Sveitarstjórn, fundur nr 125

29.04.2021 16:30

Sveitarstjórn Hörgársveitar

125. fundur

Fundargerð

Fimmtudaginn 29. apríl 2021 kl.16:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í húsnæði félagsmiðstöðvar í heimavist Þelamerkurskóla.

Fundarmenn:  Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, María Albína Tryggvadóttir og Jónas Þór Jónasson

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1. Ársreikningur Hörgársveitar 2020, síðari umræða

Lagður fram ársreikningur fyrir árið 2020 en hann var til fyrri umræðu í sveitarstjórn 24. mars 2021. Þá var lögð fram endurskoðunarskýrsla, ásamt staðfestingarbréfi. 

Samkvæmt ársreikningi 2020 urðu rekstrartekjur alls 746,9 millj. kr. og rekstrargjöld 718,3 millj. kr. á árinu 2020. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 7,2 millj. kr.  Heildarrekstrarniðurstaða á árinu varð því jákvæð upp á 21,4 millj. kr.

Eigið fé í árslok er 770,9 millj. kr. og jókst um 30,6 millj. kr. á árinu, Veltufé frá rekstri á árinu var 51,6 millj. kr. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum var 88,1 millj. kr. og skuldir og skuldbindingar lækkuðu um kr. 22,2 millj á árinu og eru skuldir í árslok 28,3% af tekjum og lækkuðu um 2,2% á milli ára.

Aðalheiður Eiríksdóttir og Rúnar Bjarnason endurskoðandi frá PriceWaterhouseCoopers komu á fundinn, fóru yfir ársreikninginn og svöruðu fyrirspurnum um hann.

Sveitarstjórn samþykkti ársreikning Hörgársveitar fyrir árið 2020 og staðfesti hann með undirritun sinni.

2. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 27.04.2021

Fundargerðin lögð fram og er hún í 19 liðum og þarfnast 14 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a)Í lið 2, Hjalteyri, deiliskipulag

Athugasemdafrestur í grenndarkynningu á breytingartillögu á deiliskipulagi Hjalteyrar rann út 26. apríl sl. Erindi bárust frá Pétri J. Eiríkssyni, Sigrúnu Ástríði Eiríksdóttur og Steingrími Snævarri Ólafssyni, sem öll eru í eigendahópi Péturshúss. Í erindunum voru sett fram andmæli við deiliskipulagsbreytinguna og vísað til þess að aðstæður Péturshúss myndu breytast til hins verra við það að gatnatenging Búðagötu hliðraðist upp að austurhlið lóðarinnar, vegna þess að fallið væri frá hliðrun Hjalteyrarvegar til norðurs við Péturshús og vegna 18 fm. skerðingar á ráðgerðri lóð hússins þar sem Hjalteyrarvegur skarast við lóðina.

Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að með skipulagsbreytingunni sé lega Hjalteyrarvegar og tenging Búðagötu í deiliskipulagi færð til samræmis við legu gatnanna eins og hún er í dag. Nefndin bendir ennfremur á að lóðarmörk Péturshúss voru skilgreind í fyrsta sinn með gildistöku gildandi deiliskipulags Hjalteyrar 9. maí 2018 en fram að því voru lóðarmörk hússins óskilgreind. Lóð hússins hefur ekki verið stofnuð með formlegum hætti síðan deiliskipulagið tók gildi og því hefur lögformlegur eignarréttur húseigenda á lóðinni sem ráðgerð er í deiliskipulagi ekki stofnast. Jafnframt bendir nefndin á að Búðagata er ráðgerð sem vistgata með 15 km hármarkshraða og forgangi gangandi vegfarenda og mun það draga úr umferðaráreiti við Péturshús. Nefndin telur því að með umræddri deiliskipulagsbreytingu breytist aðstæður hússins, umhverfi og hagnýtingar-möguleikar húseigenda ekki til hins verra frá því sem verið hefur fram að þessu.

Sveitarstjórn hefur skilning á sjónarmiðum húseigenda og samþykkti að lóðarmörkum lóðar Péturshúss sé hliðrað til austurs svo lóðin stækki sem nemur skerðingu vegna hliðrunar lóðarmarka norðanmegin. Sveitarstjórn gerir svör nefndarinnar að sínum og samþykkti svo breytta deiliskipulagstillögu og felur skipulagsfulltrúa að fullnusta gildistöku hennar.

b) Í lið 5, gatnagerð Reynihlíð, Víðihlíð umsókn um framkvæmdaleyfi

Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt.

c) Í lið 6, Hjalteyri framkvæmdir, umsókn um framkvæmdaleyfi

Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt þegar deiliskipulagsbreyting tekur gildi.

d) Í lið 7, Fagranes, skógrækt umsókn um framkvæmdaleyfi

Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt.

e) Í lið 8, Fagranes, deiliskipulagslýsing

Sveitarstjórn samþykkti að hafna deiliskipulagslýsingunni og felur skipulagsfulltrúa að ræða við umsækjanda.

f) Í lið 9, Syðra-Brekkukot, umsókn um afmörkun byggingareits

Sveitarstjórn samþykkti að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta tímabil grenndarkynningar skv. 3. mgr. sömu laga greinar og að erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabili.

e) Í lið 10, Glæsibær, landskipti

Sveitarstjórn samþykkti landskiptin.

f) Í lið 11, Dagverðartunga, umsókn um afmörkun byggingareits

Sveitarstjórn samþykkti byggingareitinn.

g) Í lið 12, Míla, umsókn um að tækjahús á Hjalteyri verði fjarlægt

Sveitarstjórn samþykkti erindið.

h) Í lið 13, Akrahreppur aðalskipulagslýsing, umsögn

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd við lýsinguna.

I) Í lið 14, Fallorka, Vindheimavirkjun - rammaáæltun

Sveitarstjórn samþykkti að hafna öllum slíkum áformum um vindorkuver í Hörgársveit.  

j) Í lið 15, Hvammur skurðgröftur

Sveitarstjórn samþykkti að heimila skurðgröft í mólendi og á túnum í landi Hvamms en bendir á að framræsting votlendis er ekki heimil en heimilt er að viðhalda gömlum skurðum.

k) Í lið 16, Hlaðir, umsókn um afmörkun byggingarreits

Sveitarstjórn samþykkti erindið.

l) Í lið 17, Engimýri deiliskipulag, innkomnar athugasemdir og afgreiðsla

Athugasemdafrestur vegna tillögu að deiliskipulagi fyrir gistiþjónustu í Engimýri 3 rann út 18. mars sl. og bárust fjögur erindi vegna málsins m.a. frá Vegagerðinni þar sem bent er á að í deiliskipulagstillögu sé ráðgert að byggja nær þjóðvegi en skipulagsreglugerð heimilar og að sækja verði undanþágu til ráðherra vegna áformanna. Ennfremur er bent á að talsvert ónæði muni hljótast af nálægð húsanna við þjóðveg 1 og muni Vegagerðin ekki standa straum af kostaði við mótvægisaðgerðir vegna þess.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur þó að athugasemdirnar gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

Sveitarstjórn samþykkti auglýsta skipulagstillögu því óbreytta skv. 3. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er skipulagsfulltrúa falið að fullnusta gildistöku skipulagsins.

m) Í lið 18, Þrastarhóll, umsókn um breytingu á skilmálum í deiliskipulagi

Sveitarstjórn samþykkti að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta tímabil grenndarkynningar skv. 3. mgr. sömu lagagreinar og að erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningatímabili.

Axel Grettisson vék af fundi undir þessum lið.

n) Í lið 19, Skógarhlíð 43, umsókn um stækkun á lóð

Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu.

3. Fundargerð fræðslunefndar frá 21.04.2021

Fundargerðin er í 5 liðum og þarfnast 1 liður afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 3, þörf fyrir frístund frá haustinu 2021 - nemendafjöldaspá

Sveitarstjórn samþykkti að gerð verði könnun fyrir börn í 1.-4.bekk, um þörf fyrir frístund í Þelamerkurskóla.

4. Fundargerð fjallskilanefndar frá 28.04.2021

Fundargerðin er í 3 liðum og þarfnast 1 liður afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 3, fjallsgirðingar

Sveitarstjórn samþykkti að leita álits lögfræðings á því með hvaða hætti er hægt að knýja landeigendur til að viðhalda fjallsgirðingum.

5. Flokkun Eyjafjörður ehf fundargerð stjórnar frá 16.3.2021

Fundargerðin lögð fram ásamt ársreikningi 2020.

6. Tónlistarskóli Eyjafjarðar, fundargerðir stjórnar og ársskýrsla

Fundargerðirnar lagðar fram ásamt ársskýrslu og ársreikningi 2020.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að Svalbarðsstrandarhreppur gangi inn í rekstur Tónlistarskóla Eyjafjarðar og væntir þess að fá fullbúna reglugerð senda til afgreiðslu.

7. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfél. frá 896. fundi

Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð stjórnar Norðurorku frá 259. fundi

Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa frá 20. og 21. fundi

Fundargerðirnar lagðar fram.

10. Auglýsing sveitarstjórnarráðherra v.fjarfunda

Auglýsingin lögð fram.

11. Bréf atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis v. fiskeldis

Bréfið lagt fram.

Sveitarstjórn Hörgársveitar áréttar bókun sína um málið frá 12. júní 2020 þar sem hún lýsir þeirri skoðun sinni að banna skuli fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin verði frá Siglunesi að Bjarnarfjalli. Sveitarstjórn Hörgársveitar bendir á að í Eyjafirði eru friðlýstar náttúruminjar sem eru einstakar á heimsmælikvarða.

12. Óbyggðanefnd, kynning á kröfum vegna þjóðlenda

Erindið lagt fram.

Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að hafa samráð við lögmann sveitarfélagsins vegna málsins.

13. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, bréf v. fjármála sveitarfélaga

Bréfið lagt fram.

14. Fundur m. Vegagerðinni, minnisblað

Minnisblaðið lagt fram.

15. Eyrarvík, umsókn um breytingu á staðfangi

Lögð fram erindi þar sem óskað er eftir leiðréttingum á staðfangi úr Eyrarvík land V í Árnes og Hraun land í Sporbaugur.

Sveitarstjórn samþykkti þau staðföng sem óskað er eftir samkvæmt erindunum og að koma þeim upplýsingum til Þjóðskrár Íslands.

16. Dagverðartunga, landskipti

Leiðrétting á samþykkt frá síðasta fundi er varðar landnúmer.

Lögð fram afstöðumynd sem sýnir afmörkun á landspildu, 1,5 ha að stærð sem fái nafnið Tungukot, sem fyrirhugað er að taka undan jörðinni Dagverðartungu Inr. 152391. Óskað er eftir umsögn um landskiptin, sbr. 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti þau landskipti í Dagverðartungu lnr152391, sem lýst er í framlögðum gögnum.

17. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, umsókn um rekstrarleyfi Eyri, Hjalteyri

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir veitingasölu, umfangslitlir áfengisveitingastaðir, að Eyri á Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að rekstrarleyfið verði veitt.

18. Vinnuskóli og sumarstörf 2021

Lögð fram tillaga að starfsemi vinnuskóla sumarið 2021. Þá var rætt um sumarstörf fyrir framhaldskóla- og háskólanema í samstarfi við ríkið í sérstöku átaki og er stefnt að því að bjóða uppá takmarkaðan fjölda slíkra starfa.

Sveitarstjórn samþykkti að laun í vinnuskóla sumarið 2020 verði 1.230 kr./klst. fyrir börn fædd 2007, 1.365 kr./klst. fyrir börn fædd 2006 og 1.680 kr./klst. fyrir börn fædd 2005. Orlof er innifalið.

19. Viðauki 02 2021

Lögð fram tillaga að viðauka 02 við fjárhagsáætlun 2021 og áætlun um kostnað við endurbætur á lofti tveggja skólastofa og salerna í Þelamerkurskóla.

Sveitarstjórn samþykkti að fara í endurbæturnar á grundvelli áætlunarinnar.

Sveitarstjórn samþykkti viðauka 02 við fjárhagsáætlun ársins 2021 sem gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði jákvæð sem nemur 24.047 þús.kr. og handbært fé í árslok verði 43.974 þús.kr.

20. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, umsókn um rekstrarleyfi, Háls í Öxnadal

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir gististað án veitinga, að Hálsi í Öxnadal.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að rekstrarleyfið verði veitt.

21.Trúnaðarmál

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 20:55