Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 74

16.06.2021 09:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

74. fundur

Fundargerð

Miðvikudaginn 16. júní 2021 kl. 09:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir, Ásgeir Már Andrésson og Sigríður Guðmundsdóttir (vm) í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar (í fjarfundi) og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri. Inga Björk Svavarsdóttir boðaði forföll.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri. 

1. Umhverfis- og loftslagsstefna Hörgársveitar

Lögð fram lokadrög þar sem búið er að skipta plagginu uppí tvo hluta, stefnuna annars vegar og aðgerðaráætlun hinsvegar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti stefnuna svo breytta og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt.

2. Lóðir við Reynihlíð

Farið var yfir möguleika sem til staðar eru vegna lóðanna Reynihlíð 20-26 eftir fund með lóðarumsækjanda.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gengið verði til samninga við Bögg ehf. um uppbyggingu á lóðunum nr. 20,22,24 og 26 við Reynihlíð.

3. Lónsbakki, deiliskipulag

Rætt áfram um hugmyndir frá skipulagshöfundi um áframhaldandi skipulag á svæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að vinna áfram að málinu og farið verði í skoðun á vegtengingar- og fráveitumálum sérstaklega. Skipulagshöfundum aðal- og deiliskipulags falið að vinna lýsingu fyrir breytingarnar.

4. Skútar, deiliskipulagsuppdráttur

Fyrir fundinum liggja drög að deiliskipulagstillögu fyrir athafnasvæði Skútabergs á Moldhaugnahálsi, uppdráttur og greinargerð dags. 25. maí 2021. Einnig hefur borist fullunnið þrívíddarlíkan sem kallað var eftir á síðasta fundi nefndarinnar.

Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að framkvæmdaáform sem lýst er í deiliskipulagstillögu ná útfyrir skilgreind athafna- og efnisvinnslusvæði í aðalskipulagi og því kalla áformin á aðalskipulagsbreytingu ef af á að verða.

Af þrívíddarlíkaninu má ráða að sjónræn áhrif framkvæmdanna sem áformaðar eru í deiliskipulagstillögunni verða talsvert mikil í nágrenni framkvæmdasvæðisins og myndi það kalla á mótvægisaðgerðir.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að sveitarfélagið leiti ráðgjafar um gerð skipulagsskilmála sem tryggt geta að umhverfisáhrif framkvæmda-áformanna verði ásættanleg.

5. Landsáætlun í skógrækt, beiðni um umsögn

Lagt fram erindi þar sem óskað er umsagnar vegna landsáætlunar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerðar almennar athugasemdir við áætluna, en leggur áherslu á að í landsáætlun í skógrækt verði ekki lagðar fjárhagslegar kvaðir á sveitarfélögin í landinu umfram það sem nú er.

6. Þríhyrningur 2, umsókn um byggingarreit

Lagt fram erindi frá Ástu Hafberg þar sem óskað er eftir afmörkun á byggingarreit fyrir íbúðarhús á landeigninni Þríhyrningi 2.  Erindinu fylgir uppdráttur frá Hákoni Jenssyni hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar dags. 4. júní 2021.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta tímabil grenndarkynningar ef allir hagsmunaaðilar lýsa því skriflega yfir að þeir geri ekki athugasemd og að erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndar-kynningartímabili.

Sigríður Guðmundsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.

7. Hagatún 1, breyting á aðkomu

Lagt fram erindi frá Ólafi Aðalgeirssyni ásamt uppdrætti þar sem óskað er eftir að aðkoma að lóðinni Hagatún 1 verði að sunnan en ekki að austan eins og ráðgert er í deiliskipulagi.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ofangreint  frávik frá deiliskipulagi verði heimilað á grundvelli gr. 5.8.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

8. Steinstaðir 2, umsókn um byggingarreit

Lagt fram erindi frá Sigurði Björgvini Gíslasyni og Ásrúnu Árnadóttur þar sem óskað er eftir afmörkun á byggingarreit fyrir gripahús. Erindinu fylgir uppdráttur frá Hákoni Jenssyni hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar dags. 3. júní 2021.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.

9. Neðri-Vindheimar, landskipti og byggingarreitur

Lagt fram erindi frá Birni Jóhanni Steinarsyni ásamt uppdrætti sem óskað er eftir samþykki við afmörkun landeignar úr landi Neðri-Vindheima sem fái nafnið Jötunheimar og byggingarreits fyrir íbúðarhús. Erindinu fylgir uppdráttur frá Hákoni Jenssyni hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar dags. 19. maí 2021.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:15