Sveitarstjórn, fundur nr. 144

15.12.2022 16:00

Sveitarstjórn Hörgársveitar

144. fundur

Fundargerð

 

Fimmtudaginn 15. desember 2022 kl. 16:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í Bitrugerði.

Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

Þetta gerðist:

1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 14.12.2022

Fundargerðin lögð fram og er hún í 8 liðum og þarfnast 6 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, Dalvíkurlína 2

Kynningartímabili aðalskipulagstillögu vegna Dalvíkurlínu 2 og göngu-, hjóla- og reiðleiða meðfram strengleiðinni lauk 18. nóvember 2022. Fyrir fundinum liggja skipulagsuppdráttur og greinargerð dags. 12. desember 2022 sem uppfærð hafa verið með hliðsjón af endurgjöf sem barst á kynningartímabilinu.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa aðalskipulagstillögunni í auglýsingu skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

b) Í lið 2, göngu- og hjólastígur

Við kynningu aðalskipulagstillögu vegna Dalvíkurlínu 2 voru allir landeigendur á strengleiðinni boðaðir til fundar og rætt við þá um legu hjóla- og gönguleiðar samhliða jarðstrengnum. Í kjölfar þessa samráðs var mótuð tillaga um legu göngu- og hjólaleiðar frá Lónsbakkahverfi að Þelamerkurskóla annars vegar og hins vegar frá gatnamótum Ólafsfjarðarvegar á Moldhaugnahálsi að Hofi og þaðan meðfram Bakkavegi að Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti að ofangreindar göngu- og hjólaleiðir verði færðar inn á aðalskipulagsuppdrátt vegna Dalvíkurlínu 2, og vísar þeim í auglýsingu skv. bókun við 1. dagskrárlið.

c) Í lið 3, reiðstígar

Hörgársveit hyggst nýta vinnuslóða sem lagður verður vegna Dalvíkurlínu 2 sem reiðleið á kaflanum frá Ásláksstöðum við sveitarfélagsmörk Akureyrarbæjar meðfram Hlíðarvegi (nr 818) að Hraukbæjarkoti og þar að þjóðvegi 1.

Sveitarstjórn samþykkti að lega reiðleiðar meðfram Hlíðarvegi skuli löguð að strengleið Dalvíkurlínu 2 á aðalskipulagsuppdrætti vegna Dalvíkurlínu 2, og vísar henni í auglýsingu skv. bókun við 1. dagskrárlið.

d) Í lið 4, Fossá, efnistaka vegna bakkavarna.

Fyrir fundinum liggur erindi frá Birni Jóhanni Steinarssyni sem óskar eftir heimild sveitarstjórnar til að taka 1000 rúmmetra af möl úr farvegi Fossár við þjóðveg 1. Tilefni efnistökunnar er að svo mjög hefur safnast af möl í farveg árinnar á þessum stað að hún flæðir yfir bakka sína. Erindinu fylgir leyfi Fiskistofu vegna efnistökunnar. Efnistökusvæðið er á svæði 9 samkvæmt aðalskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkti erindið og að framkvæmdaleyfi verði gefið út þegar samþykki allra eigenda jarða á svæði 9 liggur fyrir.

e) Í lið 6, kvikmyndaverkefni Hjalteyri og Syðri-Bakka

Lagt fram erindi þar sem óskað er heimildar til kvikmyndatöku á Hjalteyri. Eins er óskað eftir heimild til að koma fyrir tímabundinni leikmynd að Syðri-Bakka.

Sveitarstjórn samþykkti erindið og er umsóknaraðila gert að hafa samráð við skipulags- og/eða byggingarfulltrúa vegna leyfisskyldra framkvæmda og frágangs í tengslum við verkefnið.

f) Í lið 8, nafn á þéttbýlinu við Lónsá

Sveitarstjórn samþykkti tillögu nefndarinnar um að þéttbýlið við Lónsá fái formlega nafnið „Lónsbakkahverfi“.

2. Fundargerð ungmennaráðs frá 1. fundi

Fundargerðin lögð fram. Ungmennaráðið beindi því til sveitarstjórnar að hún tæki frístundastyrk til barna og ungmenna í Hörgársveit til endurskoðunar þar sem ungmenni í sveitarfélaginu fá ekki styrk eftir 16 ára aldur en sjálfræðisaldurinn er 18 ára.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu til atvinnu- og menningarnefndar sem skoði reglur um aldur þeirra sem hljóta sambærilega styrki í öðrum sveitarfélögum.

3. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 48. fundi

Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá 915. fundi

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð stjórnar Norðurorku frá 280. fundi

Fundargerðin lögð fram.

6. Sýslumaðurinn Norðurlandi eystra, umsögn v. tækifærisleyfa

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi til skemmtanahalds vegna dansleiks á Melum í Hörgársveit þann 30.12.2022.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd fyrir sitt leyti við að leyfið verði veitt.

Þá var lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi til skemmtanahalds vegna þorrablóts á Melum í Hörgársveit þann 28.01.2023.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd fyrir sitt leyti við að leyfið verði veitt.

7. Lækjarvellir land 2, kaupsamningur/afsal

Lagður fram samningur vegna kaupa Hörgársveitar á landspildunni Lækjarvellir land 2, landnúmer L235068.

Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

8. Amtmannssetrið á Möðruvöllum ses, aðalfundur

Aðalfundur Amtmannssetursins á Möðruvöllum ses hefur verið boðaður

9. Fjárhagsáætlun 2023-2026, síðari umræða

Fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og veitna fyrir árin 2023-2026 var tekin til síðari umræðu. Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun þessara ára. Þá var lögð fram greinargerð sveitarstjóra varðandi tillögu að fjárhagsáætlun.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og stofnana hans fyrir árin 2023-2026.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að á árinu 2023 verði rekstrartekjur 1059 millj. kr., að heildarrekstrarkostnaður A-hluta verði 1015 millj. kr. og að rekstrarhalli veitna verði 2 millj. kr. Heildar rekstrarafgangur verði því 42 millj.kr.

Veltufé frá rekstri verði 112 millj. kr.

Áætlað er að til framkvæmda og annarra eignabreytinga á árinu verði varið 320 millj. kr. Þar ber hæst framkvæmdir við viðbyggingu við leikskólann Álfastein, endurbætur við Þelamerkurskóla og framkvæmdir við malbikun gatna og frágang gangstétta og opinna svæða í Lónsbakkahverfi.

Ný lántaka er áætluð 250 millj. kr. á árinu 2023.

Þá er áætlað að handbært fé í árslok 2023 verði 33 millj. kr.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir að afgangur af rekstri samstæðunnar verði 51 millj. kr., á árinu 2025 verði hann 71 millj. kr. og 67 millj. kr. á árinu 2026.

10. Trúnaðarmál

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 17:50