Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 50

26.02.2018 11:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

 50. fundur

 Fundargerð

 

Mánudaginn 26. febrúar 2018 kl. 11:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir og Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1.            Uppbygging í Hlíðarfjalli

Fulltrúi aðstandenda útivistarsvæðisins í Hlíðarfjalli, Hlíðarhryggs ehf.  Arnór Þórir Sigfússon mætti á fund nefndarinnar til að ræða um uppbyggingu í Hlíðarfjalli, sem lendir að hluta til í Hörgársveit og var með kynningu á verkefninu.

2.            Deiliskipulag Hjalteyrar

Skipulagshöfundur Árni Ólafsson mætti til fundar við nefndina.  Skipulagsfulltrúi og skipulagshöfundur fóru yfir þær athugsemdir sem bárust við deiliskipulagsstillöguna og lagðar voru fram tillögur að svörum við þeim.

Umsagnir og athugasemdir bárust frá fimm aðilum og leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að eftirfarandi svör vegna þeirra verði samþykkt:

1.       Hermann Jóhannesson, eigandi Ásgarðs

a)      Sendandi telur að skv. nýju skipulagi sé lóð Ásgarðs minnkuð og á þann hátt gengið í gegn lóðarleigusamningi frá 1939. Sendandi telur að „Þetta þarf að leiðrétta, annars kalla þessar breytingar á mótvægisaðgerðir“.

Svar: Að teknu tilliti til framkominnar athugasemdar leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að lóðarmörk Ásgarðs við Brekkuhús og Hjalteyrarbraut verði skilgreind við girðingu meðfram vesturhlið lóðar og þannig að flatarmál lóðar verði 3000 m2 í samræmi við lóðarleigusamning frá 1939.

b)      Sendandi vísar til 2 m hliðrunar á Hjalteyrarbraut, sem hann telur að muni framkalla jarðvegssig auk þess sem umferð muni færast nær húsi. Sendandi telur að með þessu sé gengið á hlut húseigenda og fer fram á „mótvægisaðgerðir til að skila lóð og umhverfi í samræmi við og ekki lakari en hún er nú“.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að gangstétt meðfram Hjalteyrarbraut skuli liggja eins og fram kemur í auglýstri skipulagstillögu, enda er tilkoma gangstéttarinnar ríkt hagmunamál fyrir gangandi vegfarendur og umferðaröryggi. Ekki verður séð að framkvæmdin spilli grundunarskilyrðum Ásgarðs. Við gatnahönnun skal huga að grundunaraðstæðum húss með tillti til bakka-skeringa.

c)       Sendandi telur staðsetningu tjaldsvæðis ekki góða og telur að því væri betur fyrir komið ofar á ásnum, fjær íbúðarbyggð.

Svar: Að teknu tilliti til athugasemda samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að leggja til við sveitarstjórn að staðsetning tjaldsvæðis haldist óbreytt frá aulýstri skipulagstillögu, enda er hún í samræmi við skilgreinda landnotkun í gildandi aðalskipulagi.

d)      Sendandi telur að betra sé að tengja tjaldsvæði við hafnarsvæði með sneiðingi til norðausturs niður bakkann frekar en með gangbraut meðfram Hjalteyrarbraut.

Svar: Að teknu tilliti til athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að gangstétt meðfram Hjalteyrarbraut verði eins og sýnt er í auglýstri skipulagstillögu. Sneiðingur niður bakkann myndi kalla á miklar jarðvegsframkvæmdir og einungis gagnast gestum tjaldsvæðis, meðan sú staðsetning sem fram kemur í auglýstri skipulagstillögu kallar á takmarkaðar jarðvegsframkvæmdir sem og að gangstéttin þjónar stærri hópi vegfarenda þar en annarsstaðar. 

e)      Sendandi telur að skilgreining Brekkugötu og Búðagötu sem vistgatna með 15 km/kls hámarkshraða takmarki bílaumferð um göturnar.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að Brekkuhús og Búðagata verði skilgreindar sem vistgötur, með þar til heyrandi umferðarskilmálum, enda samræmist hærri hámarkshraði ekki umferðaröryggissjónarmiðum.

f)       Sendandi telur að ekki sé gert ráð fyrir geymsluplássi fyrir báta og vagna á landi á eyrinni.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að svæði fyrir uppsátur sé bætt inn á skipulagsuppdrátt austan við verksmiðjuna norðan við hjalla. Auk þess verði gert ráð fyrir akfærum slóða að uppsátri austan við verksmiðju.

g)      Skilja má af erindi sendanda að hann átelji að bílaumferð austur fyrir verksmiðju og út á granda verði ekki heimiluð.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að umferð vélknúinna ökutækja verði ekki heimil á svæðinu austan verksmiðjunnar og norður á granda, líkt og fram kemur í auglýstri skipulagstillögu. Þó verði heimiluð aðkoma ökutækja að uppsátri skv. f. lið.

h)      Sendandi telur að með að heimila fjórar nýjar byggingar á eyrinni og færa veginn sé búið að „fullnýta þannig alla eyrina undir mannvirki“. Einnig átelur hann að umferð um eyrina sé takmörkuð nema fyrir þá sem eiga erindi. Sendandi telur þessar rástafanir þjóni ekki verndarhagsmunum eyrarinnar.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að ekki verði gerðar breytingar á þeim þáttum skipulagsins sem umrædd athugasemd sendanda lýtur að, enda er er það mat nefndarinnar að umfang viðbættrar byggðar sé hóflegt og í góðu samræmi við aðstæður.

i)        Sendandi telur óviðeigandi að „halda því fram að Systrakot og kaffihúsið (kaffi Lísa) séu það mikið úr takt við heildarmynd annara húsa á eyrinni að það ætti helst að rífa þau og byggja ný“.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að byggingarheimildir á lóðum Systrakots og kaffihússins á eyrinni verði með sama hætti og í auglýstri skipulagstillögu, enda er um byggingarheimild en ekki framkvæmdaskyldu að ræða.

j)        Sendandi átelur að með skipulaginu sé verið að „breyta húsum á eyrinni úr frístunda húsum í íbúðarhús“ og spyr hvort það sé gert í fjáröflunarskyni fyrir sveitarfélagið.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að landnýtingarflokkum í samþykktu deiliskipulagi verði haldið óbreyttum frá auglýstri skipulagstillögu, enda sé það í samræmi við landnýtingarflokka í gildandi aðalskipulagi.

k)      Sendandi telur að vatnsmiðlun austan við Hjalteyrarskóla sé ranglega nefnd „Skrugga“ í skipulagsgögnum.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að nafngiftin „Skrugga“ á vatnsmiðlun austan Hjalteyrarskóla sé felld út úr skipulagsgögnum.

2.       Umsögn Minjastofnunar Íslands

a)      MÍ bendir á að innan skipulagssvæðis séu bæði friðaðar fornleifar og aldursfriðuð hús og minnir á ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012, þar sem kveðið er á um friðun friðlýstra þjóminja og fornleifa sem friðlýstar eru í krafti aldurs. Einnig er bent á að eigendur húsa sem reist voru fyrir 1925 eða fyrr megi ekki breyta þeim eða rífa án leyfis MÍ.

Svar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

b)      MÍ bendir á að ekki megi raska sjánlegri tóft sem er utan byggingarreits á næstnyrstu lóð Grímsstaðabyggðar án leyfis stofnunarinnar.

Svar: Skráðir minjastaðir verða merktir  á deiliskipulagsuppdrætti.

c)       MÍ bendir á að skoða þurfi staðsetningu fuglaskoðunarhúsa við tjönina og stíga umhverfis tjörn m.t.t. skráðra fornminja, en staðsetning skv. skipulagsuppdrætti skarast við garðlag frá 1912-13.

Svar: Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samráð verði haft við MÍ um endanlega staðsetningu fuglaskoðunarhúsa og stíga umhverfis tjörn.

d)      MÍ bendir á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar þar sem segir að ef ókunnar fornminjar komi í ljós við framkvæmdir skuli þær stöðvaðar án tafar og Minjastofnun gert viðvart.

Svar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

e)      MÍ fagnar því að sveitarfélagið hyggist gera gamla byggð Hjalteyrar að verndarsvæði í byggð.

Svar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

3.       Umsögn Vegagerðarinnar

a)      Sendandi tilkynnir að skv. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007 muni Brekkuhús, Hjalteyrarbraut austan Brekkuhúsa og Arnarholtsvegur falla af vegaskrá.

Svar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

b)      Þar sem vegir á skipulagssvæðinu eru að mestu leyti sveitarfélagsvegir í skilningi vegalaga gerir Vegagerðin ekki athugasemd við umferðartæknilega útfærslu vegnanna.

Svar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

4.        Umsögn Norðurorku

a)      Norðurorka bendir á að fyrirhuguð sé ný aðveitulögn fyrir heitt vatn frá Hjalteyri til Akureyrar. Viðeigandi væri að gera grein fyrir þessum áformum í kafla 3.14 í greinargerð og e.t.v líka á uppdrætti.

Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að gerð verði grein fyrir áformum Norðurorku um aukna vinnslu heits vatns á Hjalteyri í greinargerð deiliskipulags og heimild fyrir nýrri stofnlögn samsíða eldri lögn.

5.       Umsögn Dalvíkurbyggðar

Dalvíkurbyggð tilkynnir að hún geri ekki athugasemd við auglýsta skipulagstillögu.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að svo breytt deiliskipulagstillaga fyrir Hjalteyri verði samþykkt og skipulagsfulltrúa falið að annast gildistöku hennar.

3.            Vegagerðin vegna deiliskipulags Lónsbakka

Erindi frá Vegagerðinni eftir viðræður við fulltrúa sveitarfélagsins vegna fyrirkomulags á vegtengingum við Lónsveg. Áfram verður unnið að málinu.

4.            Lýsing vegna breytinga á aðalskipulagi vegna Glæsibæjar

Lögð fram kostnaðar- og tímaáætlun vegna vinnu við verkefnið.  

Lögð fram tillaga að skipulags- og matslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna breytinga á landnotkun í landi Glæsibæjar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja eftirfarandi til við sveitarstjórn:

a)      Ekki verði gefin heimild til skipulagningar fleiri lóða en sótt var um og samþykkt sveitarstjórnar frá 14. desember 2017 byggir á, en þar er talað um 20-30 lóðir. 

b)      Þá skal áréttuð samþykkt sveitarstjórnar frá sama fundi þar sem segir:  „Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði heimiluð efnistaka á jörðinni nema til einkanota.“  Nefndin áréttar að þar er átt við til einkanota á landi Glæsibæjar.

Skipulagslýsingunni verði breytt til samræmis við ofangreint

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að lýsingin verði samþykkt svo breytt og skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra verði falið að kynna hana fyrir Skipulagsstofnun og öðrum umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi.

5.            Breyting á aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025

Lagt fram erindi frá Eyjafjarðarsveit vegna breytinga á aðalskipulagi vegna Tjarnarvirkjunar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við breytinguna.

6.            Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar 2018-2030

Lagt fram erindi frá Eyjafjarðarsveit vegna kynningar á tillögu að aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerðar athugasemdir við tillöguna en sveitarfélagið áskilji sér rétt til að setja fram athugasemdir á auglýsingatíma hennar.

7.            Vinnslutillaga að breytingu á aðalskipulagi Skagafjarðar 2009-2021

Lagt fram erindi þar sem vinnslutillagan er kynnt.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við vinnslutillöguna.

8.            Reglur um útfærslu ákvæða byggingarreglugerðar um stöðuleyfi fyrir gáma og annað bráðabirgðahúsnæði

Lögð var fram tillaga að reglunum. 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að reglurnar verði samþykktar og sveitarstjóra falið að annast gildistöku þeirra.

9.            Erindi vegna leyfis fyrir aðstöðu til sölu á handverki á Hjalteyri

Lagt fram erindi frá Moniku M Stefánsdóttur þar sem hún óskar eftir heimild til að fá að vera með sölu aðstöðu fyrir handverk á Hjalteyri í sumar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að leyfið verði veitt í samræmi við reglur um stöðuleyfi.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 14:19