Fjallskilanefnd, fundur nr. 4 - 2008

28.08.2008 20:00

Fimmtudagskvöldið 28. ágúst 2008 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka mættir: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson og Stefán L Karlsson.

 

Eftirfarandi fært til bókar á fundinum:

 

1.      Skrifað undir fundargerð síðasta fundar.

2.      Borist hafa beiðnir frá eigendum sauðfjár á jörðunum: Árhvammi, Bitru og Bitrugerði, um að vera undanþegnir fjallskilum í haust, þar sem þeir hafi haft allt sitt sauðfé í fjárheldum girðingum sumarlangt. Fjallskilanefnd samþykkir beiðnirnar.

3.      Þar sem enginn sauðfjáreigandi sleppti nú í sumar á gangnasvæðið Gloppukinnar, leggur fjallskilanefnd fjallskil þar á Hörgárbyggð nú í haust. Það er í samræmi við vinnureglur nefndarinnar og framkvæmd sambærilegra mála á undanförnum árum. Gloppukinnar bætast því nú við þau svæði sem enginn sleppir á og Hörgárbyggð þarf að standa straum af fjallskilum á.

4.      Gengið frá fjallskilaboðum fyrir hverja fjallskiladeild Hörgárbyggðar. Heildarfjöldi gangnadagsverka í Hörgárbyggð er 392. Fjárfjöldi sem dagsverkum er jafnað niður á í sveitarfélaginu eru 5.147 kindur og hefur þeim fjölgað um 30 kindur frá 2007. 69 kindur koma ekki til útreiknings fjallskila þar sem þær voru innan girðingar, samanber 2. lið fundargerðarinnar. Að jafnaði eru flestar kindur í dagsverki í Glæsibæjardeild 23,3 í Öxnadalsdeild eru þær 14,8 og fæstar eru þær í Skriðudeild 13,2 kindur. Á einstökum gangnasvæðum eru flestar kindur í dagsverki í Laugalandsheiði og Hlíðarfjalli 25,4 en fæstar á Hafrárdal og Öxnhólsfjalli 11,3 kindur. Eins og fram kemur í fundargerð fjallskilanefndar frá 22. ágúst síðast liðinn eru nú engin fjallskil lögð á landverð jarða. Fjallskilaboð verða send sauðfjáreigendum og þau munu líka verða aðgengileg á heimasíðu Hörgárbyggðar.

5.      Borist hefur minnisblað frá sveitarstjóra Hörgárbyggðar, frá  fundi hans og oddvita með forsvarsmönnum Vegagerðarinnar á Akureyri þann 25. ágúst s.l. liðinn, um veggirðinu í fram Öxnadal. Fram kemur að Vegagerðin ætlar að skoða aðstæður á vettvangi og gera mælingar á lengd girðinganna og sækja svo um fjármagn til verksins.  

6.      Rætt um frumdrög að „Samþykkt um búfjárhald í Hörgárbyggð“. Efnislegri afgreiðslu frestað til venjubundins fundar að afloknum fjallskilum haustsins.

7.      Fundargerðin undirrituð.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 22:55.