Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 41

14.03.2016 10:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

41. fundur

Fundargerð

Mánudaginn 14. mars 2016 kl. 10:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir og Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd ásamt Ómari Ívarssyni skipulagsfulltrúa og Snorra Finnlaugssyni sveitarstjóra.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1.            Deiliskipulag Dysnes

Farið var yfir innkomnar umsagnir og athugasemdir og tillögur að svörum.

Tíu umsagnir bárust:

1.       Skipulagsstofnun, 23. nóv. 2015.

a.      Skipulagsstofnunmælir með samráði við nærliggjandisveitarfélög varðandi fyrirhuguð áform sveitarfélaganna um uppbyggingu hafna

Svar: Hafnar- og iðnaðarsvæði á Dysnesi var skilgreint í Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024 sem var samvinnuverkefni allra sveitarfélaganna við Eyjafjörð. Sameiginleg ákvörðun sveitarfélaganna um skipulag á Dysnesi byggði m.a. á umhverfismati áætlunarinnar.

 

2.       Umhverfisstofnun, 16. des. 2015.

a.       Umhverfisstofnun bendir á að ef nýta á efni úr námum í Hörgársveit er mikilvægt að námavinnslan hafi ekki neikvæð sjónræn áhrif.

Svar: Efnisnám verður einungis úr viðurkenndum námum með starfsleyfi og/eða námum sem farið hafa í gegn um umhverfismat þar sem það á við.

b.      Umhverfisstofnun bendir á að þar sem Hörgárósar sem er svæði á náttúruminjaskrá er í nágrenni ofangreinds hafnarsvæðis, væri eftirsóknarvert að skilgreina iðnaðarsvæðið þrengra og með takmarkaðri umhverfisáhrif en gert er í ofangreindri deiliskipulagstillögu.

Svar:

Í aðalskipulagi er hafnarsvæði skilgreint á Dysnesi samsíða strandlínu og um 250 m frá henni. Þar fyrir ofan er skilgreind blönduð landnotkun, athafnasvæði (60%) og iðnaðarsvæði (40%). Skv. skilmálum í aðalskipulagi eru iðnaðarlóðir einkum ætlaðar undir iðnfyrirtæki/verksmiðjur sem henta á athafnasvæðum og hafa litla mengun í för með sér.

Í deiliskipulagi eru iðnaðarlóðir á miðju svæðinu, ofan lóða fyrir hafnsækna starfsemi. Skilmálar fyrir iðnaðarlóðir í deiliskipulagi eru þau að lóðirnar séu einkum ætlaðar undir iðnfyrirtæki og/eða verksmiðjur, sem ekki hafa veruleg neikvæð áhrif á umhverfið.

Tekið er undir athugasemd og skilmálum í deiliskipulagi breytt á þann hátt að lóðirnar eru ætlaðar undir iðnað sem ekki er talin hafa neikvæð umhverfisáhrif í stað þess að áður voru skilmálar á þann hátt að lóðir eru ætlaðar undir iðnað sem ekki er talin hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif.

c.       Umhverfisstofnun bendir á að nú þegar er hafnarstarfsemi á fjölda staða við Eyjafjörð. Svæðið við Dysnes er að mestu óraskað svæði hvað framkvæmdir varðar. Að mati stofnunarinnar er mikilvægt að skoða heildarhafnarframkvæmdir við Eyjafjörð og umhverfisáhrif þeirra, og hvort eftirsóknarvert væri að nýta þær hafnir sem fyrir eru, í stað þess að byggja upp nýtt hafnarsvæði við Eyjafjörð með miklum umhverfisáhrifum.

Svar:

Hafnar- og iðnaðarsvæði á Dysnesi var skilgreint í Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024 sem var samvinnuverkefni allra sveitarfélaganna við Eyjafjörð. Sameiginleg ákvörðun sveitarfélaganna um skipulag á Dysnesi byggði m.a. á umhverfismati áætlunarinnar.

Höfnin á Dysnesi verður byggð upp í tengslum við starfsemi sem nýtir uppland hafnarinnar. Nýting upplandsins gefur uppbyggingarkosti sem ekki eru við núverandi hafnir enda eru þær allar í miðju þéttbýli. Uppbygging á Dysnesi mun hugsanlega gefa kost á breyttri landnotkun á öðrum vöruhafnarsvæðum við Eyjafjörð. 

 

3.       Landsnet, 18. nóv. 2015.

a.       Landsnet bendir á að jafnvel þó að Dalvíkurlína 1 liggi í nágrenni við fyrirhugaða deiliskipulagssvæði og geti sem slík hugsanlega flutt næga orku fyrir svæðið, er ekki þar með sagt að orkuafhending sé möguleg. Meginflutningskerfið á Norðurlandi er sem kunnugt er nú þegar fulllestað og því er aukin afhending orku á þessu svæði ekki möguleg nema til komi styrking á meginflutningskerfi á Norðurlandi.

Svar:

Afhendingarstaður orku verður væntanlega við tengivirki á Akureyri. Aðalskipulag Hörgársveitar kveður á um að flutningsleiðir raforku skuli vera í jörðu og ekki sýndar á uppdráttum fyrr en fyrir liggur lega þeirra og gerð. Deiliskipulag fyrir Dysnes snýr að uppbyggingu svæðisins þar og þar er kveðið á um hvernig orka kemst inn á skipulagssvæðið.

Hvernig orka kemur að upphafs/tengipunkti Dalvíkurlínu hefur ekkert með deiliskipulag Dysness að gera. Landsneti ber samkvæmt lögum að uppfylla sín skilyrði um afhendingu á orku.

 

4.       Vegagerðin, 12. nóv. 2015.

a.       Vegagerðinni er ekki kunnugt um að gerðar hafi verið öldufarsrannsóknir vegna fyrirhugaðrar hafnargerðar við Dysnes. Vegagerðin telur að gera þurfi öldufarsrannsóknir sem beinast að því að ákvarða hagstæðustu stefnu og legu hafnarkanta með tilliti til öldu og skipahreyfinga. Slíkar rannsóknir eru grundvöllur fyrir ákvörðun um legu hafnarkanta. Jafnframt er rétt að fara yfir aðrar hafnartæknilegar forsendur eins og botnefni í þilinu og jafnvægi milli fyllinga í sjó og skeringa í landi.

Svar:

Tekið er undir a athugasemd og verða rannsóknir s.s. öldurannsóknir unnar áður en hafnarmannvirki verða hönnuð.

 

5.       Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, 15. jan. 2016.

HNE leggur áherslu á að vandað verði til fráveituframkvæmda á svæðinu og að þær verði í fullu samræmi við lög og reglugerðir þar að lútandi.

HNE hvetur til þess að hugað verði að útgangsmálum í tíma.

HNE bendir á að neysluvatn á svæðinu þarf að uppfylla lög og reglugerðir þar að lútandi.

HNE telur jákvætt að gert sé ráð fyrir göngustígum og útivistarmöguleikum á svæðinu.

Svar:

Umsögn gefur ekki tilefni til svars.

 

6.       Minjastofnun Íslands, 21. jan. 2016.

a.       Fyrirliggjandi fornleifaskráning fyrir svæðið var unnin fyrir aðalskipulag á árunum 2006-2007 og fullnægir ekki þeim kröfum sem gerðar eru til skráningar á deiliskipulagsstigi.

Í fyrirliggjandi fornleifaskrá er gerð grein fyrir 14 minjum/minjastöðum. Allar þessar minjar njóta friðunar, sbr. 3. gr. laga um menningarminjar. Nokkur hluti (8 staðir) minjanna fellur utan við hið eiginlega framkvæmdasvæði, en það á við um þær sem liggja syðst á skipulagssvæðinu, flestar meðfram Pálmholtslæknum. Í greinargerðinni segir jafnframt að ekki verði raskað við minjum á svokölluðu Kumblholti, heldur verði staðurinn dreginn fram sem áningastaður með upplýsingaskilti. Minjastofnun fagnar þeim góðu áformum sem þar eru uppi, en þar er um að ræða kumlateig. Hefur hann hátt varðveislugildi og þegar fengið lítilsháttar rannsókn. Allir þessir minjastaðir eru mjög nærri fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum. Þegar til framkvæmda kemur er því mjög mikilvægt að merkja þessar minjar vel, t.d. með litríkum borða, þannig að þeim verði ekki spillt fyrir vangá þegar stórvirkar vinnuvélar verða komnar á svæðið.

Umfang og eðli þessara minja þarf að kanna sérstaklega á vettvangi og leggja síðan mat á til hvaða mótvægisaðgerða hægt er að grípa til, eða þá hvort, eða með hvaða skilyrðum minjarnar verða látnar víkja sbr. 23. gr. laga um menningarminjar.

Svar:

Settir eru skilmálar í deiliskipulagið um að ekki verði heimilt að ráðast í framkvæmdir fyrr en deiliskráning fornminja hafi farið fram innan skipulagssvæðisins. Ef deiliskráning gefur tilefni til breytinga á deiliskipulaginu, verður það gert.  Þá eru þeir skilmálar settir að ekki verði heimilt að ráðast í framkvæmdir í nánd við minjar nema að undangengnu samráði við Minjastofnun Íslands, sbr. 23. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.

 

7.       Norðurorka, 5. nóv. 2015.

a.       Bent er á að í kafla 3.5 um veitur er ekki getið hitaveitunnar. Ljóst má vera að hitaveita verði lögð um athafnasvæðið og þá væntanlega tekin úr flutningsæðinni frá Hjalteyri að Akureyri sem liggur í vestari jaðri vegar ofan skipulagssvæðisins.

Svar:

Umfjöllun um hitaveitu verður bætt við greinargerð skipulagsins. Athugasemdin hefur ekki áhrif á útfærslu skipulagsins.

8.       Akureyrarbær

Engar athugasemdir

9.       Dalvíkurbyggð

Engar athugasemdir

10.   Eyjafjarðarsveit

Engar athugasemdir

11.   Grýtubakkahreppur

Umsögn barst ekki

12.   Svalbarðsstrandarhreppur

Umsögn barst ekki

13.   Fjallabyggð

Umsögn barst ekki

Ein athugasemd barst:

1.       Ábúendur á Ósi (Hjörvar Kristjánsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir), 4. sept. 2015.

a.       Hafa áhyggjur af aukinni umferð á Syðri-Bakkavegi sem liggur í nánd við íbúðarhúsið á Ósi sem mun hafa neikvæð áhrif á umhverfi þeirra, búsetukosti og verðgildi fasteigna.

Telja fyrirhuguð gatnamót Syðri-Bakkavegar við Ólafsfjarðarveg vera staðsett í nálægð við blindhæð sem eykur slysahættu.

Svar:

Aðkomuleið frá þjóðvegi að skipulagssvæðinu er utan skipulagsmarka. Stefnumörkun varðandi gatnamót og vegakerfi almennt í Hörgársveit er skilgreind í aðalskipulagi.

Á vinnslutíma deiliskipulagsins voru nefndir þeir kostir að byggja upp núverandi Bakkaveg eða leggja nýjan veg frá þjóðvegi beint vestur af skipulagssvæðinu. Deiliskipulag svæðisins er óháð því hvor leiðin verður farin. Ákvörðun um endurbyggingu eða nýlagningu aðkomuvegar þarf að byggjast á hagkvæmni- og kostnaðarmati í samvinnu við Vegagerðina auk þess sem breyting yrði gerð á aðalskipulagstigi sem yrði ekki hluti þessa deiliskipulags.

 

b.      Telja rétt að setja í deiliskipulag einhvern ramma á starfsemi við Dysnes varðandi áhrif á umhverfi, þá sérstaklega til að hlífa íbúum í nágrenni. T.d. hávaðamengun og ljósmengun.

Svar:

Í deiliskipulagi eru iðnaðarlóðir á miðju svæðinu, ofan lóða fyrir hafnsækna starfsemi. Skilmálar fyrir iðnaðarlóðir í deiliskipulagi eru þau að lóðirnar séu einkum ætlaðar undir iðnfyrirtæki og/eða verksmiðjur, sem ekki hafa veruleg neikvæð áhrif á umhverfið.

Tekið er undir athugasemd og skilmálum í deiliskipulagi breytt á þann hátt að lóðirnar eru ætlaðar undir iðnað sem ekki er talin hafa neikvæð umhverfisáhrif í stað þess að áður voru skilmálar á þann hátt að lóðir eru ætlaðar undir iðnað sem ekki er talin hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að deiliskipulagi hafnar-, athafna- og iðnaðarsvæðis á Dysnesi verði samþykkt og skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra falið að annast gildistöku hennar.

2.            Deiliskipulag Lónsbakka

Skipulagshöfundar Árni Ólafsson og Lilja Filippusdóttir fóru yfir þá vinnu sem fram hefur farið varðandi deiliskipulagið.

3.            Deiliskipulag Hjalteyri

Skipulagshöfundar Árni Ólafsson og Lilja Filippusdóttir fóru yfir þá vinnu sem fram hefur farið varðandi deiliskipulagið.

4.            Deiliskiplagsbreyting vegna Skógarhlíðar 14

Lögð er fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi fyrir Skógarhlíð 10-18 og 19-45 sem tekur til lóðar númer 14 við Skógarhlíð og felst í því að heimilt verður að byggja hús með fjórum íbúðum á tveimur hæðum á lóðinni í stað þríbýlishúss á tveimur hæðum.  

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að beina því til sveitarstjórnar að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.            Aðalskipulag Akureyrarbæjar – skipulagslýsing

Lögð fram tilkynning frá Akureyrarbæ um auglýsingu á skipulagslýsingu fyrir aðalskiplag Akureyrar 2018-2030.  Frestur til að koma á framfæri ábendingum er til 17. mars n.k.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við lýsinguna.

6.            Fráveita Lónsbakka

Farið var yfir stöðu mála er varðar fráveitu Lónsbakka og þær framkvæmdir sem þar eru framundan.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 11.35