Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 89

24.01.2023 08:30

Fundargerð

Þriðjudaginn 24. janúar 2023 kl. 08:30 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Sunna María Jónasdóttir, Ásrún Árnadóttir, Ásgeir Már Andrésson (varamaður) og Bjarki Brynjólfsson í skipulags- og umhverfisnefnd, Sigríður Kristjánsdóttir skipulagsfulltrúi og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

  1. Dalvíkurlína 2 – göngu og hjólastígur

Lagður fram úrskurður Skipulagsstofnunar varðandi matsskyldu. Frekari umræður um legu strengs og stígs. Lagt var fram erindi sem barst varðandi breytta legu reiðstígs í Kræklingahlíð. Erindið mun verða tekið til umræðu við endurskoðun aðalskipulags.

Varðandi legu göngu- og hjólastígs er áréttað að stefnt er að því að leggja hann til frambúðar að sveitarfélagamörkum Dalvíkurbyggðar þó svo að núverandi tillaga endi við Hjalteyri.

  1. Lækjarvellir 1, erindi vegna breytingar á byggingarreit

Lagt fram erindi þar sem að óskað er eftir að byggingarreitur fyrir lóðina Lækjarvellir 1 verði stækkaður til vesturs.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindinu verði vísað í grenndarkynningu samkvæmt 44. gr skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta grenndarkynningartímabil ef skriflegt samþykki berst frá öllum hagsmunaaðilum. Erindið telst samþykkt ef ekki berast andmæli.

  1. Lækjarvellir land 2, breyting á deiliskipulagi

Lögð fram hugmynd að breytingum á deiliskipulagi Lækjarvalla unnar af Landmótun 6. janúar 2023. Ákveðið var að hafa samráð við aðra landeigendur á deiliskipulagssvæðinu við frekari vinnslu málsins.

  1. Lónsbakkahverfi, framkvæmdir við lækjarfarveg

Lögð fram hugmynd um framkvæmdir við lækjarfarveg unnin af Verkís 13. janúar 2023, þar sem teiknaður er frágangur á læknum milli Reynihlíðar og Skógarhlíðar. Tillagan verði yfirfarin með tilliti til athugsemda sem fram komu og komi aftur til nefndarinnar á næsta fundi.

  1. Lónsá, hugmyndir um ofanvatnslausnir frá Móahverfi á Akureyri

Lögð fram kynning frá Akureyrarbæ um Móahverfi. Blágrænar ofanvatnslausnir verða hafðar í hávegum í hönnun á hverfinu. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja virðist nefndinni það magn ofanvatns sem kemur að sveitarfélagamörkum vera vanmetið.

Skipulags- og umhverfisnefnd óskar eftir því við byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa að þeir taki saman greinargerð og álit um málið sem lögð verði fyrir á næsta fundi nefndarinnar.

  1. Glæsibær áfangi 3, skipulagslýsing

Lögð fram tillaga að skipulagslýsingu að Glæsibær áfangi 3, unnin af Kollgátu 18. Janúar 2023. Áður hafa verið skipulagðir tveir áfangar austan núverandi svæðis sem verður þá

það þriðja í röðinni. Götur í áfanga I og II kallast Hagabrekka og Hagatún, en í þessum þriðja áfanga verða götur kallaðar Hagaflöt. Fyrri áfangarnir tveir samanstanda af einbýlishúsum eingöngu en í III áfanga er markmiðið að auka fjölbreytni í íbúðarkosti og skipuleggja svæði með blöndu af raðhúsum og einbýlishúsum. Fjöldi íbúða á skipulagssvæðinu verður á bilinu 40-54 íbúðir. Húsgerðir verða ýmist 4-6 íbúða raðhús eða einbýlishús. Yfirbragð verður lágstemmt þar sem öll hús verða einnar hæðar og tekur það mið af landslagi svæðisins sem er að nokkru frábrugðið landslagi á svæðum I og II þar sem landhalli og gróðurfar er með öðrum hætti.

Nýtt deiliskipulag mun ekki fela í sér heimildir til framkvæmda sem háðar eru mati á

umhverfisáhrifum. Gerð deiliskipulagsins fellur því ekki undir lög um umhverfismat áætlana

sbr. 1.mgr. 3.gr. laga nr. 105/2006.

Umhverfis- og skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt og að skipulagslýsingunni verði vísað í kynningarferli samkvæmt 2.mgr. 30 gr. og 3.mgr. 40 gr. skipulagslaga.

  1. Steinkot, umsókn um afmörkun lóðar

Lagt fram erindi frá Ingólfi Sigþórssyni eiganda Steinkots l.nr. 152541 sem óskað er eftir afmörkun lóðar fyrir íbúðarhús samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Aðkoma að lóðinni er frá afleggaranum að Steinskoti og Hlíðarhóli. Jafnframt er óskað eftir að nefna lóðina Undraland.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt enda verði þinglýst kvöð um vegtengingu og lagnir að lóðinni.

  1. Endurskoðun aðalskipulags

Umræður um fyrirkomulag endurskoðunar. Lögð fram drög að lista yfir verkefni sem taka þarf til umræðu í endurskoðuninni. Formanni nefndarinnar, skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra falið að ræða við núverandi skipulagshönnuð aðalskipulags um endurskoðunina.

  1. Skógur við Álfastein

Umræður um fallin tré og nauðsyn á umhirðu og grisjun.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindinu verði beint til þjónustmiðstöðvar.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 10:40