Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 70

28.04.2005 20:00

Fimmtudaginn 26. apríl 2005 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 65. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Einn áheyrnarfulltrúi mætti.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1.  Fundargerð vinnufundar frá 20. apríl 2005.  Vegna 7. liðar í fundargerðinni um ráðningu skólastjóra. Sveitarstjórnarmenn í Hörgárbyggð lýsa fullum stuðningi við það að Anna Lilja verði fastráðin sem skólastjóri ÞMS. Einnig samþykkir Sveitarstjórn Hörgárbyggðar að ganga frá ráðningu forstöðumanns í ÍMÞ. Undir lið 4 eru tilnefndir sem aðalfulltrúar í undirbúningsnefnd að sameiningarferli vegna tillögu sameiningarnefndar var staðfest að Helgi og Helga eru aðalfulltrúar og til vara eru Sturla og Birna. Fundargerðin að öðru leyti afgreidd án athugasemda.

 

2.   Fundargerðir.

a.  Fundargerð heilbrigðiseftirlitsins frá 14.03.2005, ásamt uppgjöri ársins 2004 og ársreikningi. Þrjú mál vörðuðu Hörgárbyggð þ.e. gjaldskrá um sorphirðugjald, endurskoðaðar samþykktir um hunda og kattahald og staðfesting á starfsleyfi vatnsveitu á Auðnum. Endanleg kostnaðarskipting v/2004 var lögð fram og er hlutur Hörgárbyggðar samtals kr. 853.929, þ.e. framlag v/íbúafjölda kr. 175.673 og vegna fyrirtækja kr. 678.256, sem er endurkröfu hæft á fyrirtækin.

b. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 23.3.2005. Lögð fram til          kynningar

c. Fundargerð stjórnar Eyþings með þingmönnum kjördæmisins frá 14.03.2005.   Lögð fram til kynningar

d.  Fundargerð byggingarnefndar frá 19.04.2005.  Eitt erindi frá Hörgárbyggð var samþykkt hjá bygginganefnd þ.e. frá Sigurgeiri Vagnsyni um að byggja einbýlishús út timbri í landi Sólborgarhóls. Fundargerðin  var afgreidd án athugasemda.

e.  Fundargerð skólanefndar Tónlistarskóla Eyjafjarðar frá 2.12.2004 og 1.3.2005,  ásamt bráðabrigðauppgjöri 2004 og áætlun vegna vorannar 2005. Lagt var fram bráðabirgðauppgjör Tónlistarskólans.  

f. Fundargerð skólanefndar frá 31.03.2005.  Þar kemur fram að tveir kennarar hafa sagt upp störfum sínum hjá ÞMS,  þ.e. Sigurgeir Bjarnason og Ásdís Birgisdóttir og eru þeim  þökkuð vel unnin störf í þágu ÞMS. Þá er sagt frá því að skólaþróunarverkefnin „hreyfing-heilsa-hollusta“ og útiskóli ÞMS hafa vakið verðskuldaða athygli. Einnig að börn í 4. og 7. bekk komu mjög vel út í samræmdum prófum, sérstaklega í stærðfræði. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

g.  Fundargerð skipulagsnefndar frá 12.04.2005.  Undir lið b í fundargerð skipulagsnefndar var ákveðið að bóka eftirfarandi um þær tvær lóðir þ.e. nr. 12 og 14 við Skógarhlíð að þær verði seldar á kr. 900.000 hvor lóð þar sem ljóst er að dýpt þessara grunna er á bilinu 4 – 5 metrar. Búmenn hafa lagt fram óformlega fyrirspurn um lóðir undir byggingu raðhúsa á einni hæð. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar tekur jákvætt í erindið og lýsir sig tilbúna til að hitta forsvarsmenn félagsins. Fundargerðin að öðru leyti afgreidd án athugasemda.

h.  Fundargerð framkvæmdanefndar frá 7. apríl 2005. Undir lið 5 er skólastjóra heimilað að leigja úr skólahúsnæðið undir ættarmót í sumar að fenginni umsögn skólanefndar. Fundargerðin að öðru leyti samþykkt.

 

3.  Erindi frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs.varðandi urðunarstað í landi Skjaldarvíkur:

            „Nú liggur fyrir jákvæð afstaða Bæjarráðs Akureyrar til urðunar úrgangs í landi Skjaldarvíkur. Einnig liggur fyrir afstaða Davíðs Guðmundssonar eiganda Glæsibæjar. Í svari hans kemur fram að ekki komi til greina að urða úrgang í landi Glæsibæjar, þar sem að jörðin er skógræktarjörð. Það er mat Sorpeyðingar Eyjafjarðar að ekki fari illa á því að skógrækt og urðun úrgangs séu hlið við hlið miðað við þær kröfur sem eru nú gerðar til nýrra urðunarstaða. Með bréfi þessu er þess farið á leit við sveitarstjórn Hörgárbyggðar að hún heimili vinnu við breytingu á skipulagi sem nauðsynleg er vegna rekstrar urðunarstaðar. Jafnframt vinnu við breytingu á skipulagi yrði unnin skýrsla um mat á umhverfisáhrifum sem er undanfari útgáfu starfsleyfis. Undirritaður [Guðmundur Guðlaugsson] er tilbúinn til frekari upplýsinga og/eða funda með fulltrúum sveitarstjórnar ef óskað er. Óskað er jákvæðrar afstöðu sveitarstjórnar“

 

            Einnig var lagt fram afrit af svari, dags. 16.03.2005, Davíðs Guðmundssonar í Glæsibæ til Sorpeyðingar Eyjafjarðar, þar kemur fram eftirfarandi:

„Með vísan til bréf frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar dags. 15. mars 2005 þar sem óskað er eftir viðræðum við undirritaðan um gerð samnings um afnot af hluta jarðar minnar Glæsibæjar í Hörgárbyggð vegna rekstrar urðunarstaðar fyrir úrgang.

Þetta er mál sem þjónar engum tilgangi að ræða. Ég hafna þessu erindi. Rekstur urðunarstaðar fyrir úrgang verður ekki í Glæsibæjarlandi. Til rökstuðnings þessari neitun má benda á að Glæsibær er skógræktarjörð og það land sem falast er eftir mun að líkum verða tekið til skógræktar innan fárra ára. Einnig má benda á að í nágrenni við umrætt svæði er samþykkt skipulag sumarhúsabyggðar fyrir 9 sumarhús. Tvö hús hafa þegar verið byggð.“

Sveitarstjórnar Hörgárbyggðar tók fyrir erindi Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. á fundi sínum 28. apríl 2005. Ákveðið var eftir umræður að ganga til atkvæðis um hvort sveitarstjórnarmenn samþykktu að jörðin Skjaldarvík yrði skoðuð sem hugsanlegur urðunarstaður fyrir sorp. Fimm sveitarstjórnarmenn sögðu nei, einn samþykkt og einn sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Erindi Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. er því  hafnað.

 

4.  Bréf frá Félagi tónlistarskólakennara dags. 10.04.2005 varðandi

nemendur utan lögheimilissveitarfélags.  „3. þing Kennarasambands

Íslands skorar á sveitar-stjórnarmenn að þeir standi vörð um tónlistarskólana og gæti þess að ekki verði gerðar breytingar sem þrengja aðgengi til náms og stofni tilvist tónlistarskólanna í hættu. Nauðsynlegt er að tónlistarskólum verði áfram gert kleift að sinna hlutverki sínu í samræmi við þarfir samfélagsins, markmið aðalnámskrár og séu þannig einn af hornsteinum blómlegs menningarlífs í landinu.

 

5.  Ýmis erindi.

a.  Heyrnarhjálp, styrktarlínur í fréttablöð. Erindinu var hafnað

b.  ÍSÍ, ósk um liðsinni við hvatningu til hjólreiða í vinnu.  Sveitar-

stjórn  vill taka undir hvatningu ÍSÍ til að íbúar sveitarfélagsins leggi

rækt við líkamlega hreyfingu.

c.  Bréf um tilboð í skólaakstur.  Frá Abus-ATF þar sem þeir skora á Hörgárbyggð að bjóða út skólaakstur, sé það ekki þegar ákveðið fyrir næsta skólaár. Lagt fram til kynningar.

 

6. Skipulagsstofnun, auglýsing á tillögu að sérstöku svæðisskipulagi

fyrir Norðurlandsskóga og óskar eftir umsögn Hörgárbyggðar um

tillöguna fyrir 21. maí 2005. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki

athugasemdir við framkomna tillögu.

      

7. Umhverfismál – umgengni í sveitarfélaginu – leiðir til að bæta umgengni. Dagur umhverfisins. Tileinkaður þjóðgörðum og náttúruvernd. 

Afrit af bréfi heilbrigðiseftirlitsins vegna frárennslismála B. Jensen.

Lagt fram til kynningar.

 

8.  Staðardagskrá 21. Landráðstefna í Kópavogi 29.04.2005, kynnt. Ákveðið var að taka þátt í Staðardagskrá og var sveitarstjóra falið að vinna að málinu og koma með fyrir næsta fund.

 

 9.  Gjaldskrá leikskólans. Ákveðið var að gjaldskrá Leikskólans á Álfasteini verði óbreytt að sinni, þar sem ljóst er að reksturinn er það þungur að hann getur ekki tekið á sig neina gjaldskrá­rlækkun, eins og sum stærri sveitarfélög hafa verið að gera.

 

10.  Reikningar. Fyrstu drög lögð fram.

 

11. Önnur mál.  Endurskoðaðar innheimtureglur Hörgárbyggðar, breytingartillögur frá Ólafi Rúnari Ólafssyni lögfræðingi Intrum voru samþykktar. Beiðni um vínveitingarleyfi frá Haraldi Hannessyni í Engimýri. Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leit að Ferðaþjónustan í Engimýri fái vínveitingarleyfi.   Frumvörp frá Alþingi.  Um vegamál, Helgu og Ármanni falið að skoða málin. Tekið var jákvætt í breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga um að rýmka heimildir til að hækka útsvarprósentu um 1 prósentustig  þ.e. úr 13.04 í 14,03.

 

12. Trúnaðarmál.

  

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:43