabyggð í landi Hrauns í Öxnadal. Hvorki texti greinargerðar, forsendna né umhverfisskýrslu varpar neinu ljósi á hana. Slík framsetning er einnig andstæð markmiðum og ákvæðum laga nr. 123/2010 og laga nr. 105/2006 m.a.

Svar: Rök sveitarfélagsins fyrir aukinni frístunabyggð á svæðinu er m.a. sú að mikill áhugi er á frístundabyggð á þessu svæði og því er verið að mæta þeirri eftirspurn.

Sveitarfélagi ber að fara að lögum við meðferð skipulagsvalds síns. Einn þáttur þess er að sveitarfélagi er óheimilt að gera einkaréttarlega samninga um meðferð þess skipulagsvalds. Kaupsamningur er Hörgársveit gerði við Íslandsbanka og dagsettur er 26. nóvember 2012 um afsal bankans á hlutafé í Hrauni í Öxnadal ehf. sem er eigandi jarðarinnar Hrauns, var skilyrtur við afsal á umræddu 12 hektara svæði, er skilið var undan jörðinni við afsal hlutafjárins, og að heimiluð yrði heimiluð 20 húsa sumarhúsabyggð í skipulagi. Ljóst er að forsendur Hörgársveitar fyrir tillögu um frístundabyggðina í aðalskipulagi er skilyrði sem Íslandsbandi setti í kaupsamningi árið 2012 fyrir afsali sínu á hlutbréfum í einkahlutafélagið. Skilyrðið um að 12 hektara spilda er afsöluð var Íslandbanka yrði skipulögð sem frístundabyggð fyrir 20 sumarhús er ólögmætt og myndi kaupsamningurinn þannig ógildur að þessu leyti ef á reyndi. Rétt er að geta þess að um aðgang almennings að samningnum fjallaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál í úrskurði sínum í máli A-506/2013 þar sem sagði m.a. “Úrskurðarnefndin lítur til þess að um er að ræða upplýsingar sem lúta með beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna og skipulagi lands innan marka sveitarfélagsins.“ Í úrskurðinum kemur skýrt fram að í kaupsamningnum hafi komið fram skilyrði Íslandsbanka fyrir afsali hlutafjárins. Í því skilyrði fólst að Hörgársveit myndi afsala bankanum 12 hektara svæði er það myndi í aðalskipulagi skilgreina sem frístundabyggð. Slík meðferð á skipulagsvaldi sveitarfélags stenst ekki lög þar sem það sviptir almenning lögbundnum rétti sínum til að hafa áhrif á ákvarðanir meðan allir möguleikar eru opnir.  Til stuðnings framangreindu er vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 436/2010 og álits Umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 5434/2008 að því er varðar heimildir sveitarstjórna til samningagerðar við þriðju aðila er hafa áhrif á ákvarðanir þeirra í skipulagsmálum og lögmæti slíkra samningsákvæða.

Svar: Sveitarfélagið tók þá ákvörðun að stækka umrætt svæði fyrir frístundabyggð þar sem mikill áhugi er á frístundabyggð á þessu svæði, en ekki vegna þess samnings sem um ræðir í athugasemdinni.

Í ljósi alls ofangreinds verður að ætla að skynsamlegast sé að falla að svo stöddu frá öllum hugmyndum í aðalskipulagi um sumarhúsabyggð í landi Hrauns í Öxnadal. Í ljósi ofangreinds er og uppi verulegur vafi um lögmæti samninga Hörgársveitar við Íslandsbanka árið 2012, að því leyti sem Hörgársveit skuldbatt sig í samningi einkaréttarlegs eðlis til þess að fara með tilteknum hætti með skipulagsvald sitt í framtíðinni að því er varðaði þá 12 hektara spildu er sveitarfélagið afsalaði til Íslandsbanka á móti hlutabréfum í einkahlutafélaginu Hrauni í Öxnadal og skuldaskiptum þess einkahlutafélags við Íslandsbanka. Áskilinn er allur réttur í þessu sambandi. Beðist er velvirðingar að athugasemdir þessar berast einum virkum degi eftir lok athugasemdafrests.

Svar: Sveitarfélagið telur ekki ástæðu til að falla frá auglýstri tillögu um aukna frístundabyggð í landi Hrauns. Svæðið helstþví óbreytt frá auglýstri tillögu.

2.      Gerðar eru lagfæringar á gögnum aðalskipulags í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkir að nýju tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 í samræmi við svör og viðbrögð við athugasemdum Skipulagsstofnunar.

Skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra er falið að annast gildistöku aðalskipulagsins í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.        Laugaland, breyting á eignarhaldi

Farið áfram yfir stöðu mála.

Sveitarstjórn samþykkti að fela oddvita og sveitarstjóra að kanna í samvinnu við tækniþjónustu og lögmann enn frekar stöðu sveitarfélagsins í málinu.

5.        Umsókn um nýja lóð í landi Steinness.

Lagt fram erindi frá Helgu Kristjánsdóttur þar sem sótt er um að stofna nýja lóð í landi Steinness.  Umsókninni fylgir uppdráttur.

Sveitarstjórn samþykkti að veita heimild til að stofna nýja lóð úr jörðinni Steinsnes skv. framlögðum gögnum.

6.        Gjaldskrá Byggingafulltrúaembættis Eyjafjarðar

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir byggingarfulltrúaembætti Eyjafjarðar.

Sveitarstjórn samþykkti gjaldskrána fyrir sitt leiti.

7.        Kvennaathvarfið umsókn um rekstrarstyrk

Lögð fram umsókn um rekstrarstyrk frá Kvennaathvarfinu vegna árins 2016.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu til afgreiðslu fjárhagsáætlunar

8.        Hörgá sf. umhverfismat

Lögð fram drög að samkomulagi við Hörgá sf vegna uppgjörs á endurgreiðslu á gerð umhverfismats fyrir félagið. 

Sveitarstjórn samþykkti samkomulagið.

9.        Samningur við Hjalteyri ehf.

Lögð fram drög að nýjum samningi varðandi þjónustu við Hjalteyri ehf. Lagt er til að gerður verði samningur til eins árs er komi í stað fyrri samnings frá 2014.

Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

10.        Hafnarsamlag Norðurlands

Lagt fram minnisblað um mögulega sameiningu við Hafnsjóð Dalvíkur. 

11.        Fjárhagsáætlun 2016-2019, síðari umræða

Fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og veitna fyrir árin 2016-2019 var tekin til síðari umræðu. Fyrir lá endurskoðuð tillaga með breytingum á þeirri tillögu sem var til fyrri umræðu, í samræmi við nýjar upplýsingar.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og stofnana hans fyrir árin 2016-2019. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að á árinu 2016 verði skatttekjur 412.164 þús. kr., að heildarrekstrarkostnaður A-hluta (nettó) verði 383.102 þús. kr. og að rekstrarhalli veitna verði 11.912 þús. kr, þannig að rekstrarafgangur verði 17.150 þús. kr. Veltufé frá rekstri verði 38.272 þús. kr., að til framkvæmda og annarra eignabreytinga á árinu verði varið 71 millj. kr. og að lántaka verði að fjárhæð 50 millj. kr. Þá er áætlað að handbært fé í árslok 2016 verði 12,1 millj. kr. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 gerir ráð fyrir að afgangur af rekstri samstæðunnar verði 17,5 millj. kr., á árinu 2018 verði hann 17,8 millj. kr. og 18,2 millj. kr. á árinu 2019.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:15