Sveitarstjórn, fundur nr. 45

16.04.2014 15:00

Miðvikudaginn 16. apríl 2014 kl. 13:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Helgi Þór Helgason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Ársreikningur sveitarsjóðs 2013, síðari umræða

Fyrri umræða um ársreikning sveitarsjóðs fyrir árið 2013 fór fram 19. mars 2014. Þá var hann afgreiddur til síðari umræðu.

Sveitarstjórn staðfesti ársreikning sveitarsjóðs fyrir 2013 með undirritun sinni á ársreikninginn.

 

2. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar 9. apríl 2014

Fundargerðin er í fjórum liðum. Í henni eru fjórar tillögur til sveitarstjórnar, um afgreiðslutíma í Íþróttamiðstöð sumarið 2014, um tillögu að samningi milli sveitarfélagsins, Kvenfélags Hörgdæla og Leikfélags Hörgdæla um eignarhald á Félagsheimilinu Melum og tvær tillögur um menningarstefnu sveitarfélagsins, annars vegar um menningarstefnu fyrir sveitarfélagið 2014-2018 og hins vegar um aðgerðaráætlun menningarstefnunnar 2014-2016. Auk þess er einn liður fundargerðarinnar um málefni Hrauns í Öxnadal ehf.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu menningar- og tómstundanefndar um að Íþróttamiðstöð opni kl. 11:00 að morgni sumarið 2014, um framlagða tillögu nefndarinnar um eignarhald á Félagsheimilinu Melum, með breytingum sem gerðar voru á þeim á fundinum, og um framlagðar tillögur nefndarinnar um menningarstefnu fyrir sveitarfélagið og aðgerðaáætlun menningarstefnunnar. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Hjalteyri, breyting á deiliskipulagi

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi á Hjalteyri, sjá 5. lið þessarar fundargerðar. Skipulags- og umhverfisnefnd lagði til við sveitarstjórn að tillagan með breytingum, sjá 2. lið í fundargerð nefndarinnar 10. apríl 2014 verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrirliggjandi tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hjalteyrar, með þeirri breytingu að íbúðarbyggð við Bakkabraut á gildandi deiliskipulagi falli niður, verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

4. Möðruvallabakkar, framkvæmdaleyfi fyrir bakkavörnum

Lögð fram umsókn frá Hörgá sf. um framkvæmdaleyfi fyrir bakkavörnum á Möðruvallabökkum, sjá 5. lið þessarar fundargerðar. sbr. 4. lið í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að gefið verði út framkvæmdaleyfi til Hörgár sf. fyrir bakkavörnum við Möðruvallabakka í samræmi við þau gögn sem lögðu voru fram á fundinum. Framkvæmdaleyfisgjald kr. 49.000, greiðist.

 

5. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 10. apríl 2014

Fundargerðin er í fjórum liðum, tveir þeirra voru til afgreiðslu fyrr á fundinum. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um drög að deiliskipulagi á Lónsbakka og um tilkynningu frá Akureyrarbæ um breytingu á skipulagsáætlun.

Þeir liðir fundargerðar skipulags- og umhverfisnefndar, sem ekki voru afgreiddir í 3. og 4. lið þessarar fundargerðar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

6. Skipulag skólamála, yfirlit yfir helstu valkosti

Tekið fyrir að nýju yfirlit yfir helstu valkosti í skipulagi skólamála, sbr. fundargerðir sveitarstjórnar 19. febrúar og 19. mars 2014. Rætt um framtíðar-ráðstöfun á heimavistarálmu og tímaáætlun framkvæmda við hana og aðra hluta skólabyggingarinnar.

Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði ráðist í breytingar á skipulagi skólamála í sveitarfélaginu að svo stöddu, en í þess stað verði hagrætt í öllum rekstri sveitarfélagsins. Sveitarstjórn samþykkti að við gerð fjárhagsramma fyrir árið 2015 verði gert ráð fyrir hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og/eða hækkun tekjuliða sem nemi a.m.k. 15 millj. kr.

 

7. Þelamerkurskóli, stækkun anddyris o.fl., viðbótarverk

Rætt um þau verk sem koma til greina sem viðbótarverk verksins „Stækkun anddyris o.fl.“ í Þelamerkurskóla.

Sveitarstjórn samþykkti að gerðir verði samningar um eftirtalin verk í tengslum við yfirstandandi framkvæmdir við Þelamerkurskóla: (1) endurnýjun glugga í kennslustofum 1 og 2, (2) gerð nýrra glugga í kennslustofum 3 og 4, (3) endurgerð gólfa í snyrtingu nemenda og (4) breytingar á viðvörunarkerfi, í öllum tilvikum á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir lágu á fundinum.

 

8. Lagning ljósleiðara, samningur um styrkveitingu

Lögð fram drög að samningi við Tengi hf. um styrkveitingu til uppbyggingar ljósleiðaranets, ásamt viðaukum, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 19. mars 2014.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti framlögð drög að samningi við Tengi hf. um styrkveitingu vegna lagningar ljósleiðara um sveitarfélagið.

 

9. Fjárhagsáætlun 2014, viðauki 02/2014

Lögð fram tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2014, sem hefur auðkennið 02/2014.

Sveitarstjórn samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2014 með auðkennið 02/2014, sem gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði neikvæð sem nemur 22.226 þús. kr.

 

10. Laugaland, breyting á eignarhaldi

Lagt fram til kynningar tölvubréf, dags. 15. janúar 2014, frá Legati Jóns Sigurðssonar þar sem skýrt er frá kaupum Norðurorku hf. á Laugalandi og að þar með snúi viðræður um kaup sveitarfélagins á jörðinni, eða hluta hennar, ekki lengur að Legatinu, sbr. samþykkt sveitarstjórnar um málið 12. desember 2013.

 

11. Hólar, tilnefning fulltrúa í samstarfsnefnd um gerð verndaráætlunar

Lagt fram tölvubréf, dags. 24. mars 2014, frá Umhverfisstofnun, þar sem óskað er eftir tilnefningu sveitarfélagsins í samstarfsnefnd um gerð verndaráætlunar fyrir væntanlegt friðland í Hólum.

Sveitarstjórn tilnefndi Guðmund Sigvaldason í samstarfsnefnd um gerð verndaráætlunar fyrir væntanlegt friðland í Hólum.

 

12. Leiga á túnum og landspildum

Rætt um fyrirkomulag á útleigu á túnum og landspildu í eigu sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti að gefa þeim sem höfðu afnt af viðkomandi túnum/landspildu sumarið 2013 að framlengja viðkomandi samninga til áramóta 2014/2015.

 

13. Refaveiðar, þriggja ára áætlun

Lagt fram tölvubréf, dags. 11. apríl 2014, frá Umhverfisstofnun, þar sem gerð er grein fyrir drögum að þriðja ára áætlun um refaveiðar í landinu. Óskað er umsagnar sveitarfélagsins um drögin.

Sveitarstjórn fagnaði því að aftur verði veitt fjármagn af fjárlögum til refaveiða og jafnframt að í drögum að áætlun um refaveiðar verði tekið tilliti til sanngirnissjónarmiða varðandi landstór en fámenn sveitarfélög.

 

14. Hjalteyri ehf., aðalfundarboð

Lagt fram aðalfundarboð Hjalteyrar ehf. Aðalfundurinn verður 13. maí 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að Guðmundur Sigvaldason fari með umboð sveitarfélagsins á aðalfundi Hjalteyrar ehf. 27. mars 2014.

 

15. Innanríkisráðuneytið, álit um framkvæmd útboðs á skólaakstri

Lagt fram bréf, dags. 21. mars 2014, frá innanríkisráðuneytinu, sem er fylgibréf með áliti ráðuneytisins í máli nr. IRR13110143, sem varðar ákvarðanir um verktaka  við skólaakstur 2013-2014. Einnig var lagt fram bréf, dags. 2. apríl 2014, frá FAB Travel þar sem óskað er eftir að Hörgársveit „hafi frumkvæði að því að leitað verið leitað leiða til að bæta það tjón sem varð að ákvörðun sveitarstjórnarinnar“ í málinu.

Samþykkt var að veita sveitarstjóra umboð til að bregðast við bréfi FAB Travel, dags. 2. apríl 2014, í samræmi við umræður á fundinum, og að leitað verði til Ólafs Rúnars Ólafssonar hrl. um ráðgjöf í málinu.

 

16. Biskupsstofa, velferð dýra í fjárhúsi að Möðruvöllum I

Lagt fram tölvubréf, dags. 10. apríl 2014, frá Biskupsstofu þar sem óskað er eftir atbeina sveitarfélagsins til að fjarlægja um 17 kindur úr fjárhúsi að Möðruvöllum I, með vísan til 24. gr. Iaga um velferð dýra nr. 55/2013.

Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði orðið við erindinu að svo stöddu.

 

17. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 17:15