Sveitarstjórn, fundur nr. 22

21.03.2012 20:00

Miðvikudaginn 21. mars 2012 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Ársreikningur sveitarsjóðs fyrir árið 2011, fyrri umræða

Lagður fram ársreikningur sveitarsjóðs fyrir árið 2011. Skv. ársreikningnum urðu rekstrartekjur sveitarsjóðs alls 425,9 millj. kr. og rekstrargjöld 388,1 millj. kr. á árinu 2011. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 14,3 millj. kr., en bakfærsla skuldabréfs vegna stofnfjárkaupa í Sparisjóði Norðlendinga færðist sem tekjur upp á 43,2 millj. kr. Heildarrekstrarniðurstaða sveitarsjóðs á árinu varð því jákvæð upp á 66,8 millj. kr. Veltufé frá rekstri á árinu var 52,0 millj. kr. Handbært fé í árslok var 65,7 millj. kr. og hækkaði um 15,5 millj. kr. milli ára.

Davíð Búi Halldórsson, löggiltur endurskoðandi, kom á fundinn, fór yfir ársreikninginn og svaraði fyrirspurnum um hann.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa ársreikningi sveitarsjóðs fyrir 2011 til síðari umræðu.

 

2. Samningur um ráðgjafarþjónustu

Lögð fram drög að samningi um ráðgjafarþjónustu milli sveitarfélagsins og Akureyrarbæjar, sbr. fundargerð félagsmála- og jafnréttisnefndar 9. febrúar 2012 og fundargerð fræðslunefndar 28. febrúar 2012. Báðar nefndirnar leggja til að þau verði samþykkt. Samningurinn fjallar um ráðgjöf vegna fjárhagsaðstoðar, heimaþjónustu, barnaverndar og sérfræðiþjónustu í leikskóla og grunnskóla. Hann gerir ráð fyrir samskonar fyrirkomulagi og verið hefur í þessum efnum undanfarin ár.

Sveitarstjórn samþykkti framlögð drög að samningi við Akureyrarbæ um ráðgjafarþjónustu, eins og þau voru lögð fram.

 

3. Fundargerð fræðslunefndar, 28. febrúar 2012

Fundargerðin er í tíu liðum. Þar er gerð tillaga til sveitarstjórnar um afgreiðslu á drögum að samningi um ráðgjafarþjónustu, sjá dagskrárliðinn hér á undan. Þá eru í fundargerðinni samþykktir um sumarlokun leikskólans og um leikskóladvöl barns með lögheimili utan sveitarfélagsins. Aðrir liðir varða yfirlit yfir rekstur fræðslu- og uppeldismála 2011, starfsáætlanir fyrir næsta skólaár, bréf kirkjuráðs um samskipti skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa, bréf um dagsetningar samræmdra prófa 2012, bréf um úttekt á grunnskólastarfi, fyrirspurn um gistingu íþróttahópa og niðurstöðu Olweusar-könnunar.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 1. mars 2012

Fundargerðin er í tíu liðum, auk afgreiðslu á fjórtán umsóknum um starfsleyfi. Sjöundi liður fundargerðarinnar varðar Hörgársveit, sem er um umsögn um tillögu að matsáætlun vegna efnistöku að Björgum II.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

5. Fundargerð atvinnumálanefndar, 19. mars 2012

Fundargerðin er í einum lið, þar sem tekin er að nýju fyrir fyrirspurn um afstöðu sveitarfélagsins til tiltekinnar uppbyggingar á Dysnessvæðinu, sbr. fundargerð atvinnumálanefndarinnar 13. febrúar 2012.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu atvinnumálanefndar um að sveitarfélagið styðji á markvissan hátt Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar í viðleitni félagsins við að koma atvinnustarfsemi í gang á Dysnessvæðinu í samræmi við gildandi aðalskipulag, til að sem fjölbreytilegast atvinnulíf þróist í sveitarfélaginu.

 

6. Efnistaka úr Hörgá

Rætt um þá hugmynd að sveitarfélagið beiti sér fyrir sérstöku samkomulagi allra hlutaðeigandi aðila um sjálfbæra efnistöku úr Hörgá á næstu 10-15 árum.

Sveitarstjórn samþykkti að haldinn verði fundur hlutaðeigandi aðila þar sem þess verði freistað að skapa samstöðu um kortlagningu þeirra staða sem helst koma til greina til efnistöku í og við Hörgá og um sameiginlega yfirlýsingu um málið.

 

7. Engimýri, rekstrarleyfi

Lagt fram bréf, dags. 27. febrúar 2012, frá Sýslumanninum á Akureyri þar sem óskað er umsagnar um umsókn um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki V fyrir Gistiheimilið Engimýri.

Sveitarstjórn samþykkti að af hennar hálfu verði ekki gerð athugasemd við útgáfu rekstrarleyfis í flokki V fyrir Gistiheimilið Engimýri.

 

8. Hörgárbrú - Björg, reiðvegur

Lagt fram bréf, dags. 18. mars 2012, frá Jóni Páli Tryggvasyni o.fl. þar sem óskað er eftir þátttöku sveitarfélagsins í kostnaði við endurbætur á reiðvegi frá Hörgárbrú að Björgum.

Sveitarstjórn samþykkti að styrkja endurbætur á reiðvegi frá Hörgárbrú að Björgum um kr. 100.000.

 

9. Lánasjóður sveitarfélaga ohf., aðalfundarboð

Lagt fram aðalfundarboð Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. vegna ársins 2011. Aðalfundurinn verður 23. mars 2012.

Sveitarstjórn samþykkti að Hanna Rósa Sveinsdóttir fari með atkvæði Hörgársveitar á aðalfundi Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. þann 23. mars 2012.

 

10. Gásakaupstaður ses., aðalfundarboð

Lagt fram aðalfundarboð Gásakaupstaðar ses. vegna ársins 2011. Aðalfundurinn verður 28. mars 2012.

Sveitarstjórn samþykkti að Guðmundur Sigvaldason fari með atkvæði Hörgársveitar á aðalfundi Gásakaupstaðar ses. þann 28. mars 2012.

 

11. Amtmannssetrið á Möðruvöllum ses., aðalfundarboð

Lagt fram aðalfundarboð Amtmannssetursins á Möðruvöllum ses. vegna ársins 2011. Aðalfundurinn verður 1. apríl 2012.

Sveitarstjórn samþykkti að Hanna Rósa Sveinsdóttir fari með atkvæði Hörgársveitar á aðalfundi Amtmannssetursins á Möðruvöllum ses. þann 1. apríl 2012.

 

12. Efling sveitarstjórnarstigsins, skýrsla nefndar

Lagt fram til kynningar bréf frá innanríkisráðuneytinu, dags. 2. mars 2012, um störf nefndar sem vinna skyldi að eflingu sveitarstjórnarstigsins í landinu. Einnig var lögð fram til kynningar lokaskýrsla nefndarinnar.

 

13. Orkustofnun, staða nýtingarleyfa á köldu vatni

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 28. febrúar 2012, frá Orkustofnun þar sem gerð er grein fyrir lagaákvæðum um nýtingarleyfi á köldu vatni.

 

14. Fundargerð stjórnar Eyþings, 31. janúar 2012

Fundargerðin er í níu liðum.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

15. Viðtalstími sveitarstjórnarfulltrúa, yfirlit 27. febrúar 2012

Lagt fram yfirlit yfir viðtalstíma sveitarstjórnarfulltrúa, sem var 27. febrúar 2012. Í viðtalstímann kom einn og tveir hringdu.

 

16. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 23:55.