Fjallskilanefnd, fundur nr. 4

15.11.2010 20:30

Mánudaginn 15. nóvember 2010 kl. 20:30 kom fjallskilanefnd Hörgársveitar saman til fundar á Staðarbakka. Allir nefndarmenn mættir: Aðalsteinn H Hreinsson, Guðmundur Skúlason, Helgi B Steinsson, Jósavin Gunnarsson og Stefán L Karlsson.

 

     Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1. Fundargerð 3. fundar nefndarinnar undirrituð.

 

2. Fjallskilastjóri greindi frá því að honum hafi borist eintök af erindisbréfi fyrir fjallskilanefnd Hörgársveitar og vinnureglum fjallskilanefndar, hvoru tveggja afgreitt af sveitarstjórn Hörgársveitar þann 15. september 2010 og undirrituð af Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

 

3. Almenn umræða um göngurnar á síðastliðnu hausti. Þær gengu víðast vel nema hvað þoka var mjög til baga þar sem 1. göngur voru gengnar laugardaginn 11. september. Fjallskilanefnd vill þó vekja athygli sveitarstjórnar á að eftirtalin  gangnasvæði voru á nýliðnu hausti ekki gengin á þeim tíma, sem sagði fyrir um í fjallskilaboði: Þúfnavallasveigur, Barkárdalur og Sörlatungudalir, að því undanskildu að 1. göngur í Þúfnavallasveig fóru fram á þeim degi, sem fjallskilaboð mælti fyrir um.

 

4. Farið var yfir þann fjárfjölda sem tölur lágu fyrir um, að komið hafi fyrir utan heimasveitar í haust. Úr Akrahreppi komu til réttar í Öxnadal um 180 kindur og í Hörgárdal um 190 kindur. Þetta er fyrir utan það fé, sem rekið var vestur af Hörgárdalsheiði og af fremstu svæðum í Öxnadal. Úr Hörgársveit komu fyrir í Silfrastaðarétt 14 kindur, 12 úr Öxnadal og 2 lömb úr Hörgárdal (komu úr Djúpadal). Úr Eyjafjarðarsveit komu 37 kindur fyrir í Hörgársveit, en engin kind héðan fór þangað.

 

5. Umræður um fyrirhugaðan fund með fulltrúum Akrahrepps, sem á að halda á næstunni um frekari aðkomu þeirra að fjallskilum fyrir fé úr Akrahreppi, sem kemur til sumardvalar í Hörgársveit. Ákveðið að leggja þetta mál fyrir fundinn á forsendum þeirra minnispunkta  sem fjallskilanefnd lagði fram á fundi með fulltrúum Akrahrepps þann 20. ágúst sl. enda eru þeir studdir af ákvæðum 47 gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl.. Fjallskilanefnd telur með öllu óraunhæft og raunar óframkvæmanlegt að leysa þessi sameiginlegu  fjallskil með girðingum.

 

Fleiri ekki bókað og fundi slitið kl. 22:52.