Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 71

27.04.2021 16:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

71. fundur

Fundargerð 

Þriðjudaginn 27. apríl 2021 kl. 16:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir, Jónas Þór Jónasson (vm), Ásgeir Már Andrésson og Inga Björk Svavarsdóttir í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjórn

1. Umhverfisstefna Hörgársveitar

Á fundinn mætti Sif Jóhannesdóttir verkefnisstjóri og var áfram unnið að gerð umhverfisstefnu sveitarfélagsins.

2. Hjalteyri, deiliskipulag

Athugasemdafrestur í grenndarkynningu á breytingartillögu á deiliskipulagi Hjalteyrar rann út 26. apríl sl. Erindi bárust frá Pétri J. Eiríkssyni, Sigrúnu Ástríði Eiríksdóttur og Steingrími Snævarri Ólafssyni, sem öll eru í eigendahópi Péturshúss. Í erindunum voru sett fram andmæli við deiliskipulagsbreytinguna og vísað til þess að aðstæður Péturshúss myndu breytast til hins verra við það að gatnatenging Búðagötu hliðraðist upp að austurhlið lóðarinnar, vegna þess að fallið væri frá hliðrun Hjalteyrarvegar til norðurs við Péturshús og vegna 18 fm. skerðingar á ráðgerðri lóð hússins þar sem Hjalteyrarvegur skarast við lóðina.

Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að með skipulagsbreytingunni sé lega Hjalteyrarvegar og tenging Búðagötu í deiliskipulagi færð til samræmis við legu gatnanna eins og hún er í dag. Nefndin bendir ennfremur á að lóðarmörk Péturshúss voru skilgreind í fyrsta sinn með gildistöku gildandi deiliskipulags Hjalteyrar 9. maí 2018 en fram að því voru lóðarmörk hússins óskilgreind. Lóð hússins hefur ekki verið stofnuð með formlegum hætti síðan deiliskipulagið tók gildi og því hefur lögformlegur eignarréttur húseigenda á lóðinni sem ráðgerð er í deiliskipulagi ekki stofnast. Jafnframt bendir nefndin á að Búðagata er ráðgerð sem vistgata með 15 km hármarkshraða og forgangi gangandi vegfarenda um mun það draga úr umferðaráreiti við Péturshús. Nefndin telur því að með umræddri deiliskipulagsbreytingu breytist aðstæður hússins, umhverfi og hagnýtingarmöguleikar húseigenda ekki til hins verra frá því sem verið hefur fram að þessu. Nefndin hefur þó skilning á sjónarmiðum húseigenda og leggur til við sveitarstjórn að lóðarmörkum lóðar Péturshúss sé hliðrað til austurs svo lóðin stækki sem nemur skerðingu vegna hliðrunar lóðarmarka norðanmegin.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að svo breytt deiliskipulagstillaga verði samþykkt og skipulagsfulltrúa verði falið að fullnusta gildistöku hennar.

3. Lóðir við Reynihlíð

Lagt fram erindi frá Bögg ehf þar sem sótt er um lóðirnar nr. 20,22,24 og 26 við Reynihlíð.

Umsókninni fylgir áætlun um breytingar á húsagerð frá því sem er í gildandi deiliskipulagi.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að hefja viðræður við umsækjanda og fela skipulagshöfundi að vinna að breytingu á deiliskipulagi lóðanna.

4. Lónsbakki, deiliskipulag

Lagður fram kynningar uppdráttur frá skipulagshöfundi með hugmyndum að deiliskipulagi við stækkun þéttbýlisins við Lónsbakka. 

5. Gatnagerð Reynihlíð, Víðihlíð umsókn um framkvæmdaleyfi

Lögð fram umsókn fyrir hönd Hörgsveitar, Norðurorku, Rarik, Mílu og Tengis þar sem sótt eru um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við gatnagerð og lagnir í Reynihlíð og Víðihlíð.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfið verði veitt.

6. Hjalteyri framkvæmdir, umsókn um framkvæmdaleyfi

Lögð fram umsókn frá Hörgsveitar þar sem sótt eru um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við gatnagerð og lagnir við Hjalteyrarveg á Hjalteyri.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfið verði veitt þegar deiliskipulagsbreyting tekur gildi.

7. Fagranes, skógrækt umsókn um framkvæmdaleyfi

Lögð fram umsókn þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi til skógræktar í Fagranesi L152434.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfið verði veitt.

8. Fagranes, deiliskipulagslýsing

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir að fá að deiliskipuleggja frístundabyggð á jörðinni Fagranesi í Öxnadal.  Jafnframt fylgir deiliskipulagslýsing.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að hafna deiliskipulagslýsingunni og að fela skipulagsfulltrúa að ræða við umsækjanda.

9. Syðra-Brekkukot, umsókn um afmörkun byggingareits

Albert Jensen sækir um samþykki sveitarstjórnar við byggingarreit fyrir reiðskemmu í landi Syðra-Brekkukots. Erindinu fylgir uppdráttur frá Jónasi Vigfússyni dags. 2021-04-05.

Skipulagsnefnd og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta tímabil grenndarkynningar skv. 3. mgr. sömu laga greinar og að erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningatímabili.

10. Glæsibær, landskipti

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir heimild til að stofna 1,37 ha landspildu úr landi Glæsibæjar L152488, samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að landskiptin verði samþykkt.

11. Dagverðartunga, umsókn um afmörkun byggingareits

Lagt fram erindi ásamt uppdrætti þar sem sótt er um afmörkun byggingareits fyrir frístundahús í landi Tungukots sem er úr landi Dagverðartungu L152391.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að byggingareiturinn verði samþykktur.

12. Míla, umsókn um að tækjahús á Hjalteyri verði fjarlægt

Lagt fram erindi frá Mílu ásamt uppdrætti þar sem óskað er heimildar til að fjarlægja 9 fm tækjahús sem staðsett er á Hjalteyri.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.

13. Akrahreppur aðalskipulagslýsing, umsögn

Lagt fram erindi vegna umsagnar á aðalskipulagslýsingu fyrir Akrahrepp.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við lýsinguna.

14. Fallorka, Vindheimavirkjun - rammaáæltun

Lagt fram erindi frá Fallorku þar sem kynnt eru áform um vindorkuver sem nefnist Vindheimavirkjun, en verkefnastjórn um rammaáætlun hefur lagt til að virkjunin fari í orkunýtingarflokk.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að öllum slíkum áformum um vindorkuver í Hörgársveit verði hafnað. 

15. Hvammur skurðgröftur

Lagt fram erindi þar sem óskað er heimildar til að grafa skurði í mólendi og túnum í landi Hvamms samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að heimila skurðgröft í mólendi og á túnum í landi Hvamms en bendir á að framræsting votlendis er ekki heimil en heimilt er að viðhalda gömlum skurðum.

16. Hlaðir, umsókn um um afmörkun byggingarreits

Lagt fram erindi þar sem sótt er um afmörkun byggingareits og lóðar fyrir íbúðarhús í landi Hlaða L152500.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.

17. Engimýri deiliskipulag, innkomnar athugasemdir og afgreiðsla

Athugasemdafrestur vegna tillögu að deiliskipulagi fyrir gistiþjónustu í Engimýri 3 rann út 18. mars sl. og bárust fjögur erindi vegna málsins.

Erindi bárust frá Umhverfisstofnun og Norðurorku en þar eru ekki settar fram athugasemdir við deiliskipulagið.

Í erindi Vegagerðarinnar er bent á að í deiliskipulagstillögu sé ráðgert að byggja nær þjóðvegi en skipulagsreglugerð heimilar og að sækja verði undanþágu til ráðherra vegna áformanna. Ennfremur er bent á að talsvert ónæði muni hljótast af nálægð húsanna við þjóðveg 1 og muni Vegagerðin ekki standa straum af kostaði við mótvægisaðgerðir vegna þess. Skipulags- og umhverfisnefnd telur að athugasemdirnar gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu. Í erindi Minjastofnunar er bent á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 þar sem segir að ef áður ókunnar minjar finnast við framkvæmdir skuli stofnuninni gert viðvart án tafar. Skipulags- og umhverfisnefnd telur að athugasemdin gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga verði samþykkt óbreytt skv. 3. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að skipulagsfulltrúa verði falið að fullnusta gildistöku skipulagsins.

18. Þrastarhóll, umsókn um breytingu á skilmálum í deiliskipulagi

Lagt fram erindi þar sem sótt heimild til að auka byggingarmagn á lóðinni nr. 1 í frístundabyggð Þrastarhóls frá því sem kveðið er á um í deiliskipulagi.

Skipulagsnefnd og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta tímabil grenndarkynningar skv. 3. mgr. sömu lagagreinar og að erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningatímabili.

19. Skógarhlíð 43, umsókn um stækkun á lóð

Lagt fram erindi ásamt uppdrætti þar sem óskað er eftir stækkun á lóðinni Skógarhlíð 43 til norðurs.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að hafna erindinu.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 20:32