Fræðslunefnd, fundur nr. 28

09.04.2018 16:00

Mánudaginn 9. apríl 2018 kl. 16:00 kom fræðslunefnd Hörgársveitar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir og María Albína Tryggvadóttir fulltrúar í nefndinni og auk þeirra Ingileif Ástvaldsdóttir skólastjóri, Hulda Arnsteindóttir fulltrúi starfsmanna Þelamerkurskóla, Eva María Ólafsdóttir fulltrúi foreldra grunnskóla, Hugrún Ósk Hermannsdóttir, leikskólastjóri, Sigurbjörg Auðbjörnsdóttir fulltrúi foreldra Álfasteini og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

Málefni Álfasteins:

1.        Útkoma úr foreldrakönnun frá nóvember 2017

Leikskólastjóri kynnti niðurstöðu foreldrakönnunar og kom fram almenn ánægja foreldra í könnuninni.

2.        Breyting á skóladagatali 2017–2018, seinkun á sumarhátíð til 1. júní

Leikskólastjóri lagði til að gerð verði breyting á skóladagatali Álfasteins 2017-2018 í þá veru að sumarhátíð frestist um eina viku og verði föstudaginn 1. júní.

Fræðslunefnd gerir ekki athugasemd við breytinguna.

3.        Hrós frá Vinnueftirliti

Leikskólastjóri skýrði frá að við eftirlit hjá Vinnueftirlitinu hafi komið fram að leikskólinn sé til mikillar fyrirmyndar er varðar öryggi og aðbúnað og engar athugasemdir voru gerðir.

4.        Staðan í haust, fjöldi barna sem hættir/ byrjar

Leikskólastjóri fór yfir stöðu mála varðandi fjölda barna. Fram kom að næsta haust verður leikskólinn áfram fullsetinn.

5.        Ráðning sumarstarfsmanns

Leikskólastjóri fór yfir starfsmannamál og skýrði frá ráðningu sumarstarfsmanns.

 

Sameiginleg málefni:

6.        Skóladagatal beggja skóla 2018-2019

Lögð fram til umræðu og afgreiðslu skóladagatöl og ársáætlun Álfasteins og Þelamerkurskóla 2018-2019.

Fræðslunefnd staðfesti skóladagatöl Álfasteins og Þelamerkurskóla 2018-2019 fyrir sitt leyti með þeim breytingum sem gera þarf varðandi starfsdaga og leggur til við sveitarstjórn að þau verði samþykkt.

7.        Umsóknir

Kynntar voru tvær sameiginlegar umsóknir um styrki, annarsvegar til Endurmenntunarsjóðs grunnskóla varðandi Byrjendalæsi og hinsvegar til Sprotasjóðs varðandi upplýsingatækni í skólastarfi.

 

Málefni Þelamerkurskóla:

8.        Nemendafjöldi og mögulegar hópaskiptingar næsta vetur ásamt starfsmannahaldi

Skólastjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi áætlaðan nemendafjölda og skipulag starfsárið 2018-2019.  Fram kom að áætlað er að 68 nemendur verði næsta vetur.

9.        Ráðning skólastjóra til afleysingar í eitt ár

Auglýst var staða skólastjóra Þelamerkurskóla vegna afleysingar í eitt ár í námsleyfi skólastjóra. Alls bárust fjórar umsóknir, en tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka.

Fræðslunefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir verði ráðin skólastjóri Þelamerkurskóla til afleysingar frá 1.8.2018 til 31.7.2019.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 17:53