Sveitarstjórn, fundur nr 114

30.04.2020 15:30

Sveitarstjórn Hörgársveitar

114. fundur

Fundargerð

Fimmtudaginn 30. apríl 2020 kl.15:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í stofu 9 í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn:  Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, María Albína Tryggvadóttir og Jónas Þór Jónasson

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1.Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 28.4.2020

Fundargerðin lögð fram en hún er í 10 liðum og þarfnast 7 liðir afgreiðslu sveitar-stjórnar.

a) í 1. lið, aðalskipulag Hörgársveitar, breyting

Lagður fram listi yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust og fram koma í fundargerð nefndarinnar. Farið yfir þær og eftirfarandi svör við þeim sem þarfnast svara:

Erindi 1 – sendandi Ólafur Aðalgeirsson f.h. GLB17

Svar:   Við gerð aðalskipulags Hörgársveitar árið 2012 var mörkuð sú stefna að fækka skyldi efnistökusvæðum og að í sveitarfélaginu skyldu til lengri tíma litið vera færri en stærri efnistökusvæði og var landeigendum veittur lögboðinn andmælaréttur vegna þeirra breytinga. Að þessu markmiði var m.a. valin sú leið að fella út af aðalskipulagi þau efnistökusvæði sem ekki voru í virkri notkun þegar skipulagsvinnan fór fram. Á þeim tíma var í gildi framkvæmdaleyfi til efnistöku á efnistökusvæðinu við Hlaðir en ekki í Glæsibæ og að því leyti hafi staða efnistökusvæðanna verið ólík. Sveitarstjórn telur því að málefnaleg rök liggi að baki ákvörðun sveitarstjórnar um að fella efnistökusvæði í Glæsibæ út af aðalskipulagi, en aftur á móti hafi efnistökusvæði við Hlaðir verið fellt út fyrir handvömm. Með aðalskipulagsbreytingu sem nú er til umræðu er sú handvömm leiðrétt. Sveitarstjórn telur því ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

Erindi 2 – sendendur Guðmundur H. Gunnarsson, Róbert Fanndal, Sighvatur Stefánsson, Klængur Stefánsson, Bragi Konráðsson, Halldór Jóhannsson, Björn J Jóhannsson, Sverrir Brynjar Sverrisson og Sigríður Kristín Sverrisdóttir.

Svar: Í umhverfismatsskýrslu vegna efnistöku í Hörgá kemur víða fram að efnistaka skuli einungis fara fram á afmörkuðum svæðum í einu til að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Núverandi ákvæði aðalskipulags um að efnistaka skuli einungis fara fram á einum stað í einu tryggir að þessi ákvæði umhverfismatsskýrslu eru uppfyllt. Í samtali fulltrúa sveitarfélagsins við Fiskistofu kom m.a. fram að núverandi ákvæði stuðli að því að unnt sé að vakta áhrif efnistöku á lífríki árinnar og stýra efnistökunni á grundvelli þeirrar reynslu sem þannig aflast.

Framkvæmdaleyfi til efnistöku verða eftir sem áður að samræmast samþykktu umhverfismati og þannig telur skipulags- og umhverfisnefnd ekki unnt að fella alfarið út núverandi ákvæði aðalskipulags heldur beri breyttu aðalskipulagi að stuðla jafn vel að verndarsjónarmiðum lífríkis árinnar og núverandi skipulag. Sveitarstjórn telur að orðalag auglýstrar skipulagstillögu varðandi efnistöku í ánni stuðla að því að gætt sé að þessum verndarsjónarmiðum sem og jafnræðis milli landeigenda á málefnalegan hátt við leyfisveitingar. Sveitarstjórn telur athugasemd sendenda ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

Erindi 2 a) sendendur Guðmundur H. Gunnarsson, Róbert Fanndal, Sighvatur Stefánsson, Klængur Stefánsson, Bragi Konráðsson, Halldór Jóhannsson, Björn J Jóhannsson, Sverrir Brynjar Sverrisson og Sigríður Kristín Sverrisdóttir.

Svar: Sveitarstjórn fellst á rök sendenda og skal orðalag auglýstrar skipulagstillögu lagfært eins og fram kemur í athugasemd og orðist svo:  Gengið skal þannig frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur út í árnar við háa vatnsstöðu í þeim.

Erindi 3 - sendandi Vegagerðin

Svar: Sveitarstjórn telur að athugasemd sendanda gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu enda liggja ekki fyrir nægjanlega ítarlegar tillögur um framtíðarvegstæði þjóðvegar 1 á þessu svæði.

Sveitarstjórn samþykkti skipulagstillöguna skv. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem fram koma í afgreiðslu nefndarinnar á 2. lið athugasemda Gunnars H. Gunnarssonar og annarra landeigenda við Hörgá.

b) í 2. lið, Glæsibær, deiliskipulag og aðalskipulagsbreyting

Lagður fram listi yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust og fram koma í fundargerð nefndarinnar. Farið yfir þær og eftirfarandi svör við þeim sem þarfnast svara:

Erindi 1 – sendandi Vegagerðin

Svar: Sveitarstjórn samþykkti að veghelgunarsvæði Dagverðareyrarvegar og tengivegar íbúðarsvæðis verði færð inn á deiliskipulagsuppdrátt.

Erindi 2 - sendandi Minjastofnun

Svar: Sveitarstjórn samþykkti að orðalagi auglýstrar aðalskipualgstillögu sé breytt á þá leið að vísað sé til fornleifaskráningar frá 2018.

Erindi 2 a) - sendandi Minjastofnun

Svar: Sveitarstjórn samþykkti að orðalagi auglýstrar skipulagstillögu sé breytt líkt og sendandi leggur til.

Erindi 2 b) - sendandi Minjastofnun

Svar: Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagið fyrir sitt leyti með þeim fyrivara að brugðist sé við athugasemdum Minjastofnunar á fullnægjandi hátt og að jákvæð umsögn stofnunarinnar liggi fyrir áður en deiliskipulag er sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Erindi 3 – sendandi Umhverfisstofnun

Svar: Sveitarstjórn hefur við vinnslu skipulagsbreytingarinnar haft hliðsjón af ákvæðum landsskipulagsstefnu um þróun byggðar sem og ákvæðum gildandi svæðisskipulags Eyjafjarðar sem lúta að sömu þáttum. Sveitarstjórn hefur litið til greinargerðar kafla 2.1.1. þar sem m.a. segir „þannig verði ekki stofnað til nýrra þéttbýliskjarna og fjölgun íbúða í dreifbýli verði fremur í tengslum við og til að styrkja landbúnað og aðra staðbundna atvinnustarfsemi.“ Keimlíkt ákvæði er að finna í svæðisskipulagi Eyjafjarðar þar sem í kafla 3.2 um byggðarmynstur er m.a. lýst því markmiði að ekki skuli stofnað til nýrra þéttbýlisstaða á skipulagssvæðinu. Sveitarstjórn túlkar þessi ákvæði ekki sem fortakslaust bann við byggingu íbúðarhúsnæðis ótengdu landbúnaði eða staðbundnum atvinnurekstri, heldur lítur sveitarstjórn svo á að takmörkuð uppbygging samræmist báðum skipulagsáætlununum svo lengi sem umfang uppbyggingar sé undir þéttbýlismörkum. Við vinnslu skipulagstillögunnar sem hér um ræðir hefur sveitarstjórn þannig fækkað íbúðarlóðum á íbúðarsvæði ÍB2 til mikilla muna frá því sem fram kom í upphaflegri umsókn landeigenda og er það mat sveitarstjórnar að á þennan hátt sé tryggt að umfang íbúðarsvæðisins verði undir þéttbýlismörkum, þ.e. að hámarki 49 íbúar þar sem að jafnaði eru 200 m á milli húsa skv. 2. gr. skipulagslaga.

Erindi 3 a)  – sendandi Umhverfisstofnun

Svar: Sveitarstjórn samþykkti að bæta skuli tilvísun í reglugerð um fráveitu og skólp nr. 798/1999 í greinargerð deiliskipulags.

Sveitarstjórn samþykkti aðalskipulagstillöguna skv. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem koma fram í afgreiðslu á erindi Vegagerðarinnar. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagstilöguna skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem fram koma í afgreiðslu nefndarinnar á erindi Minjastofnunar og Umhverfisstofnunar.

c) í 3. lið, Hjalteyri, deiliskipulagstillaga á vinnslusvæði Norðurorku

Lagður fram listi yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust og fram koma í fundargerð nefndarinnar. Farið yfir þær og eftirfarandi svör við þeim sem þarfnast svara:

Erindi 1 – sendandi Eygló Jóhannesdóttir

Svar: Sveitarstjórn samþykkti að orðalag sé leiðrétt skv. athugasemd sendanda.

Erindi 2 sendandi Umhverfisstofnun

Svar: Sveitarstjórn samþykkti að skipulagshönnuði verði falið að gera viðeigandi lagfæringar á texta skipulagsgreinargerðarinnar.

Erindi 2 a) - sendandi Umhverfisstofnun

Svar:  Sveitarstjórn samþykkti að skipulagshönnuði verði falið að gera viðeigandi lagfæringar á texta skipulagsgreinargerðarinnar.

Erindi 3 – sendandi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

Svar: Sveitarstjórn samþykkti að í greinargerð skipulagsins skuli kveðið á um að útbúa skuli viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa á svæðinu.

Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem fram koma í afgreiðslu nefndarinnar á erindi Eyglóar Jóhannesdóttur,Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra auk breytingar á mænishæð dæluhúss sem Norðurorka fór fram á bréfleiðis eftir að auglýsingatíma var lokið. Sveitarstjórn samþykkti einnig að byggingarreitur dælustöðvar (C1) sé stækkaður í 600 fm og honum hliðrað lítillega til norðurs í samræmi við beiðni sem barst frá skipulagshönnuði eftir afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

d) í 4. lið, Gásir, skipulagslýsing deiliskipulags

Sveitarstjórn samþykkti að skipulagshönnuði verði falið að hafa hliðsjón af innkomnum erindum við gerð skipulagstillögu.

e) í 5. lið, skógrækt í landi Háls í Öxnadal - beiðni um umsögn

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd við greinargerðina og veitir jákvæða umsögn vegna áformanna. Þó verði hugað vel að þeim breytingum sem skógrækt hefur á ásýnd svæðisins.

f) í 7. lið, stöðuleyfi, Hjalteyri

Sveitarstjórn samþykkti að veita skipulags- og byggingarfulltrúa heimild til að gefa út stöðuleyfi til eins árs, enda verði húsið staðsett með samþykki nærliggjandi hús-eiganda og með tilliti til brunavarna.

g) í 10. lið, Dagverðareyri 3, afmörkun byggingareits

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu í grenndarkynningu samkvæmt 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ef ekki berast andmæli á grenndarkyningartímabili telst erindið samþykkt.

2. Fundargerð rekstrar og framkvæmdanefndar frá 21.4.2020

Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerðir funda SSNE með sveitarstjórum frá 17.4. og 24.4.2020

Fundargerðirnar lagðar fram ásamt stöðugreiningu SSNE.

4. Fundargerðir stjórnar Norðurorku frá 12.3. og aðalfundar frá 17.4.2020

Fundargerðirnar lagðar fram ásamt yfirliti yfir starfsemina 2019.

5. Fundargerð aðalfundar SBE frá 21.4.2020

Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerðir stjórnar AFE frá 16.4. og 24.4. 2020 ásamt aðalfundarboði

Fundargerðirnar lagðar fram ásamt aðalfundarboði.

Sveitarstjórn samþykkti að sveitarstjóri fari með umboð Hörgársveitar á aðalfundi AFE.

7. Fundargerðir stjórnar sambands íslenskra sveitarfélaga frá 24.4. og 29.4.20

Fundargerðirnar lagðar fram.

Sveitarstjórn Hörgársveitar tekur undir þá kröfu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að ríkisstjórnin kalli sambandið nú þegar að borðinu til viðræðna um hlut sveitarfélaga í næsta aðgerðarpakka ríkisvaldsins vegna covid-19.

8. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 8.4.2020

Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerðir stjórnar MN frá 6.4. og 21.4.2020

Fundargerðirnar lagðar fram.

10. Svæðisskipulag Eyjafjarðar breytingartillaga

Lögð fram fundargerð svæðisskipulagsnefndar, breytingartillagan og umhverfis-skýrsla.

Tekin fyrir afgreiðsla svæðisskipulagsnefndar Eyjafjarðar frá 31. mars 2020 á tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024 vegna flutningslína raf-orku.  Tillagan var auglýst 21. janúar 2020 með athugasemdafresti til 6. mars 2020.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti afgreiðslu svæðisskipulagsnefndar og felur henni, að fengnu samþykki annarra sveitarstjórna á skipulagssvæðinu, að senda Skipulagsstofnun breytingartillöguna til staðfestingar sbr. ákvæði 25. gr. skipu-lagslaga nr. 123/2010.

11. Sorphirðusamningur og móttaka úrgangs

Lögð fram tillaga um móttöku úrgangs og rætt um fyrirkomulag sorphirðu.

Sveitarstjórn samþykkti að gera samkomulag við Terra sem felur í sér að íbúar sveitarfélagsins geta losað sig við úrgang hvort heldur er endurvinnanlegur eða til urðunar á kostnað sveitarfélagsins í móttökustöð Terra við Hlíðarfjallsveg á Akureyri samkvæmt ákveðnu fyrirkomulagi.  Fyrirkomulag þetta verður kynnt á heimasíðu sveitarfélagsins.

12. Úrsögn úr fjallskilanefnd

Lagt fram erindi þar sem Þór Jónsteinsson segir sig úr fjallskilanefnd vegna flutnings úr sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn samþykkti að skipa Sigríði Kristínu Sverrisdóttur aðalmann í fjallskilanefnd og Kristbjörgu Maríu Bjarnadóttur til vara, formaður nefndarinnar verði Jónas Þór Jónasson.

13. Ytri-Bakki, umsögn vegna umsóknar um lögbýlisskráningu

Lagt fram erindi frá eigendum að Ytri-Bakka lnr. 186558 þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins varðandi lögbýlisumsókn.

Sveitarstjórn samþykkti að Hörgársveit fallist á lögbýlisskráningu að Ytri-Bakka, landnúmer 186558 fyrir sitt leyti.

Jón Þór Benediktsson vék af fundi undir þessum lið.

14. Björg vatnsveita, umsögn vegna umsóknar til Jöfnunarsjóðs

Erindið lagt fram ásamt fylgigögnum.

Sveitarstjórn Hörgársveitar telur hagkvæmara að leggja sér vatnsveitu að Björgum í Hörgársveit heldur en að starfrækja þar vatnsveitu á vegum sveitarfélagsins.

15. Beiðni frá vinum Hjalteyrar

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir að sveitarfélagið fari nú í sumar í það að gera göngustíg vestan við tjörnina á Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti að kannað verði með að fara í þessa framkvæmd í sumar.

16. Jöfnunarsjóður, svarbréf vegna framlags til að mæta kostnaði við snjómokstur

Bréfið lagt fram en þar kemur fram að ekki verði veitt framlög úr Jöfnunarsjóði vegna þessa, að sinni í það minnsta.

17. Dysnes þróunarfélag ehf, auking á hlutafé

Lagt fram erindi frá stjórn Dysnes þróunarfélags ehf vegna aukningar á hlutafé.

Sveitarstjórn samþykkti að auka hlutafé í Dysnesi þróunarfélagi ehf um kr.100.000,-

18. Auglýsing v. ársreikningaskila

Auglýsingin lögð fram en þar kemur m.a. fram að frestur til skila á ársreikningum sveitarfélaga hefur verið lengdur um einn mánuð.

19. Lánasjóður sveitarfélaga, frestun aðalfundar

Erindið lagt fram.

20. Vinnuskóli og sumarstörf

Lögð fram tillaga að starfsemi vinnuskóla sumarið 2020 en gert er ráð fyrir að nemendum hans muni fjölga í ár frá því sem verið hefur undanfarin ár.  Þá var rætt um sumarstörf fyrir framhaldskóla- og háskólanema og verður þeim veitt störf eins og hægt er í samstarfi við ríkið í sérstöku átaki þar um.

Sveitarstjórn samþykkti að laun í vinnuskóla sumarið 2020 verði 1.150 kr./klst. fyrir börn fædd 2006, 1.275 kr./klst. fyrir börn fædd 2005 og 1.570 kr./klst. fyrir börn fædd 2004. Orlof er innifalið.

21. Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2020

Lögð fram tillaga að viðauka 01 við fjárhagsáætlun 2020.

Sveitarstjórn samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2020, sem hefur auðkennið 01/2020, og gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði jákvæð sem nemur 14.133 þús.kr. og handbært fé í árslok verði 31.195 þús.kr.

22. Tillaga Landsnets að matsáætlun Blöndulínu 3

Tillagan lögð fram til umræðu.

Sveitarstjórn Hörgársveitar áréttar nauðsyn þess að Landsnet fundi hið fyrsta með landeigendum á þeim lagnaleiðum innan sveitarfélagsins sem tilgreindar eru í drögum að matsáætlun.

Sveitarstjórn Hörgársveitar áréttar þá stefnu sveitarfélagsins að skýr vilji er fyrir flutningi á meiri raforku um sveitarfélagið að uppfylltum þeim skilyrðum að lega og gerð allra raflína taki mið af umhverfi, almennu öryggi og verndun góðs ræktunarlands. Stefna sveitarfélagsins er að allar flutningslínur raforku verði í jörðu.

23. Þúfnavellir ll, heimild fyrir byggingarreit

Fyrir fundinum liggur erindi frá Ólafi Óskari Axelssyni sem fyrir hönd Hjalta Baldurssonar eiganda Þúfnavalla II óskar eftir samþykki sveitarstjórnar fyrir byggingarreit fyrir einbýlishús á jörðinni. Byggingareiturinn er fyrirhugaður skammt austan við eldra íbúðarhús á Þúfnavöllum II. Meðfylgjandi erindinu eru afstöðumyndir af byggingarreit og fyrirhuguðu húsi.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu í grenndarkynningu skv. 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta tímabil grenndarkynningar ef allir hagsmunaaðilar lýsa yfir samþykki við áformin. Ef engin andmæli berast á grenndarkynningartímabili teljist erindið samþykkt.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl.  20:05