Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 63

28.04.2020 15:30

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

63. fundur

Fundargerð

Þriðjudaginn 28. apríl 2020 kl.15:30 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í stofu 9 í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir, Ásgeir Már Andrésson, Inga Björk Svavarsdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir (vm) í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1. Aðalskipulag Hörgársveitar, breyting

Lagður fram listi yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust og farið yfir þær og eftirfarandi svör við þeim sem þarfnast svara:

Erindi 1 – sendandi Ólafur Aðalgeirsson f.h. GLB17

Meðal þess sem verið er að gera með auglýstri breytingartillögu er að laga mistök sem gerð voru við fyrri breytingu ASK þegar að efnistökusvæði féllu út af gildandi ASK. í umræddri breytingartillögu er annað af þeim efnistökusvæðum fært aftur inn á ASK á þeim forsendum að það hafi farið út fyrir mistök en efnistökusvæði í landi

Glæsibæjar er skilið eftir og fær ekki sambærilega leiðréttingu á þeim forsendum að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið í gildi þegar umrædd ASK breyting var gerð (skv. svari við athugasemd við skipulagslýsingu). Nú er það þannig skv. Skipulagsstofnun að framkvæmdaleyfi getur ekki talist forsenda þess að fella efnistökusvæði út af skipulagi heldur þarf að gera það með formlegum hætti, gera grein fyrir því í greinagerð ASK og gefa hagsmunaaðilum færi á að verja sína hagsmuni. Það var klárlega ekki gert í þessu tilfelli og ætti því umrætt efnistökusvæði að fá alveg sambærilega málsmeðferð og efnistökusvæði við Hlaðir.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að athugasemdinni verði svarað með eftirfarandi hætti:  Við gerð aðalskipulags Hörgársveitar árið 2012 var mörkuð sú stefna að fækka skyldi efnistökusvæðum og að í sveitarfélaginu skyldu til lengri tíma litið vera færri en stærri efnistökusvæði og var landeigendum veittur lögboðinn andmælaréttur vegna þeirra breytinga. Að þessu markmiði var m.a. valin sú leið að fella út af aðalskipulagi þau efnistökusvæði sem ekki voru í virkri notkun þegar skipulagsvinnan fór fram. Á þeim tíma var í gildi framkvæmdaleyfi til efnistöku á efnistökusvæðinu við Hlaðir en ekki í Glæsibæ og að því leyti hafi staða efnistökusvæðanna verið ólík. Sveitarstjórn telur því að málefnaleg rök liggi að baki ákvörðun sveitarstjórnar um að fella efnistökusvæði í Glæsibæ út af aðalskipulagi, en aftur á móti hafi efnistökusvæði við Hlaðir verið fellt út fyrir handvömm. Með aðalskipulagsbreytingu sem nú er til umræðu er sú handvömm leiðrétt. Skipulags- og umhverfisnefnd telur því ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

Erindi 2 – sendendur Guðmundur H. Gunnarsson, Róbert Fanndal, Sighvatur Stefánsson, Klængur Stefánsson, Bragi Konráðsson, Halldór Jóhannsson, Björn J Jóhannsson, Sverrir Brynjar Sverrisson og Sigríður Kristín Sverrisdóttir.

Sendandi telur það er alger óþarfi að í aðalskipulaginu standi þessi klausa um jákvæða umsögn Fiskistofu um hvort efni sé tekið á fleiri en einum stað í einu úr Hörgá, því Fiskistofa þarf hvort sem er að veita leyfi fyrir allri efnistöku úr ám og vötnum samkv. lögum um lax- og silungsveiði nr. 6 frá 2006 og hefur þar af leiðandi öll gögn hjá sér hvar sé leyfi fyrir efnistöku á hverjum tíma og þetta ákvæði í aðalskipulagi verður einungis til að seinka því ferli sem þarf að fara í gegnum til að hægt sé að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku. Það þjónar ekki hagsmunum Hörgár, ræktunarlanda  á  bökkum  hennar  né  landeigenda  að  hafa  þessa  klausu  inni,  því efnistakan á að stuðla að bakkavörnum árinnar og oft getur þurft að bregðast tiltölulega fljótt við ef landbrot hefst á bökkum ánna eða stefnir í að þær ætli að flæða yfir bakka sína.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að athugasemdinni verði svarað með eftirfarandi hætti:  Í umhverfismatsskýrslu vegna efnistöku í Hörgá kemur víða fram að efnistaka skuli einungis fara fram á afmörkuðum svæðum í einu til að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Núverandi ákvæði aðalskipulags um að efnistaka skuli einungis fara fram á einum stað í einu tryggir að þessi ákvæði umhverfismats-skýrslu eru uppfyllt. Í samtali fulltrúa sveitarfélags við Fiskistofu kom m.a. fram að núverandi ákvæði stuðli að því að unnt sé að vakta áhrif efnistöku á lífríki árinnir og stýra efnistökunni á grundvelli þeirrar reynslu sem þannig aflast.

Framkvæmdaleyfi til efnistöku verða eftir sem áður að samræmast samþykktu umhverfismati og þannig telur skipulags- og umhverfisnefnd ekki unnt að fella alfarið út núverandi ákvæði aðalskipulags heldur beri breyttu aðalskipulagi að stuðla jafn vel að verndarsjónarmiðum lífríkis árinnar og núverandi skipulag. Skipulags- og umhverfis-nefnd telur að orðalag auglýstrar skipulagstillögu varðandi efnistöku í ánni stuðla að því að gætt sé að þessum verndarsjónarmiðum sem og jafnræðis milli landeigenda á málefnalegan hátt við leyfisveitingar. Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemd sendenda ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

Sendandi segir í gildandi aðalskipulagi á bls. 35, í sér ákvæði um efnistöku úr Hörgá, að efnislager skuli fluttur fjarri ánni á öruggt efnisgeymslusvæði. Þarna átti að standa fjær ánni, en ekki fjarri. (ekki vera með íþyngjandi ákvæði á aðalsk. ef ekki er þörf á því). Best væri að breyta þessari setningu: Gengið skal þannig frá efnislager á geymslu-svæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur út í árnar við háa vatnsstöðu í þeim.

Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á rök sendenda og leggur til við sveitarstjórn að orðalag auglýstrar skipulagstillögu sé lagfært eins og fram kemur í athugasemd og orðist svo:  Gengið skal þannig frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur út í árnar við háa vatnsstöðu í þeim.

Erindi 2 - sendandi Vegagerðin

Sendandi fer fram á að mörk skógræktrarsvæðis við Grjórgarðs séu endurskoðuð á tiltekinn hátt m.t.t. snjósöfnunar

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að að leggja til við sveitarstjórn að athugasemd sendanda ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu enda liggja ekki fyrir nægjanlega ítarlegar tillögur um framtíðarvegstæði þjóðvegar 1 á þessu svæði.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan sé samþykkt skv. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem fram koma í afgreiðslu nefndarinnar á 2. lið athugasemda Gunnars H. Gunnarssonar og annarra landeigenda við Hörgá.

2. Glæsibær, deiliskipulag og aðalskipulagsbreyting

Lagður fram listi yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust og farið yfir þær og eftirfarandi svör við þeim sem þarfnast svara:

Erindi 1 – sendandi Vegagerðin

Á aðalskipulagsuppdrætti sem sýnir breytinguna virðist vera teiknaður tengivegur niður í Eyrarvík. Vegurinn er í dag héraðsvegur skv. vegalögum nr. 80/2007.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að aðlskipulagsuppdráttur verði leiðréttur samkvæmt athugasemd sendanda.

Sendandi bendir á að sýna þarf veghelgunarsvæði Dagverðareyrarvegar og tengivegar íbúðarsvæðis á deiliskipulagsuppdrætti og tryggt sé að vegtenging við Dagverðareyrarveg sé þannig staðsett að vegsýn sé fullnægjandi.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að veghelgunarsvæði Dagverðareyrarvegar og tengivegar íbúðarsvæðis verði færð inn á deiliskipulagsuppdrátt.

Erindi 2 - sendandi Minjastofnun

Sendandi fer fram á að vísað sé til fornleifaskráningar frá 2018 í aðalskipulags greinargerð.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að orðalagi aug-lýstrar aðalskipualgstillögu sé breytt á þá leið að vísað sé til fornleifaskráningar frá 2018.

Sendandi fer fram á að í greinargerð aðalskipualgstillögu sé vísað til „skráðra friðlýstra og friðaðra fornleifa“ á bls. 13.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að orðalagi auglýstrar skipulagstillögu sé breytt líkt og sendandi leggur til.

Sendandi gerir athugasemd við að lóðir L1-1. L1-3, L1-5, L1-7, L1-12 og L1-10 séu innan gamals heimatúns Glæsibæjar og að reynsla hafi sýnt að óþekktar fornminjar geti leynst í jörðu þar sem svo háttar til. Sendandi kveðst ekki geta samþykkt deiliskipulagið nema umræddar lóðir séu felldar af skipulagi eða ráðist sé í rannsóknir og mótvægis-aðgerðir sem tilgreindar eru í erindi sendanda.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að sveitarstjórn samþykki deiliskipulagið fyrir sitt leyti með þeim fyrivara að brugðist sé við athugasemdum Minjastofnunar á fullnægjandi hátt og að jákvæð umsögn stofnunarinnar liggi fyrir áður en deiliskipulag er sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Erindi 3 – sendandi Umhverfisstofnun

Sendandi telur mikilvægt að fram komi í greinargerð skipulagstillögu hvernig tillagan samræmist kafla 2.1.1. í Landsskipulagsstefnu þar sem fram kemur að í dreifbýli skuli fjölgun íbúða fremur tengjast búrekstri eða annarri staðbundinni landnýtingu eða atvinnurekstri.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að athugasemdinni verði svarað með eftirfarandi hætti:  Sveitarstjórn hefur við vinnslu skipulagsbreytingarinnar haft hliðsjón af ákvæðum Landsskipulagsstefnu um þróun byggðar sem og ákvæðum gildandi svæðisskipulags Eyjafjarðar sem lúta að sömu þáttum. Sveitarstjórn hefur litið til greinargerðar kafla 2.1.1. þar sem m.a. segir „þannig verði ekki stofnað til nýrra þéttbýliskjarna og fjölgun íbúða í dreifbýli verði fremur í tengslum við og til að styrkja landbúnað og aðra staðbundna atvinnustarfsemi.“ Keimlíkt ákvæði er að finna í svæðisskipulagi Eyjafjarðar þar sem í kafla 3.2 um byggðarmynstur er m.a. lýst því marmiði að ekki skuli stofnað til nýrra þéttbýlisstaða á skipulagssvæðinu. Sveitarstjórn túlkar þessi ákvæði ekki sem fortakslaust bann við byggingu íbúðarhúsnæðis ótengdu landbúnaði eða staðbundnum atvinnurekstri, heldur lítur sveitarstjórn svo á að takmörkuð uppbygging samræmist báðum skipulagsáætlununum svo lengi sem umfang uppbyggingar sé undir þéttbýlismörkum. Við vinnslu skipulagstillögunnar sem hér um ræðir hefur sveitarstjórn þannig fækkað íbúðarlóðum á íbúðarsvæði ÍB2 til mikilla muna frá því sem fram kom í upphaflegri umsókn landeigenda og er það mat sveitarstjórnar að á þennan hátt sé tryggt að umfang íbúðarsvæðisins verði undir þéttbýlismörkum, þ.e. að hámarki 49 íbúar þar sem að jafnaði eru 200 m á milli húsa skv. 2. gr. skipulagslaga.

Sendandi bendir á að fráveita skuli samræmast reglugerð um fráveitu og skólp nr. 798/1999.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að bæta skuli tilvísun í reglugerð um fráveitu og skólp nr. 798/1999 í greinargerð deiliskipulags.

Skipulags og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að aðalskipulagstillaga sé samþykkt skv. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem koma fram í afgreiðslu nefndarinnar erindi Vegagerðarinnar. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að deiliskipulagstillaga sé samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem fram koma í afgreiðslu nefndarinnar á erindi Vegagerðarinnar, Minjastofnunar og Umhverfisstofnunar.

3. Hjalteyri, deiliskipulagstillaga á vinnslusvæði Norðurorku

Lagður fram listi yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust og farið yfir þær og eftirfarandi svör við þeim sem þarfnast svara:

Erindi 1 – sendandi Eygló Jóhannesdóttir

Sendandi fer fram á að orðalag á bls. 3 sé lagað þannig að ekki megi lesa það þannig að Hörgársveit eigi Arnarnes.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að orðalag sé leiðrétt skv. athugasemd sendanda.

Erindi 2 sendandi Umhverfisstofnun

Sendandi fer fram á að fjallað sé um votlendi innan skipulagsmarka í greinargerð tillögu, með vísan til 61. gr. laga nr. 60/2013 og vistgerðarsjár Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulags-hönnuði verði falið að gera viðeigandi lagfæringar á texta skipulagsgreinargerðarinnar.

Sendandi bendir á að innan skipulagssvæðis séu vistgerðir sem hafa verndargildi skv. Bernarsamningsins frá 2014 og fer fram á að fjallað sé um þetta í greinargerð skipulagsbreytingar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að gera viðeigandi lagfæringar á texta skipulagsgreinargerðarinnar.

Erindi 3 – sendandi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra

Sendandi minnir á mkilvægi mengunarvarna og viðbragðsáætlunar vegna olíutanks á staðnum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að í greinargerð skipulags skuli kveðið á um að útbúa skuli viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa á svæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem fram koma í afgreiðslu nefndarinnar á erindi Eygló Jóhannesdóttur,Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Eyjafjarðar auk breytingar á mænishæð dæluhúss sem Norðurorka fór fram á bréfleiðis eftir að auglýsingatíma var lokið.

4. Gásir, skipulagslýsing deiliskipulags

Lagður fram listi yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að hafa hliðsjón af innkomnum erindum við gerð skipulagstillögu.

5. Skógrækt í landi Háls í Öxnadal - beiðni um umsögn

Lagt fram erindir frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er umsagnar um greinargerð matsskyldufyrirspurnar varðandi fyrirhugaða skógrækt í landi Háls í Öxnadal.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við greinargerðina og veitt verði jákvæð umsögn vegna áformanna. Þó verði hugað vel að þeim breytingum sem skógrækt hefur á ásýnd svæðisins.

6. Svæðisskipulag Eyjafjarðar, breytingartillaga

Tekin fyrir afgreiðsla svæðisskipulagsnefndar Eyjafjarðar frá 31. mars 2020 á tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024 vegna flutningslína raforku.  Tillagan var auglýst 21. janúar 2020 með athugasemdafresti til 6. mars 2020.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að afgreiðsla svæðisskipulagsnefndar verði samþykkt og felur henni, að fengnu samþykki annarra sveitarstjórna á skipulagssvæðinu, að senda Skipulagsstofnun breytingartillöguna til staðfestingar sbr. ákvæði 25. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7. Stöðuleyfi, Hjalteyri

Erindi frá Lene Zachariassen og Páli Rúnari Pálssyni þar sem þau tilkynna að þau falli frá lóðarumsókn sinni að Hvammsvegi 1, Hjalteyri.

Þá óska þau eftir tímabundnu stöðuleyfi fyrir 30 fm. sumarhús við verksmiðjuhúsin á Hjalteyri.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulags- og byggingarfulltrúa verði veitt heimild til að gefa út stöðuleyfi til eins árs, enda verði húsið staðsett með tilliti til brunavarna.

8. Búðagata 9, Hjalteyri

Borist hafa kvartanir vegna lóðarinnar Búðagata 9, Hjalteyri þar sem óklárað hús hefur verið lengi í byggingu. Lóðarhafa hefur verið gefinn frestur til 5. maí n.k. til að bregðast við athugasemdum sem honum hefur verið sendar.

9. Stöðuleyfi fyrir gáma

Rætt um eftirlit með gildum stöðuleyfum fyrir gáma í sveitarfélaginu.  Ákveðið að fara í átak og hvetja þá sem eru með slíka gáma að tryggja að þeir séu með gild stöðuleyfi.

10. Dagverðareyri 3, afmörkun byggingareits

Lagt fram erindi þar sem óskað eftir heimild til afmörkunar byggingareits fyrir geymsluhús í landi Dagverðareyrar 3, lnr. 221095.  Umsókninni fylgir uppdráttur.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði vísað í grenndarkynningu samkvæmt 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ef ekki berast andmæli á grenndarkyningartímabili telst erindið samþykkt.

Jóhanna María Oddsdóttir vék af fundi undir þessum lið.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 19:15