Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 17

18.02.2013 20:00

Mánudaginn 18. febrúar 2013 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2012-2024, afgreiðsla

Lagt fram bréf, dags. 23. janúar 2013, frá svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar, þar sem gerð er grein fyrir því að tillaga að „Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024“ sé send sveitarfélaginu til samþykktar. Með bréfinu var formleg tillaga að svæðisskipulaginu lögð fram, ásamt umhverfisskýrslu þess og helstu forsendum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að „Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024“ verði samþykkt af hálfu Hörgársveitar.

 

2. Skútar/Moldhaugar, tillaga að deiliskipulagi

Tillaga að deiliskipulagi fyrir Skúta og spildu úr landi Moldhauga var auglýst 20. desember 2012 skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 6. nóvember 2012 og ákvörðun sveitarstjórnar 21. nóvember 2012. Athugasemdafrestur rann út 25. janúar 2013. Athugasemdir/ábendingar bárust frá eftirtöldum:

  · Sigríður Þ. Mahon o.fl., dags. 27. desember 2012

  · Jón Björgvinsson, dags. 8. janúar 2013

  · Þórður Þórðarson, dags. 25. janúar 2013

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir, að gerðum eftirfarandi breytingum á henni:

  · Fornminjar sbr. greinargerð verði sýndar á skipulagsuppdrætti

  · Fornleifunum Skútnastekkur og Skútnasel verði bætt í greinargerð.

  · Vegur að Skútum liggi þar sem gamli þjóðvegurinn er í stað þeirra legu sem tillagan gerir ráð fyrir.

  · Nýr vegur að fjárrétt verði færður nær austurmörkum lóðar réttarinnar.

  · Fornminjar sbr. greinargerð verði sýndar á skipulagsuppdrætti.

  · Lóð fjárréttar verði stækkuð, þannig að lóðarmörk verði alls a.m.k. 20 m frá núverandi réttarvegg og að lóðin nái lengra til suðurs en tillagan gerir ráð fyrir.

Ennfremur samþykkti nefndin að leggja til við sveitarstjórn eftirfarandi afgreiðslu á framkomnum athugasemdum/ábendingum við deiliskipulagstillöguna:

Sigríður Þ. Mahon o.fl.

Bent er á að tveggja fornminja á skipulagssvæðinu sé ekki getið í greinargerð. Gerð er athugasemd við veglagningu á jarðamörkum Skúta og Grjótgarðs. Þá er gerð athugasemd við og lagst gegn legu vegar að bæjarhúsum á Skútum. Settar eru fram spurningar annars vegar um áhrif fyrirhugaðrar efnistöku á grunnvatn og vatnssvæði og hins vegar um girðingu kringum fyrirhugað efnistökusvæði.

Fornleifunum Skútnastekkur og Skútnasel verður bætt í greinargerð og legu vegar að bæjarhúsum að Skútum verður breytt í samræmi við ábendingu bréfsritara. Gerð girðingar og vegslóða vegna hennar á jarðarmörkum er til skýringar á skipulagsuppdrættiunum, en er ekki viðfangsefni deiliskipulags, þar sem um girðingar fer skv. girðingarlögum. Ekki er talið að efnistaka hafi áhrif á vatnsbúskap svæðisins, en komi það í ljós mun verða sett ákvæði um mótvægisaðgerðir við útgáfu framkvæmdaleyfis. Girðing í kringum efnistökusvæði er viðfangsefni framkvæmdaleyfis.

Jón Björgvinsson

Settar eru fram ábendingar um legu vegar að Þórustaðarétt og um stærð lóðar fyrir réttina.

Legu vegur að fjárrétt og stærð lóðar fyrir hana verður breytt í samræmi við ábendingar bréfritara.

Þórður Þórðarson

Settar eru fram ábendingar um frágang á tilteknum hlutum efnistökusvæðis og almennar mótvægisgerðir.

Ábendingar bréfritara um frágang og mótvægisaðgerðir eru viðfangsefni framkvæmdaleyfis.

 

3. Hörgá á móts við Skriðu, framkvæmdaleyfi efnistöku

Lögð fram umsókn frá Húsabrekku ehf. um framkvæmdaleyfi til að taka 10 til 12 þús. m3 af möl úr áreyrum Hörgár á móts við Skriðu. Þá var lagt fram bréf Fiskistofu um málið, þar sem fram kemur að stofnunin getur fyrir sitt leyti fallist á að leyfið verði gefið út. Í bréfi Fiskistofu kemur fram umsögn veiðifélagsins til málsins, sem er jákvæð. Þá var lögð fram umsögn Veiðimálastofnunar um málið, þar sem koma fram ábendingar um hvernig staðið verði að efnistöku, verði hún heimiluð.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr áreyrum Hörgár sbr. fyrirliggjandi umsókn Húsabrekku ehf., með þeim skilmálum sem koma fram í umsögn Veiðimálastofnunar um umsóknina. Komi til útgáfu framkvæmdaleyfisins telur nefndin rétt að það verði ekki gefið út á Húsabrekku ehf. heldur sameignarfélag um efnistöku úr Hörgá, sem verið að stofna.

 

4. Efnistaka í Moldhaugahálsi, á Björgum og víðar

Rætt um efnistöku í Moldhaugahálsi, á Björgum og víðar, sem á sér stað þrátt fyrir að framkvæmdaleyfi liggi ekki fyrir. Málið hefur áður verið rætt á fundum skipulags- og umhverfisnefndar 13. júní og 20. ágúst 2012.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að viðkomandi aðilum verði gerð grein fyrir því að eftir 1. júní 2013 verði efnistaka án framkvæmdaleyfis í sveitarfélaginu stöðvuð.

 

5. Íbúafundur um tillögu að aðalskipulagi

Rætt um tímasetningu á fyrirhugðaðum íbúafundi um tillögu að aðalskipulagi. Áður hafði verið stefnt að slíkum fundi 6. mars 2013, en komið hefur ljós að fresta þurfi fram í apríl nk. að halda fundinn.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:15.