Sveitarstjórn, fundur nr. 33

20.03.2013 20:00

Miðvikudaginn 20. mars 2013 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Helgi Þór Helgason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fundargerðir heilbrigðisnefndar, 7. nóvember og 4. desember 2012 og 6. febrúar 2013

Fyrsta fundargerðin er í fimm liðum, auk afgreiðslu á 9 umsóknum um starfsleyfi og „annarra mála“. Önnur fundargerðin er í sex liðum, auk afgreiðslu á tveimur umsóknum um starfsleyfi. Síðasta fundargerðin er í níu liðum, auk afgreiðslu á 9 umsóknum um starfsleyfi og „annarra mála“. Enginn þessara liða varða Hörgársveit með beinum hætti.

Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

2. Hlaðir, framkvæmdaleyfi vegna efnistöku

Lagt fram bréf, dags. 21. febrúar 2013, frá Skútabergi ehf. og Félagsbúinu Hlöðum þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í landi Hlaða sem nemur 49.900 m3, sbr. 3. lið þessarar dagskrár. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að umbeðið framkvæmdaleyfi verði veitt, með tilteknu skilyrði.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að gefið verði út framkvæmdaleyfi með gildistími til 31. desember 2017 fyrir efnistöku í landi Hlaða sbr. fyrirliggjandi gögn, með þeim skilmálum að raskað svæði vegna efnistökunnar verði minna en 2,5 ha, að frágangur verði í samræmi við þær hugmyndir sem fram koma í umsókninni og að óskað verði eftir því við Umhverfisstofnun að trygging vegna frágangs svæðisins verði lögð fram, sbr. 48. gr. laga um náttúruvernd. Framkvæmdaleyfisgjald, kr. 49.000, greiðist, auk þess að mælingar vegna magntöku greiðist skv. reikningi.

 

3. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 27. febrúar 2013

Fundargerðin er í fimm liðum. Einn þeirra, um efnistöku á Hlöðum, var til afgreiðslu í dagskrárliðnum hér að framan. Í fundargerðinni eru tvær aðrar tillögur til sveitarstjórnar, þ.e. um lýsingu á skipulagsverkefninu „Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024“ og um umsagnir um drög að tillögu að aðalskipulaginu. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um drög að aðalskipulagi og um upplýsingafund um úrgangsmál.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur skipulags- og umhverfisnefndar um að ný lýsing á skipulagsverkefninu „Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024“, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 verði samþykkt, eins og hún liggur fyrir, og að hún verði kynnt skv. lögum, og að skipulagsráðgjafa verði falið að gera breytingar á tillögudrögum aðalskipulagsins í samræmi við tillögur hansum viðbrögð við framkomnar umsagnir um þær. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Skólaakstur

Fram kom að gildandi samningar um skólaakstur vegna Þelamerkurskóla renna út við lok núverandi skólaárs. Rætt um fyrirkomulag skólaaksturs á næsta skólaári.

Sveitarstjórn samþykkti að skólaakstur fyrir Þelamerkurskóla á skólaárinu 2013-2014 verði boðinn út í samræmi við fyrirkomulag sem rætt var um á fundinum.

 

5. Fundargerð fræðslunefndar, 11. mars 2013

Fundargerðin er í níu liðum. Einn þeirra, um skólaakstur, var til afgreiðslu í dagskrárliðnum hér að framan. Í fundargerðinni eru ein önnur tillaga til sveitarstjórnar, um úttekt á húsnæði Þelamerkurskóla. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um tímasetningu á sumarlokun leikskóla, um eldvarnaskýrslur leikskóla og grunnskóla, sumarnámskeið í leikskóla fyrir grunnskólabörn, starfsáætlanir grunnskóla og leikskóla skólaárið 2013-2014, um segulsvið og rafmengun og um niðurstöður Olweusar könnunar.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu fræðslunefndar um að undirbúið verði útboð á hönnun þeirra viðhaldsverkefna sem fyrirliggjandi úttekt á húsnæði Þelamerkurskóla kveður á um. Til að hafa umsjón með undirbúningnum var samþykkt að skipa vinnuhóp, sem í eiga sæti Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Sunna H. Jóhannesdóttir. Þá samþykkti sveitarstjórnin að fyrirspyrjanda um segulsvið og rafmengun verði veittar upplýsingar um þær ráðstafanir sem gerðar voru í þeim efnum á árunum 2008 og 2009. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

6. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 12. mars 2013

Fundargerðin er í níu liðum. Í henni eru þrjár tillögur til sveitarstjórnar, um samstarfssamning við Gásakaupstað um Miðaldadaga, um styrk til Leikfélags Hörgdæla og um styrktarsamning við Verksmiðjuna á Hjalteyri. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um eldvarnaskýrslu fyrir Íþróttamiðstöðina, landsmót 50+ 2015, samning um Héraðsskjalasafnið á Akureyri, gjaldskrá Hlíðarbæjar, íbúafund um menningar- og tómstundamál og fund ferðaþjónustuaðila.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur menningar- og tómstundanefndar um samstarfssamning við Gásakaupstað um Miðaldadaga, um styrk til Leikfélags Hörgdæla og um styrktarsamning við Verksmiðjuna á Hjalteyri með þeirri breytingu að upphæð styrktarsamningsins verði kr. 400.000. Að öðru leyti gefur fundargerð ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

7. Ós, sala á landspildum

Þann 14. mars 2013 voru opnuð tilboð í þrjár landspildur úr jörðinni Ós, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 16. janúar 2013. Í spildu A bárust tvö tilboð, það hæsta að fjárhæð kr. 2.200.000, í spildu B bárust fimm tilboð, það hæsta að fjárhæð kr. 2.700.000 og í spildu C bárust sex tilboð, það hæsta að fjárhæð kr. 4.750.000. Í útboðsgögnum var áskilinn réttur til að taka hvaða tilboði sem er og hafna öllum.

Sveitarstjórn samþykkti að hafna öllum tillboðum í allar spildurnar.

 

8. Sláturhús B. Jensen, frárennsli

Gert var grein fyrir viðræðum sem fram hafa farið við Raf ehf. um búnað til að hreinsa frárennsli frá sláturhúsi B. Jensen á Lónsbakka. Sótt hefur verið um leyfi heilbrigðiseftirlits til að nota þann búnað, sem um ræðir, en afgreiðsla umsóknarinnar liggur ekki fyrir.

Sveitarstjórn samþykkti að gerður verði samningur við Raf ehf. um búnað til að hreinsa frárennsli frá sláturhúsi B. Jensen á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir lágu á fundinum og starfsleyfis heilbrigðiseftirlits.

 

9. Liðsstyrkur, atvinnuátaksverkefni

Lagt fram bréf, dags. 25. febrúar 2013, frá „Liðsstyrk“ um atvinnuátaksverkefni sveitarfélaga, ríkis, atvinnurekenda og stéttarfélaga.

Sveitarstjórn samþykkti að skráð verði störf fimm verkamanna í „starfabanka“ atvinnuátaksverkefnis sveitarfélaga, ríkis, atvinnurekenda og stéttarfélaga.

 

10. Moldhaugaháls, efnistaka

Lagt fram bréf, dags. 12. mars 2013, frá Skútabergi ehf., þar sem óskað eftir fresti til 1. september 2013 til að afla framkvæmdaleyfis vegna efnistöku á Moldhaugahálsi, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 20. febrúar 2013.

Sveitarstjórn samþykkti að veita Skútabergi ehf. frest til 1. september 2013 til að afla framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku fyrirtækisins á Moldhaugahálsi.

 

11. Björg, efnistaka

Lagt fram bréf, dags. 12. mars 2013, frá GV Gröfum ehf., þar sem óskað eftir fresti til 1. september 2013 til að afla framkvæmdaleyfis vegna efnistöku á Björgum, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 20. febrúar 2013.

Sveitarstjórn samþykkti að veita GV Gröfum ehf. frest til 1. september 2013 til að afla framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku fyrirtækisins á Björgum.

 

12. Hjalteyri ehf., forkaupsréttur hlutafjár

Lagt fram tölvubréf, dags. 14. mars 2013, frá Hjalteyri ehf., þar sem gerð er grein fyrir samþykkt aðalfundar félagsins um aukningu hlutafjár í félaginu og um forkaupsrétt núverandi hluthafa á aukningunni.

Sveitarstjórn samþykkti að nýta ekki forkaupsrétt sveitarfélagsins að viðbótarhlutafé í Hjalteyri ehf. að þessu sinni.

 

13. Fjargæsla fyrir stofnanir sveitarfélagsins

Lagðar fram upplýsingar um kostnað við fjargæslu stofnana sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti að gerður verði samningur við Securitas hf. um fjargæslu og úttektarsamninga fyrir allar stofnanir sveitarfélagsins á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir lágu á fundinum.

 

14. Gásakaupstaður ses., aðalfundarboð

Lagt fram fundarboð aðalfundar Gásakaupstaðar ses. Aðalfundurinn verður haldinn 22. mars 2013.

Sveitarstjórn samþykkti að Guðmundur Sigvaldason fari með atkvæði Hörgársveitar á aðalfundi Gásakaupstaðar ses. þann 22. mars 2013.

 

15. Norðurorka hf., aðalfundarboð

Lagt fram fundarboð aðalfundar Norðurorku hf. Aðalfundurinn verður haldinn 22. mars 2013.

Sveitarstjórn samþykkti að Hanna Rósa.Sveinsdóttir fari með atkvæði Hörgársveitar á aðalfundi Norðurorku hf. þann 22. mars 2013.

 

16. Velferðarvaktin, málefni fjölskyldna

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 20. febrúar 2013, frá Velferðarvaktinni þar sem sveitarfélög eru hvött til að setja sér fjölskyldustefnu.

 

17. Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra

Lögð fram til kynningar „Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra 2013“.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 23:00.