Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 3

08.11.2006 20:30

Miðvikudaginn 8. nóvember 2006 kl. 20:30 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

Á fundinum voru: Oddur Gunnarsson, formaður, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri. Ennfremur var Yngvi Þór Loftsson, skipulagsráðgjafi aðalskipulags Hörgárbyggðar, á fundinum.

 

Þetta gerðist:

 

1. Aðalskipulag

Yngvi Þór Loftssongerði grein fyrir stöðu á aðalskipulagsgerðinni almennt og sýndi uppdrætti með hugmyndum um þróun byggðar syðst sveitarfélaginu.

Þær hugmyndir sem fram komu voru ítarlega ræddar. Ákveðið að leitað verði eftir heimildum viðkomandi landeigenda til að kanna jarðvegsdýpt á svæðinu næst vestan við Skógarhlíðarsvæðið. Yngva Þór var falið að vinna hugmyndirnar áfram í samræmi við umræður á fundinum.

Rætt um mikilvægi þess að til staðar sé samstarfsvettvangur Hörgárbyggðar og Akureyrarbæjar um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkunum. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún beiti sér fyrir stofnun samstarfshóps sveitarfélaganna um skipulagsmál.

 

2. Fyrirspurn um verslunar- og þjónustulóð

Greint var frá óformlegri fyrirspurn sem borist hefur um möguleika á úthlutun u.þ.b. 1 ha lóðar fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Að loknum umræðum um málið samþykkti nefndin að leggja til við sveitarstjórn að hafin verði gerð deiliskipulags á landi Mið-Samtúns, neðan hringvegar, fyrir lóðir fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, strax og formleg lóðarumsókn berst frá fyrirspyrjanda eða öðrum sem sækja kann um slíka lóð, þar sem það fellur vel að samþykktu svæðisskipulagi.

 

3. Gáseyri, deiliskipulag

Lagt fram bréf, dags. 30. október 2006, frá Skipulagsstofnun þar sem greint er frá því að stofnunin geri ekki athugasemd við að deiliskipulag Gáseyrar verði auglýst, en bendir á að (1) gera þurfi grein fyrir hvort gera eigi ráð fyrir sandnámi á svæðinu, (2) svara formlega athugasemd sem dagsett er 24. júlí 2006 og (3) gera grein fyrir vatnstöku og stofnlögnum.

Nefndin leggur til að í deiliskipulaginu verði gerð grein fyrir sandnámi og vatnstöku og stofnlögnum. Ákveðið að skrifa landeiganda og óska eftir að gerð verði grein fyrir efnismagni væntanlegs sandnáms og efnistökusvæði þess skilgreint.

 

4. Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð, eftirfylgni

Rætt um hvernig staðið verði að eftirfylgni Staðardagskrár 21 fyrir Hörgárbyggð sem sveitarstjórn afgreiddi 10. maí 2006. Ákveðið að stefna að sérstökum fundi um málið eftir áramótin.

 

Fleira gerðist ekki fundi slitið kl. 22:40