Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 87

28.11.2022 10:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

87. fundur

Fundargerð

Mánudaginn 28. nóvember 2022 kl. 10:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Agnar Þór Magnússon varaformaður, Sunna María Jónasdóttir, Ásrún Árnadóttir og Bjarki Brynjólfsson í skipulags- og umhverfisnefnd, Sigríður Kristjánsdóttir skipulagsfulltrú og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1. Dalvíkurlína 2

Lagðar fram tillögur að lagnalínu strengs frá Lónsá út fyrir Fagraskóg eftir fundi með landeigendum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að unnin verði tillaga að aðalskipulagsbreytingu í samræmi við þá lagnaleið sem kynnt var. Jafnframt verði rætt við þá landaeigendur sem eftir á að ræða við. Fullmótuð tillaga verði lögð fyrir á næsta fundi nefndarinnar.

2. Göngu- og hjólastígur

Lagðar fram tillögur að legu göngu- og hjólastígs eftir fundi með landeigendum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að unnin verði tillaga að aðalskipulagsbreytingu í samræmi við þá legu sem kynnt var. Jafnframt verði rætt við þá landaeigendur sem eftir á að ræða við. Fullmótuð tillaga verði lögð fyrir á næsta fundi nefndarinnar.

3. Norðurorka, umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir hitaveitulögn frá Skjaldarvík að Lónsá

Lögð fram umsókn frá Norðurorku um framkvæmdaleyfi fyrir aðveituæð Hjalteyrarlagnar frá Skjaldarvík að Lónsá. Umsókninni fylgir uppdráttur.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að þar sem lagnaleiðin sem kynnt er liggi samsíða núverandi lagnalínu sem er á aðalskipulagi sveitarfélagsins er ekki talin þörf á breytingu á aðalskipulaginu.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdarleyfið.

4. Glæsibær, tillaga að 3. áfanga

Lagt fram erindi frá landeiganda í Glæsibæ varðandi íbúðasvæði 3 í Hagabyggð.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að gerð verði tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins er varðar íbúðasvæði 3 í Hagabyggð. Skipulagsfulltrúa falið að gera skipulagslýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi er varðar íbúðasvæði 3 í Hagabyggð. Skipulagslýsing fyrir deiliskipulag verði unnin samhliða.

Þá verði frekari áform um uppbyggingu á svæðinu tekin fyrir í endurskoðun aðalskipulags.

5. Lækjarvellir, deiliskipulag

Umræður um breytingar á lóðafyrirkomulagi næsta áfanga.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fela skipulagsfulltrúa að láta vinna tillögur að breytingum á óbyggðu svæði í deiliskipulaginu. Í þeim tillögum verði jafnframt ásýnd á svæðinu bætt og tillögur gerðar um aðgerðir til að draga úr ljós- og hávaða mengun frá svæðinu.

6. Umsókn um efnistöku, svæði 4 í Hörgá

Lögð fram umsókn og fylgigögn frá eigendum á efnistökusvæði 4 í Hörgá.

Sótt er um töku á 110.000 m3 en í umhverfismati er gert ráð fyrir 65.000 m3 efnistöku á svæði 4. Rök umsækjanda fyrir auknu magni er vegna nauðsynlegra bakkavarna á svæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir 65.000 m3 efnistöku. Framkvæmdaleyfið verði ekki gefið út fyrr en samþykki Fiskistofu fyrir efnistökunni liggur fyrir.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti jafnframt að við endurskoðun aðalskipulags verði heildar efnistaka úr Hörgá endurskoðuð.

7. Moldhaugar, umsókn um byggingarreit

Lögð fram umsókn frá eiganda Moldhauga með ósk um afmörkun byggingareits fyrir bílgeymslu. Umsókninni fylgir uppdráttur.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að byggingareiturinn samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti verði samþykktur.

8. Umhverfisstofnun, tilnefning í vatnasvæðanefnd

Lagt fram erindi frá Umhverfisstofnum með ósk um tilnefningu í vatnasvæðanefnd.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að Ásrún Árnadóttir verði tilnefnd sem fulltrúi Hörgársveitar í vatnasvæðanefnd og Bjarki Brynjólfsson til vara.

9. SSNE, samstarf í úrgangsmálum

Lagt fram minnisblað frá SSNE um samstarf í úrgangsmálum ásamt drögum að sorphirðusamþykkt og drögum að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að samflot verði haft með öðrum sveitarfélögum á starfssvæði SSNE um breytingar á úrgangsmálum. Lagt er til að í endurskoðaðri sorphirðusamþykkt verði gert ráð fyrir að breyttri sorphirðun verði komið á í sveitarfélaginu um mitt næsta ár að undangengnu útboði. Ný gjaldskrá sem taki mið af breyttu fyrirkomulagi taki gildi um mitt næsta ár.

10. Aðgengismál fyrir fatlaða

Umræða um aðgengismál fyrir fatlaða á svæði skóla og íþróttamiðstöðvar.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að heildarskoðun verði gerð á aðkomu og nýtingu á húsnæði sveitarfélagins á Þelamörk, m.a. með gerð deiliskipulags.

Sérstaklega verði litið til breytinga er varðar aðkomu fyrir fatlaða og aldraða.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 12:40