Fjallskilanefnd, fundur nr. 1 - 2005

05.07.2005 00:00

Þriðjudagskvöldið 5. júlí 2005 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka, mættir Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson og Stefán L Karlsson. Einnig sat Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar fundinn.

 

Eftirfarandi fært til bókar:

 

1.  Fundargerð síðasta fundar undirrituð.

 

2.  Lesin tvö bréf sem borist hafa sveitarstjórn varðandi gangnarof haustið 2004. Afgreiðsla sveitarstjórnar varðandi þessi bréf fylgdi með þeim til fjallskilanefndar og kynnti fjallskilastjóri hana.

 

3.  Tímasetning gangna haustið 2005 rædd. Fjallskilanefnd stefnir á að göngum í Glæsibæjardeild, Syðri-Bægisárdal og neðri hluta Skriðudeildar verði flýtt um viku, annars staðar verði gengið á réttum tíma í 22. viku sumars.

 

4.  Rætt var um þá undanþágu frá gangnaskyldu, sem veitt hefur verið undanfarin ár vegna þess fjár sem haft er innan girðinga allt sumarið. Ákveðið að herða reglur þar að lútandi, en endanleg útfærsla á þeim bíður næsta fundar.

 

5.  Fjallað var um göngur á Þorvaldsdal og hliðardölum hans Illagilsdal og Lambárdal en þessir dalir eru afréttur í eigu Arnarneshrepps, þó landfræðilega tilheyri þeir Hörgárbyggð og nokkrir bæir í henni eigi frían upprekstur á þessa afrétt. Íllagilsdalur og Lambárdalur hafa verið mannaðir í göngum úr Hörgárbyggð. En þar sem enginn fjáreigandi í Hörgárbyggð nýtir lengur sína upprekstraheimild á þessa dali leggur fjallskilanefnd til við sveitarstjórn Hörgárbyggðar að hún fari þess á leit við hreppsnefnd Arnarneshrepps að hún sjái um að manna þetta eignarland Arnarneshrepps í göngum.  

 

6.  Ákveðið að viðhald rétta verði með sama sniði og undanfarin ár, þ.e. nauðsynlegt viðhald rétta og réttarhólfa, sem sveitarfélagið á að sjá um.

 

7.  Fjallskilanefnd leggur til við sveitarstjórn að greiðsla fyrir gangnadagsverk verði óbreytt, það er kr. 9.000.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 23:01.