Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 84

12.08.2022 08:30

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

84. fundur

Fundargerð

Föstudaginn 12. ágúst 2022 kl. 08:30 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Agnar Þór Magnússon varaformaður, Sunna María Jónasdóttir, Ásrún Árnadóttir og Bjarki Brynjólfsson í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1. Dalvíkurlína 2

Kynning á stöðu mála. Lagt fram og kynnt minnisblað Vegagerðarinnar varðandi legu þjóðvegar 1 frá Lónsbakka að Moldhaugum. Þá var lagt fram erindi frá Skipulagsstofnun er varðar beiðni um umsögn vegna framkvæmdarinnar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að veitt verði jákvæð umsögn um framkvæmdartilkynningu vegna Dalvíkurlínu 2 og þar komi fram áform sveitarfélagsins varðandi göngu og hjólastíg.  Jafnframt verði óskað eftir greinargerð framkvæmdaraðila um áhrif raf- og segulsviðs á gangandi og hjólandi umferð.

2. Moldhaugar/Skútar, aðal- og deiliskipulag

Umhverfisskýrsla deiliskipulags hefur ekki borist sveitarfélaginu og því er afgreiðslu þessa dagskrárliðar frestað.

3. Reynihlíð 20-26, breyting á deiliskipulagi

Borist hefur skrifleg yfirlýsing allra hagsmunaaðila um að ekki sé gerð athugasemd við breytingu á deiliskipulagi lóðanna Reynihlíðar 20, 22, 24 og 26. Skipulagsbreytingin er því  samþykkt.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að lóðunum nr. 20, 22, 24 og 26 við Reynihlíð verði úhlutað til Böggs ehf kt. 471004-3750.

4. Glæsibær 4, umsókn um breytta landnoktun

Grenndarkynningartímabil byggingarleyfisumsóknar vegna breyttar notkunar útihúsa í Glæsibæ 4 lauk 28. júlí sl. Ekki bárust athugasemdir á grenndarkynningartímabilinu og er erindið því samþykkt.

5. Skriða, malarnám

Farið yfir stöðu málsins eftir fund með umsækjendum um framkvæmdaleyfi fyrir malarnámi.

6. Lækjarvellir 9, umsókn um breytingu á byggingareit

Grenndarkynning stendur yfir.

7. Grenndarkynning á breytingu á Þelamerkurskóla

Kynnt var niðurstaða grenndarkynningar.

Skipulags- og umhverfissnefnd biður hlutaðeigandi eigendur Laugalands 2 afsökunnar á að ekki hafi farið fram grenndarkynning fyrr en eftir að byggingarleyfi var gefið út. Jafnframt leggur nefndin til við sveitarstjórn að fulltrúa sveitarstjórnar og sveitarstjóra verði falið að ræða við eigendur Laugalands 2 um fyrirhugaðar framkvæmdir og leita lausna á ágreiningi þeim sem upp hefur komið.

8. Brekkuhús 1a, umsókn um byggingareit fyrir viðbyggingu

Grenndarkynningartímabil byggingarleyfisumsóknar vegna viðbyggingar við Brekkuhús 1 á Hjalteyri lauk 8. ágúst sl.Ekki bárust athugasemdir á grenndarkynningartímabilinu og er erindið því samþykkt.

9. Orkustofnun, nýtingarleyfi fyrir jarðhitasvæðið á Hjalteyri, umsögn

Lagt fram erindi þar sem óskað er umsagnar um nýtingarleyfi á jarðhita á Hjalteyri.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að í umsögn sveitarfélagsins verði lögð áhersla á forgangsrétt sveitarfélagsins til nýtingar á heitu vatni og nauðsynlega aðkomu Norðurorku á hitaveitu- og/eða varmadæluvæðingu í Hörgárdal og Öxnadal.

10. Björg 2 og 3, ný landamerki

Lagt fram erindi frá eigendum að Björgun 2 og 3 þar sem óskað er eftir samþykki fyrir breytingum á landamerkjum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.

11. Glæsibær 3, umsókn um byggingareit

Lagt fram erindi frá eigendum að Glæsibæ 3 þar sem óskað er eftir heimild fyrir byggingarreit fyrir geymsluskúr.  Umsókninni fylgir uppdráttur.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði hafnað með tilliti til staðsetningar, aðkomu og ásýnd að Glæsibæjarkirkju.

12. Geirhildargarðar land, umsókn um stöðuleyfi

Lagt fram erindi þar sem sótt er um stöðuleyfi fyrir stöðuhýsi að Geirhildargörðum L178773.  Umsókninni fylgja uppdrættir og skriflegt samþykki landeiganda.

Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að skv. gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins er svæðið sem um ræðir þekkt ofanflóðasvæði. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að álits Skipulagsstofnunar verði leitað á því hvort vinna þurfi staðbundið áhættumat vegna erindisins sbr. 17. gr. reglugerðar nr. 505/2000 með áorðnum breytingum. Afgreiðslu erindisins frestað.

Ásrún Árnadóttir vék af fundi undir þessum lið.

13. Reynihlíð 12 b, umsókn um stækkun lóðar

Lagt fram erindi frá eigendum að Reynihlíð 12 b, þar sem óskað er eftir stækkun lóðar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði hafnað.

14. Richardshús Hjalteyri, umsókn um stækkun lóðar

Lagt fram erindi frá eigendum Richardshúss, þar sem óskað er eftir stækkun lóðar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði hafnað.

15. Glæsibær/Hagabyggð, aðal- og deiliskipulag

Auglýsingartímabili aðal- og deiliskipulagstillaga vegna 2. áfanga Hagabyggðar í landi Glæsibæjar lauk 27. júlí sl. og bárust fjögur erindi vegna málsins. Skipulags- og umhverfisnefnd fór yfir innkomin erindi í þeirri röð sem á eftir fer:

  1. erindi, sendandi Minjastofnun.

Athugasemd a) Sendandi telur að merkja þurfi fornleifar Ey-247:14 með flöggum á framkvæmdatíma svo þær spillist ekki af vangá við vinnu við rotþró.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar:

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaraðila verði gert að merkja fornleifar Ey-247 með flöggum á framkvæmdatíma.

Athugasemd b) Sendandi telur að hnika þurfi göngustíg milli lóða 2 og 4 aðeins sunnar til að koma í veg fyrir skemmdir á fornminjum, svo og að merkja fornleifarnar með flöggum á framkvæmdatíma.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar:

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að göngustíg milli lóða 2 og 4 sé hnikað til suðurs frá fornminjum Ey-247:14 og að minjarnar verði auk þess merktar með flöggum á framkvæmdatíma.

Ekki eru gerðar athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur í erindum sem bárust frá Norðurorku, Vegagerðinni né í bókun Svæðisskipulagsnefndar Eyjafjarðar á fundi 3. maí 2022.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að auglýstum skipulasgstillögum sé breytt til samræmis við afgreiðslu nefndarinnar á athugasemd 1b og að svo breyttar skipulagstillögur verði samþykktar skv. 1. gr. 32. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

16. Víðhlíð 1 og 3, ósk um breytingu er varðar hjólageymslur

Lagt fram erindi frá lóðarhöfum að Víðihlíð 1 og 3 þar sem óskað er eftir heimild til að reisa 9,2 fm hjólageymslu utan byggingarreits við fyrirhuguð fjölbýlishús á lóðunum Víðihlíð 1 og 3 í Lónsbakkahverfi. Erindinu fylgja uppdrættir frá Batteríið arkitektar dags. 2022-07-28.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fela málshefjanda að gera ráðstafanir til að tryggja að aðvífandi vegfarendur hafi næga yfirsýn þar sem gönguleið að húsi mætir gangstétt við fyrirhugað hjólaskýli, og að svo breyttri breytingartillögu verði vísað í grenndarkynningu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki sé gerð athugasemd við áformin. Erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabili.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl.  10:10