Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 10

27.03.2012 20:00

Þriðjudaginn 27. mars 2012 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Svæðisskipulag Eyjafjarðar, lýsing

Tekin fyrir að nýju lýsing á skipulagsverkefninu „Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2011-2024“. Lýsingin var afgreidd af hálfu nefndarinnar 11. október 2011 og var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn. Á hinn bóginn komu þá fram athugasemdir við lýsinguna frá nokkrum öðrum viðkomandi sveitarfélögum og er því lýsingin tekin fyrir að nýju með breytingum sem samvinnunefnd um svæðisskipulag leggur til.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að  fyrirliggjandi lýsing á skipulagsverkefninu „Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2011-2024“ verði samþykkt af hálfu Hörgársveitar.

 

2. Samstarfshópur um skipulagsmál

Lagt fram bréf, dags, 2. mars 2012, frá Akureyrarbæ þar sem samþykkt er tillaga um að settur verði á fót samstarfshópur um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Akureyrarbæjar. Í bréfinu kemur fram að af hálfu Akureyrarbæjar hafi verið tilnefndir þrír fulltrúar í hópinn.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að tilnefna af sinni hálfu Hönnu Rósu Sveinsdóttur, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í samstarfshóp um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Akureyrarbæjar.

 

3. Hörgá, framkvæmdaleyfi grjótvarnar

Lagt fram tölvubréf, dags. 23. febrúar 2012, frá Verkís þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir grjótvörn í Hörgá við Laugaland til að verja borholu, hitaveitulögn og ljósleiðara. Með bréfinu fylgir yfirlitsmynd í mælikvarðanum 1:1.000.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir grjótvörn við Laugaland, sbr. fyrirliggjandi umsókn, að fengnu samþykki Veiðifélags Hörgár.

 

4. Öxnadalsá, framkvæmdaleyfi vegna landbrots

Lagt fram tölvubréf, dags. 9. mars 2012, frá Vegagerðinni þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi vegna ráðstafana gegn landbroti af völdum Öxnadalsár. Á fundi nefndarinnar 11. október 2011 samþykkti hún framkvæmdaleyfi vegna öryggisaðgerða á Hringveginum í Öxnadal, með skilyrði um samkomulag um málið við viðkomandi landeigendur. Fyrirliggjandi umsókn er til komin vegna þessa skilyrðis. Með henni fylgir uppdráttur og tölvubréf frá Fiskistofu þar sem fram kemur að afgreiðsla stofnunarinnar, dags. 18. október 2011, vegna öryggisaðgerðannavið Hringveginn gildir vegna þess verks.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir ráðstöfunum gegn landbroti af völdum Öxnadalsár, sbr. fyrirliggjandi umsókn.

 

5. Hörgá, framkvæmdaleyfi efnistöku

Lagt fram tölvubréf, dags. 16. mars 2012, frá Umís ehf., f.h. Háása ehf. og Húsabrekku ehf., þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr Hörgá fyrir landi Skriðu, Skóga og Steðja. Fyrir lágu eftirfarandi gögn: Framkvæmdalýsing, afstöðumynd í mælikvarðanum 1:6.000, upplýsingar um fyrri efnistöku á sama svæði, umsögn Veiðifélags Hörgár, umsögn Fiskistofu og umsögn Landgræðslu ríkisins.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu á fyrirliggjandi umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr Hörgá fyrir landi Skriðu, Skóga og Steðja með vísan til samþykktar sveitarstjórnar frá 21. mars 2012 um að haldinn verði fundur með hlutaðeigandi aðilum um efnistöku úr Hörgá.

 

6. Blöndulína 3, frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum

Lagt fram bréf, dags. 15. mars 2012, frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er eftir umsögn, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 1123/2005, um frummatsskýrslu um Blöndulínu 3 (220 kV) frá Blöndustöð til Akureyrar. Fyrir lágu eftirfarandi gögn: Frummatsskýrsla og myndahefti, viðauki um mögulegar efnisnámur, viðauki um ásýnd/landslag, viðauki um gróður ásamt kortahefti, viðauki um fuglalíf, viðauki um áhrif á ferðaþjónustu og útivist og viðauki um fornleifakönnun.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd af hálfu Hörgársveitar við fyrirliggjandi frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3.

 

7. Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018, breyting

Lagt fram bréf, dags. 1. febrúar 2012, frá Akureyrarbæ þar sem gerð er grein fyrir fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 að því varðar háspennulínur og -strengi og um tengivirki við Kífsá.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að af Hörgársveitar verði ekki gerð athugasemd við fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 að því varðar háspennulínur og -strengi og um tengivirki við Kífsá.

 

8. Akureyri, tillaga um breytta legu reiðleiða

Lagt fram bréf, dags. 15. mars 2012, frá Akureyrarbæ þar sem gerð er grein fyrir tillögu um breytta legu reiðleiða á Akureyri og út úr bænum til suðurs og norðurs.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu á fyrirliggjandi tillögu um breytta legu reiðleiða á Akureyri og út úr bænum til suðurs og norðurs og vísa henni til umfjöllunar í samstarfshópi um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Akureyrarbæjar.

 

9. Fyrirkomulag sorphirðu

Lögð fram drög að tillögu um reglum um fyrirkomulag sorphirðu í sveitarfélaginu. Í þeim er kveðið á um meginatriði í skipulagi sorphirðu frá heimilum og frístundahúsum, svo og um sérgreinda sorphirðu o.fl.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu á fyrirliggjandi drögum að tillögu um reglum um fyrirkomulag sorphirðu í sveitarfélaginu.

 

10. Skógarkerfilseyðing 2012, fyrirkomulag

Rætt um skipulag skógarkerfiseyðingar sumarið 2012.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að unnið verði eftir því fyrirkomulagi á  skógarkerfiseyðingu sumarið 2012 sem lagt var fram á fundinum.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:25.