Sveitarstjórn fundur nr. 135

31.03.2022 15:30

Sveitarstjórn Hörgársveitar

135. fundur

Fundargerð 

Fimmtudaginn 31. mars 2022 kl.15:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Fundarmenn:  Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Jónas Þór Jónasson og María Albína Tryggvadóttir.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1. Ársreikningur Hörgársveitar 2021, fyrri umræða

Lagður fram ársreikningur fyrir árið 2021.

Samkvæmt ársreikningnum urðu rekstrartekjur alls 854,3 millj. kr. og rekstrargjöld 788,4 millj. kr. á árinu 2021. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 10,2 millj. kr. 

Heildarrekstrarniðurstaða á árinu varð því jákvæð upp á 55,7 millj. kr.

Eigið fé í árslok er 865 millj. kr. og jókst um 94,1 millj. frá árinu áður. Veltufé frá rekstri á árinu var 92,5 millj. kr. Nettó fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum var 134 millj. kr. og skuldir og skuldbindingar hækkuðu um kr. 57 millj á árinu vegna lántöku til fjárfestinga og eru skuldir í árslok 31,4% af tekjum. Handbært fé í árslok var 60,7 millj. kr. og jókst um 15,2 millj. kr. milli ára.

Aðalheiður Eiríksdóttir frá PriceWaterhouseCoopers kom á fundinn, fór yfir ársreikninginn og svaraði fyrirspurnum um hann.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa ársreikningi Hörgársveitar fyrir árið 2021 til síðari umræðu.

2. Fundargerð rekstrar- og framkvæmdanefndar frá 17.03.2022

Fundargerðin og fylgigögn eru meðfylgjandi.  Kynntar voru teikningar og kostnaðaráætlun vegna næstu framkvæmda við Álfastein. Útboð hefur verið auglýst og er tilboðsfrestur til 22. apríl n.k.  Niðurstaða útboðs ásamt fjárhagslegri greinargerð vegna framkvæmdarinnar verður lögð fyrir næsta fund sveitarstjórnar. Einnig voru kynntar teikningar og  kostnaðaráætlun vegna framkvæmda við lóð og bílastæði við Álfastein en vinna við þær munu hefjast næstu daga.

3. Þelamerkurskóli, bygging tengibyggingar

Kynntar voru teikningar að tengibyggingu milli skóla- og heimavistarálmu.  Rætt um áfangaskipta verkinu og hefja uppsteypu sem allra fyrst. 

Sveitarstjórn samþykkti að ganga til samninga við Tréverk ehf um uppsteypu tengibyggingar við Þelamerkurskóla í samræmi við þá verð- og verkáætlun sem fyrir liggur.

4. Fundargerð fræðslunefndar frá 21.03.2022

Fundargerðin lögð fram ásamt fylgigögnum er hún í 13 liðum og þarfnast 3 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, skýrsla leikskólastjóra

Leikskólastjóri lagði til að stjórnunarhlutfall verði aukið vegna anna við framhald stækkunar og að leikskólinn dragi sig út úr ytra mati sem ráðgert var að fara í af sömu ástæðu.  Lagt fram bréf frá stjórn foreldrafélags Álfasteins þar sem því er beint til sveitarstjórnar að skoðað verði með að auka við stöðugildi aðstoðarleikskólastjóra og sérkennara eða skoða þann kost að mynda sérstakt sérkennsluteymi.

Sveitarstjórn samþykkti að starfshlutfall aðstoðarleikskólastjóra verði hækkað í 50% meðan á framkvæmdum stendur eða til 30.6.2023 og verði þá endurskoðað.

Sveitarstjórn samþykkti að hætt verði við ytra mat að sinni.

Hvað varðar bréf frá foreldrafélagi Álfasteins þá verði erindi þess skoðað með skólastjórnendum.

b) Í lið 4, endurskoðun gjaldskrár og endurmat á inntökureglum

Rætt var um endurskoðun á gjaldskrá leikskóla og endurmati á inntökureglum.

Sveitarstjórn samþykkti að taka inntökureglur leikskólans til heildarendurskoðunar frá og með næsta hausti og að afsláttarliðir gjaldskrár verði endurskoðaðir við næstu gjaldskrárbreytingar. 

c) Í lið 7, ungmennaráð, tillögur að reglum

Lagðar fram reglur fyrir fyrirhugað ungmennaráð.

Sveitarstjórn samþykkti reglur fyrir fyrirhugað ungmennaráð sem skipað verði í, fyrir   1. október n.k.

d) Í lið 10, skýrsla skólastjóra

Rætt um niðurstöður úr nemendakönnun og lýsir sveitarstjórn vilja til að vinna með skólanum í að efla sjálfstraust nemenda.

5. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 22.03.2022

Fundargerðin lögð fram og er hún í 6 liðum og þarfnast 3 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 2, Glæsibær/Hagabyggð, aðal- og deiliskipulag

Lagðar fram athugasemdir sem bárust á kynningartímabili skipulagstillagna.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrirvari um nábýli landbúnaðar og íbúðarbyggðar, sambærilegur og er í kafla 4.3. í greinargerð skipulagsbreytingar frá 2020, verði bætt við greinargerð aðalskipulags nú.

Sveitarstjórn samþykkti að svo breytt aðalskipulagstillaga og deiliskipulagstillaga verði auglýstar samkvæmt 31. og 41. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

b) Í lið 4, Akureyrarbær, umsagnarbeiðni vegna Móahverfis

Lagt fram erindi frá Akureyrarbæ þar sem óskað er umsagnar á tillögu að deiliskipulagi fyrir Móahverfi.

Sveitarstjórn Hörgársveitar minnir á mikilvægi þess að vegtengingar standist á, á sveitarfélagamörkum. Að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við tillöguna.

c) Í lið 6, Glæsibær, umsókn um breytingu á lóðarmörkum

Lagt fram erindi frá GLB17 ehf. um breytingu á lóðarmörkum lóðarinnar nr. L220435 til samræmis við meðfylgjandi mæliblað.

Sveitarstjórn samþykkti erindið.

6. Fundargerð HNE frá 223. fundi

Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 36. fundi

Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð stjórnar SSNE frá 36. fundi

Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 907. fundi

Fundargerðin lögð fram.

10. Fundargerð stjórnar Norðurorku frá 271. fundi

Fundargerðin lögð fram.

11. Vottunaraðili jafnlaunavottunar

Lagt fram minnisblað sveitarstjóra og kostnaðaráætlun frá Icert vegna yfirtöku á samningi um vottun jafnlaunakerfis sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti að segja upp samningi við Versa vottun og ganga til samninga við Icert um yfirtökuna.

12. Lánasjóður sveitarfélaga, aðalfundarboð

Fundarboðið lagt fram. Sveitarstjóri mun fara með umboð sveitarfélagsins í fundinum, sem verður í fjarfundi.

13. Dómsmálaráðuneyti, bréf v. sýslumannsembætta

Bréfið lagt fram.

14. Sveitarfélagið Vogar, bréf

Bréfið lagt fram.

Sveitarstjórn Hörgársveitar tekur undir mótmæli Sveitarfélagsins Voga vegna frumvarps til laga um að veita Landsneti framkvæmdaleyfi til lagningar Suðurnesjalínu 2 í lofti í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn Hörgársveitar telur að með frumvarpinu sé gengið gegn grundvallaratriði stjórnskipunar um að skipulagsvaldið verði áfram hjá sveitarfélögunum. Verði þetta frumvarp að lögum mun það verða fordæmisgefandi og ógna sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga um ókomna tíð.

15. Aðalfundur Norðurorku, fundarboð

Fundarboðið lagt fram.

16. Hjalteyri, íbúðarhúsalóðir

Alain Mario Goethals kt. 171273-3319, sækir um lóðirnar nr. 7 og 8 við Brekkuhús (innst í neðri götu) og hefur lagt fram ákveðna verðhugmynd fyrir lóðirnar.

Sveitarstjórn samþykkti að ganga til samninga um sölu lóðanna.

17. Þjónustumiðstöð starfsmannahald 

Umræða um starfsmannahald þjónustumiðstöðvar og var ákveðið að auglýsa eftir starfsmanni í fullt starf til frambúðar.

18. Trúnaðarmál

Fært í trúnaðarmálabók.

Ásrún Árnadóttir og Jón Þór Benediktsson véku af fundi og í stað þeirra tóku Vignir Sigurðsson og Eydís Eyþórsdóttir sæti á fundinum.

19. Skólaakstur

Lagt fram bréf frá núverandi verktökum um skólaakstur þar sem þeir óska eftir framlengingu á samningum.

Sveitarstjórn samþykkti að ganga til viðræðna við bréfritara um möguleika á framlengingu á samningum til eins árs.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl.20:20