Fræðslunefnd, fundur nr. 5

31.10.2011 20:00

Mánudaginn 31. október 2011 kl. 20:00 kom fræðslunefnd Hörgársveitar saman til fundar í Álfasteini.

 

Fundarmenn voru: Axel Grettisson, Einar Kristinn Brynjólfsson, Líney Diðriksdóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir nefndarmenn og auk þess Hugrún Ósk Hermannsdóttir, leikskólastjóri, Ingileif Ástvaldsdóttir, skólastjóri, Jónína Sverrisdóttir, fulltrúi grunnskólakennara, Bára Björk Björnsdóttir, fulltrúi starfsfólks leikskóla, Helga Jónsdóttir, fulltrúi foreldra leikskólabarna, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

Málefni Þelamerkurskóla: 

1. Starfsáætlun 2011-2012, breyting á skóladagatali

Lögð fram tillaga að breytingu á starfsáætlun Þelamerkurskóla, sem felur í sér þá breytingu á skóladagatali að skipulagsdagur sem í gildandi skóladagatali er 10. apríl 2012 verði færður til 13. janúar 2012.

Fræðslunefnd samþykkti að skóladagatal Þelamerkurskóla 2011-2012 verði breytt þannig að skipulagsdagur sem í gildandi skóladagatali er 10. apríl 2012 verði færður til 13. janúar 2012.

 

2. Reglur um skólaakstur

Lögð fram tillaga að almennum reglum um skólaakstur í sveitarfélaginu, sem byggja á reglum um skólaakstur nr. 626/2009 frá menntamálaráðuneyti.

Fræðslunefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framlögð tillaga að reglum um skólaakstur í sveitarfélaginu verði samþykkt með breytingum sem gerðar voru á fundinum.

 

Sameiginleg málefni:

3. Fjárhagsrammi fræðslunefndar 2012

Lagt fram bréf, dags. 23. september 2011, frá sveitarstjórn þar sem gerð er grein fyrir því að fjárhagsrammi nefndarinnar, sbr. 10. gr. erindisbréfs hennar, vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2012 er 209 millj. kr. Farið var yfir þau viðfangsefni sem heyra undir nefndina og lögð drög að áætlun um heildarfjárhæð fyrir hvert þeirra.

Rætt um gjaldskrá mötuneyta Álfasteins og Þelamerkurskóla.

Fræðslunefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fæðisgjald í Álfasteini verði 320 kr. á dag og mötuneytisgjald Þelamerkurskóli verði 500 kr. á dag.

 

4. Skólaþing 2011

Lögð fram til kynningar dagskrá skólaþings 2011, sem er í Reykjavík föstudaginn 4. nóvember 2012.

 

Málefni Álfasteins:

5. Starfsáætlun 2011-2012, breyting á skóladagatali

Lögð fram tillaga að breytingu á starfsáætlun Álfasteins, sem felur í sér þá breytingu á skóladagatali að niður falli námskeiðsdagur sem í gildandi skóladagatali er 10. apríl 2012. Þá er miðað við að í staðinn falli hann saman við skipulagsdag haustsins á næsta skólaári, þ.e. að þeir verði 27. og 28. september 2012.

Fræðslunefnd samþykkti að skóladagatal Álfasteins 2011-2012 verði breytt þannig að námskeiðsdagur sem í gildandi skóladagatali er 10. apríl 2012 falli niður.

 

6. Viðmiðunarfjárhæðir fyrir tímabundna leikskólavist barna með lögheimili annars staðar

Lögð fram tillaga að viðmiðunarfjárhæðum fyrir tímabundinni leikskólavist í Álfasteini fyrir nemanda sem á lögheimili í öðru sveitarfélagi, sbr. 2. gr. í reglum um veitingu leyfis fyrir tímabundinni leikskólavist í Álfasteini fyrir nemanda sem á lögheimili í öðru sveitarfélagi. Tillagan gerir ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir fari eftir viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna barna í leikskólum utan lögheimilissveitarfélags með 15% álagi þar sem rými á hvert barn á Álfasteini er að meðaltali stærra en miðað er við í gjaldskrá sambandsins.

Fræðslunefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að samþykkt verði framlögð tillaga að viðmiðunarfjárhæðum fyrir tímabundinni leikskólavist í Álfasteini fyrir nemanda sem á lögheimili í öðru sveitarfélagi.

 

7. Uppsagnarvinnsla dvalarsamnings vegna vanskila

Rætt um fyrirkomulag á uppsagnarvinnslu dvalarsamnings vegna vanskila á leikskólagjöldum.

 

8. Ársskýrsla 2012-2011

Ársskýrslu Álfasteins fyrir skólaárið 2010-2011 dreift.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:00.