Sveitarstjórn, fundur nr. 6

17.11.2010 20:00

Miðvikudaginn 17. nóvember 2010 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fundargerðir stjórnar Eyþings, 13. september, 8. október og 28. október 2010

Fyrri tvær fundargerðirnar eru í átta liðum, sú síðasta er í níu liðum.

Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

2. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 20. október 2010

Fundargerðin er í fjórtán liðum. Enginn þeirra varðar Hörgársveit með beinum hætti.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Stuðningur sveitarfélagsins við tómstundastarf

Sveitarstjórn fól á fundi sínum 30. júní 2010 menningar- og tómstundanefnd að móta reglur um stuðning sveitarfélagsins við tómstundastarf. Nefndin lagði til, sbr. 5. lið fundargerðar nefndarinnar 1. nóvember 2010, að þróaður að verði stuðningur sveitarfélagsins við tómstundastarf barna á grunnskólaaldri með útgáfu svonefnds frístundakorts. Lögð voru fram drög að reglum um slíkt fyrirkomulag. Við umræður um um málið var gerðar tvær breytingar á drögunum.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrirkomulag skv. framlögðum drögum með áorðnum breytingum verði tekið upp frá og með árinu 2011, að umræddur stuðningur verði kr. 8.000 á árinu 2011 og að hann gildi um grunnskólanemendur sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu.

 

4. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 1. nóvember 2010

Fundargerðin er í sex liðum, einn þeirra var afgreiddur í dagskrárliðnum hér á undan.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar að öðru leyti en því sem fram kemur í 3. lið þessarar fundargerðar.

 

5. Fundargerð byggingarnefndar, 2. nóvember 2010

Fundargerðin er í níu liðum. Enginn þeirra varðar Hörgársveit með beinum hætti.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

6. Fundargerð stjórnar Hafnasamlags Norðurlands, 8. nóvember 2010

Fundargerðin er í fimm liðum.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

7. Þelamerkurskóli, gjaldskrá mötuneytis

Fræðslunefnd beindi því til sveitarstjórnar á fundi sínum 9. nóvember 2010 að mötuneytisgjöld í Þelamörk á yfirstandandi skólaári verði þau sömu og nú. Jafnframt beindi nefndin því til sveitarstjórnar að hún móti stefnu um afslátt af mötuneytisgjöldum.

Lögð fram gögn um þróun mötuneytisgjalda og matarkostnaðar undanfarin ár og áhrif hugsanlegs systkinaafsláttar af mötuneytisgjöldum.

Sveitarstjórn samþykkti að mötuneytisgjald verði 450 kr. á dag á yfirstandandi skólaári og að gefinn verði systkinaafsláttur þannig að 25% afsláttur verði veittur af mötuneytisgjaldi með 3. barni á heimili og 50% með 4. barni á heimili.

 

8. Fundargerð fræðslunefndar, 9. nóvember 2010

Fundargerðin er í sex liðum, einn þeirra var afgreiddur í dagskrárliðnum hér á undan. 3. liður er um sumarlokun leikskólans Álfasteins, 4. liður er um skipun stýrihóps um skólastefnu og 5. liður er um umsókn Álfasteins um vottun sem “heilsuleikskóli”.

Sveitarstjórn samþykkti bókanir fræðslunefndar um sumarlokun og um umsókn um vottun sem “heilsuleikskóli”. Þá samþykkti sveitarstjórnin að skipa Axel Grettisson, Garðar Lárusson, Ingileif Ástvaldsdóttur og Líneyju S. Diðriksdóttur í stýrihóp um gerð skólastefnu fyrir sveitarfélagið. Að öðru leyti, og því sem fram kemur í 7. lið þessarar fundargerðar, gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

9. Rotþróamál, fyrirkomulag

Lagðar fram tillögur um samræmdar reglur um rotþróamál í sveitarfélaginu, sbr. 2. lið í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 10. nóvember 2010. Meginefni tillagnanna er sem hér segir:

· Sameiginleg samþykkt verði sett um fráveitur fyrir sveitarfélagið.

· Fráveitugjald/holræsagjald verði með sambærilegum hætti á Lónsbakka og Hjalteyri (að hluta) og verði miðað við hundraðshluta af fasteignamati.

· Sveitarfélagið eigi ekki fjárhagslega aðkomu að rotþróarframkvæmdum í dreifbýli.

· Tæming rotþróa verði skipulögð af sveitarfélaginu og að jafnaði gengið út frá því að rotþrær séu tæmdar reglulega.

· Rotþróargjald verði innheimt með öðrum fasteignagjöldum í samræmi við gjaldskrá.

· Rotþróargjald verði innheimt m.t.t. stærðar rotþróa.

Nefndin samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að tillögurnar verði lagðar til grundvallar við framkvæmd fráveitumála í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um framangreinda framkvæmd fráveitumála í sveitarfélaginum frá og með árinu 2011.

 

10. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 10. nóvember 2010

Fundargerðin er í fjórum liðum, einn þeirra var afgreiddur í dagskrárliðnum hér á undan. Í 3. lið fundargerðarinnar er fjallað um tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrarbæjar, þ.e. um afmörkun 1,8 ha svæðis fyrir þjónustustofnanir við Vestursíðu og um skilgreiningu 2 ha svæðis með blandaðri landnotkun fyrir íbúðabyggð og þjónustustofnanir á sama svæði.

Sveitarstjórn samþykkti bókun skipulags- og umhverfisnefndar um ofangreinda tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar. Að öðru leyti, og því sem fram kemur í 9. lið þessara fundargerðar, gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

11. Jafnréttisáætlun 2010-2014

Lögð fram drög að jafnréttisáætlun 2010-2014 fyrir Hörgársveit, sem félagsmála- og jafnréttisnefnd hefur samið og samþykkt, sbr. 1. lið í fundargerð nefndarinnar 11. nóvember 2010.

Sveitarstjórn samþykkti jafnréttisáætlunina eins og hún var lögð fram, með einni breytingu í 2. kafla sem varðar jafnréttissjónarmið við ráðningum starfsmanna.

 

12. Málefni fatlaðra, drög að samningi

Lögð fram drög að samningi um sameiginlegt þjónustusvæði í Eyjafirði um þjónustu við fatlaða. Samningurinn er til kominn vegna færslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um næstkomandi áramót. Gert er ráð fyrir að aðilar að samningnum verði Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhreppur. Félagsmála- og jafnréttisnefnd fjallaði um drögin á fundi sínum 11. nóvember 2010, sbr. 2. fundargerðar þess fundar.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti drögin eins og þau voru lögð fram.

 

13. Fundargerð félagsmála- og jafnréttisnefndar, 11. nóvember 2010

Fundargerðin er í þremur liðum.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar að öðru leyti en því sem fram kemur í 11. og 12. lið þessarar fundargerðar.

 

14. Álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2011

Álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2010 í Arnarneshreppi og Hörgárbyggð var 13,28%, sem er gildandi hámark skv. lögum. Með yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga er gert ráð fyrir að hámarkið hækki í 14,53%.

Sveitarstjórn samþykkti að álagningarhlutfall útsvars á árinu 2011 verði samkvæmt leyfilegu hámarki.

 

15. Álagningarreglur fasteignagjalda 2011

Lögð fram og kynnt drög að álagningarreglum fasteignagjalda fyrir árið 2011 svo og drög að reglum um afslátt af fasteignaskatti fyrir tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr 4/1995.

Ákveðið var að fresta afgreiðslu álagningarreglnanna og afsláttarreglnanna.

 

16. Fjárhagsáætlun sveitarsjóðs fyrir árið 2011, fyrri umræða

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs fyrir árið 2011, þ.e. áætlun fyrir aðalsjóð, eignasjóð og fráveitu. Heildarniðurstaða draganna er að afgangur að fjárhæð 23,1 millj. kr. verði á rekstri samstæðunnar (A- og B-hluta) á árinu og að veltufé frá rekstri á árinu verði 44,0 millj. kr. Fram kom að nokkrir liðir draganna þarfnast nánari athugunar við.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 til frekari vinnslu og síðari umræðu.

 

17. Kjörskrá vegna kosninga til stjórnlagaþings

Lagður fram kjörskrárstofn fyrir Hörgársveit vegna kosninga til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010. Skv. honum eru á kjörskrá alls 442, 240 karlar og 202 konur.

Sveitarstjórn samþykkti ofangreindan kjörskrárstofn sem kjörskrá Hörgársveitar 27. nóvember 2010.

 

18. Minkaveiðar

Lögð fram drög að hugsanlegri kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga í Eyjafirði vegna minkaveiða í kjölfar minkaveiðiátaks í héraðinu sem stóð yfir 2006-2009.

Sveitarstjórn samþykkti að taka þátt í samvinnu sveitarfélaga í héraðinu um minkaveiðar. Jafnframt lýsti sveitarstjórn þeirri eindregnu skoðun sinni að minkaveiðar eigi alfarið að vera verkefni ríkisins og mælist til þess að sveitarfélögin í héraðinu þrýsti sameiginlega á um að það fyrirkomulag verði tekið upp sem fyrst.

 

19. Syðri-Bakki, verðmat

Lagt fram bréf, dags. 9. nóvember 2010, frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu með verðmati á landi Syðri-Bakka, sbr. samskipti Arnarneshrepps og ráðuneytisins á undanförnum árum um kaup á jörðinni eða hluta hennar.

Sveitarstjórn samþykkti að gera athugasemd við verðmatið.

 

20. Fiskverkunarhús á Hjalteyri, frystivélar

Lagt fram bréf, dags. 10. nóvember 2010, frá Jóhannesi og Þorvaldi Hermannssonum þar sem frystivélar í fiskverkunarhúsinu á Hjalteyri eru boðnar til kaups.

Sveitarstjórn samþykkti að teknar verði upp viðræður við bréfritara um málið.

 

21. Stígamót, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 1. nóvember 2010, frá Stígamótum, þar sem óskað er eftir fjárstyrk.

Sveitarstjórn hafnaði erindinu.

 

22. Snorraverkefnið, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 8. nóvember 2010, frá “Snorraverkefninu” þar sem farið er fram á stuðning við verkefnið, sem gengur út á að auka tengsl Íslendinga við samfélag fólks af íslenskum ættum í Norður-Ameríku.

Sveitarstjórn hafnaði erindinu.

 

23. Ungmennasamband Eyjafjarðar, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 9. nóvember 2010, frá Ungmennasambandi Eyjafjarðar (UMSE) þar sem farið er fram á áframhaldandi stuðning sveitarfélagsins við sambandið.

Sveitarstjórn samþykkti að Ungmennasambandi Eyjafjarðar verði veittur styrkur á árinu 2011 sem nemur 550 kr. á hvern íbúa.

 

24. Velferðarvaktin

Lagt fram bréf, dags. 25. október 2010, frá velferðarvakt félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem felur í sér áskorun um aðgæslu þegar ákvarðanir eru teknar í hagræðingarskyni.

Til kynningar.

 

25. Fundargerð fjallskilanefndar, 15. nóvember 2010

Fundargerðin er í fimm liðum. Í henni er m.a. gerð grein fyrir framkvæmd gangna sl. haust, þar á meðal að ekki hafi alls staðar verið gengið eins og fjallskilaboð sagði til um, og greint umræðum um fyrirhugaðan fund með fulltrúum Akrahrepps um aðkomu hreppsins að fjallskilum í Hörgársveit.

Sveitarstjórnin samþykkti að áréttaðar verði með bréfi til viðkomandi aðila þær reglur sem gilda um framkvæmd gangna og samþykkti jafnframt þau sjónarmið fram komu í fundargerðinni um fyrirhugaðan fund með fulltrúum Akrahrepps.

 

26. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 00:30.