Sveitarstjórn, fundur nr 113

26.03.2020 15:30

Sveitarstjórn Hörgársveitar

113. fundur

Fundargerð

Fimmtudaginn 26. mars 2020 kl.15:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í fjarfundabúnaði.

Fundarmenn:  Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, María Albína Tryggvadóttir og Jónas Þór Jónasson

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1.Tímabundin heimild til að víkja frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga vegna                    neyðarstigs almannavarna

Alþingi hefur samþykkt breytingar á sveitarstjórnarlögum sem ætlað er að skapa sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við neyðarástandi og tryggja að sveitarstjórnir verði starfhæfar. Breytingarnar fela m.a. í sér heimild til sveitarstjórna og nefnda til að funda í fjarfundabúnaði. Lögð fram skjöl er varða lagabreytinguna, auglýsingu ráðherra og leiðbeiningar vegna fjarfunda hjá sveitarfélögum.

Sveitarstjórn samþykkti tímabundna heimild til breytinga á fyrirkomulagi funda sveitarstjórnar og fastanefnda Hörgársveitar meðan neyðarstig almannavarna er í gildi, sem m.a.fela í sér að fundað verði með fjarfundabúnaði.

2. Ársreikningur Hörgársveitar 2019, fyrri umræða

Ársreikningurinn lagður fram til fyrri umræðu og kynntur.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa ársreikningi 2019 til síðari umræðu.

3. Viðbrögð við heimsfaraldri

Farið var yfir stöðu mála, þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og það sem framundan er.  Lagðar voru fram samantektir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er varða viðspyrnu af hálfu sveitarfélaga og leiðbeiningar um aðgerðir fyrir heimilin vegna covid-19.

Sveitarstjórn samþykkti að veittur verði allt að 100% afsláttur af greiðsluþátttöku foreldra í leikskóla þá daga sem foreldrar taka ákvörðun um að nýta ekki pláss og tilkynna það fyrirfram. Gildi þetta frá og með mars mánuði. Ekki verði innheimt fyrirfram, heldur verði innheimt eftirá í samræmi við notkun meðan breytt starfsemi varir. Ekki verður endurgreitt vegna skertrar þjónustu heldur horft til þess að inneign gangi upp í þjónustu síðar. Eins og áður er aðeins greitt fyrir þær skólamáltíðir þegar barn er í skóla og verði tillit tekið til þess strax frá og með mars mánuði.

Sveitarstjórn samþykkti að fresta um sinn ákvarðanatöku er varðar frestun á greiðslum fasteignagjalda þar til samræmdar leiðbeiningar liggja fyrir.  Þó geta þeir greiðendur sem sannanlega hafa nú þegar orðið fyrir tekjumissi vegna covid-19 sótt um það til skrifstofu sveitarfélagsins að fá frest á greiðslu þess gjalddaga sem er með eindaga 6.apríl n.k.

Sveitarstjórn þakkar öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góð og mikil störf í mjög svo krefjandi ástandi.   Þá sendir sveitarstjórn íbúum Hörgársveitar kærar kveðjur og þakkir fyrir liðlegheit og samhug og hvetur fólk áfram til að hjálpast öll að í baráttunni við að koma okkar góða samfélagi í gegnum þetta svo vel sem kostur er. 

4. Fundargerð SSNE frá 11.3.2020

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerðir Markaðsstofu Norðurlands 16.3. og 18.3 2020

Fundargerðirnar lagðar fram.

6. Fjárfestingar 2019, yfirlit

Lagt fram bréf frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga þar sem óskað er eftir yfirliti um fjárfestingar sveitarfélagsins 2019. Lagt fram yfirlit er sýnir fjárfestingar 2019.

Sveitarstjórn samþykkti yfirlitið og felur sveitarstjóra að senda það til eftirlits-nefndarinnar.

7. Samningur við RARIK um yfirtöku á götulýsingu

Lagður fram samningur við RARIK um yfirtöku á götulýsingu í sveitarfélaginu ásamt yfirlýsingu um málið.

Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

8. Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar, umsögn vegna lýsingar

Lýsingin lögð fram.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd við lýsinguna.

9. Erindi frá Pétri Þór Jónassyni

Erindið lagt fram.

10. Bókun sveitarstjórnar Akrahrepps varðandi göng undir Öxnadalsheiði

Bókunin lögð fram.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti að styðja heilshugar hugmyndir Vegagerðarinnar um göng undir Öxnadalsheiði, enda er gert ráð fyrir slíkri framkvæmd á aðalskipulagi Hörgársveitar.

11. Erindi vegna gróðurbelta Ytri-Bægisá

Tvö erindi er málið varðar lögð fram ásamt minnisblaði lögmanns sveitarfélagsins. Málið var áður til umfjöllunar á 103.fundi sveitarstjórnar.

Farið yfir erindi og gögn frá Guðmundi Óskari Guðmundssyni vegna skjólbeltis sunnan aðkomu að Hamri á Þelamörk. Jafnframt er kynnt minnisblað Lögmannsstofu Norðurlands þar sem fram kemur að ekki verði séð að sveitarfélagið eigi aðkomu að málinu eins og það liggur fyrir. Þar er jafnframt lagt til hvernig brugðist verði við erindinu.

Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að svara erindinu í samræmi við gögn frá lögmanni sveitarfélagsins.

12. Kostnaður við snjómokstur, bréf til Jöfnunarsjóðs

Lagt fram bréf sem sent var Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar sem sótt er um viðbótarframlag úr sjóðnum vegna íþyngjandi snjómoksturs í Hörgársveit veturinn 2019-2020.  Í bréfinu kemur m.a. fram að kostnaður við snjómokstur des. 2019 - feb. 2020 var kr.14,8 millj.en til samburðar var kostnaðurinn fyrir allt árið 2017 kr. 5,5 millj.

13. Erindi frá stjórn Gásakaupstaðar ses.

Lagt fram erindi frá stjórn Gásakaupstaðar ses. varðandi framtíðaráform stjórnar.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti fyrir sitt leyti að lögð verði fram tillaga á auka aðalfundi um slit á Gásakaupstað ses.  Jafnframt samþykkti sveitarstjórn sig tilbúna til viðræðna um samstarf um Miðaldadaga.

14. Vegbætur í sveitarfélaginu

Rætt um vegframkvæmdir og vegabætur.

Sveitarstjórn samþykkti að eiga viðræður við Vegagerðina um vegabætur í sveitarfélaginu sem fyrst.

Fundargerð lesin yfir og yfirfarin og verður staðfest með tölvupósti frá hverjum sveitarstjórnarfulltrúa.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl.  17:40