Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 140

21.04.2010 20:00

Miðvikudaginn 21. apríl 2010 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 53. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Ársreikningar Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvar á Þelamörk fyrir árið 2009, fyrri umræða

Lagðir fram ársreikningar Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk fyrir árið 2009, ásamt skýrslu löggilts endurskoðanda um þá. Ársreikningarnir eru áritaðir af kjörnum skoðunarmönnum. Á fundinn kom Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi Hörgárbyggðar, og skýrði hann reikningana.

Skv. ársreikningi Hörgárbyggðar urðu rekstrartekjur sveitarfélagsins alls 253,2 millj. kr. og rekstrargjöld 228,9 millj. kr. á árinu 2009. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 38,4 millj. kr. og stafar það fyrst og fremst af niðurfærslu á stofnfé í Byr sparisjóði upp á 21,4 millj. kr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins var því neikvæð um 14,1 millj. kr. Veltufé frá rekstri var 33,2 millj. kr. og handbært fé í árslok var 27,1 millj. kr. og jókst um 14,5 millj. kr. milli ára. Rekstrargjöld Þelamerkurskóla umfram tekjur á árinu 2009 voru 115,5 millj. kr. og rekstrargjöld Íþróttamiðstöðvar umfram tekjur á árinu urðu 6,8 millj. kr.

Að loknum umræðum um ársreikningana var þeim vísað til síðari umræðu.

 

2. Fundargerðir samvinnunefndar um svæðisskipulag Eyjafjarðar, 1. og 22. mars 2010

Hvor fundargerðin er í fjórum liðum. Lagt fram bréf frá samvinnunefndinni, dags. 31. mars 2010, sbr. niðurstöðu í síðari fundargerðinni, þar sem óskað er eftir að tekin sé afstaða til þess hvort og þá með hvað hætti fjalla beri í svæðisskipulaginu um byggðaþróun og nýtingu landbúnaðarlands.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að í tillögu að svæðisskipulagi verði fjallað um byggðaþróun og nýtingu landbúnaðarlands skv. leið sem auðkennd er 2b. Drög að þeim texta sem þá ætti við er svohljóðandi um byggðaþróun: “Ný byggð verði fyrst og fremst innan núverandi þéttbýlisstaða og í tengslum við þá. Íbúðabyggð í sveitinni, smábýli, búgarðabyggð o.þ.h., verði skilgreind í aðalskipulagi hvers sveitarfélags. Taka skal mið af markmiðum um varðveislu góðs landbúnaðarlands við staðarval og skipulag byggðar.” Drög að texta sem þá ætti við um landbúnaðarland er svohljóðandi: “Gott landbúnaðarland verði áfram notað til búvöruframleiðslu. Í því liggja framtíðarverðmæti. Skógrækt sem hluti landbúnaðar verði heimiluð utan þeirra svæða sem vel eru fallin til búvöruframleiðslu.”

 

3. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 7. apríl 2010

Fundargerðin er í 23 liðum. Liðir 11 og 23h varða Hörgárbyggð. Fyrri liðurinn fjallar um vöktun á gerlamagni í Lóninu og í þeim síðari er starfsleyfi veitt fyrir gistiheimili, hestaleigu og reiðskóla í Skjaldarvík.

Fundargerðin rædd og samþykkt.

 

4. Vinnuskóli 2010

Lagt fram minnisblað um fyrirkomulag vinnuskóla sumarið 2010. Vegna sameiningar við Arnarneshrepp eru forsendur fyrirkomulagsins nokkuð breyttar frá fyrri árum.

Samþykkt var að óska eftir samstarfi við Arnarneshrepp um undirbúning vinnuskóla í sameinuðu sveitarfélagi næsta sumar. Jafnframt var samþykkt að auglýsa eftir flokksstjóra til starfa við vinnuskólann í sumar.

 

5. Minjasafnið á Akureyri, breyting á stofnskrá

Lagðar fram tillögur starfshóps um breytingar á stofnskrá Minjasafnsins á Akureyri. Héraðsnefnd Eyjafjarðar hefur verið lögð niður og því er nauðsynlegt að breyta stofnskránni til samræmis við þá staðreynd. Þá er í tillögunum gert ráð fyrir að Dalvíkurbyggð hverfi frá rekstri safnsins.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti framlagðar tillögur að breytingum á stofnskrá Minjasafnsins á Akureyri.

 

6. Umsókn um námsvist í tónlistarskóla utan sveitarfélags

Umsókn, dags. 9. apríl 2010, um námsvist í tónlistarskóla utan sveitarfélagsins á skólaárinu 2010-2011.

Erindinu er hafnað þar sem að sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur ekki greitt fyrir nemendur til náms í tónlistarskóla eftir að námi í framhaldsskóla er lokið eða 20 ára aldursmarki er náð.

 

7. Daggæsla í heimahúsi, umsókn um niðurgreiðslu

Tölvubréf, dags. 14. apríl 2010, með umsókn um niðurgreiðslu á kostnaði við daggæslu barns í heimahúsi.

Sveitarstjórn samþykkti að greiða niður allt að kr. 32.000 pr. mán. til dagforeldris með starfsleyfi miðað við 8 tíma dagvistun og hlutfallslega fyrir styttri dvöl, frá sex mánaða aldri barnsins til þess tíma þar til barnið fær leikskólapláss á Álfasteini.

 

8. Eyþing, tilnefning í verkefnisstjórn um sameiningarkosti sveitarfélaga

Bréf, dags. 14. apríl 2010, frá Eyþingi, þar sem óskað er eftir tilnefningu í verkefnisstjórn til að ræða og meta sameiningarkosti sveitarfélaga í landshlutanum, sbr. bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til Eyþings, dags. 8. mars 2010, sem lagt var fram á fundinum.

Sveitarstjórn samþykkti að tilnefna  oddvita sem aðalmann og sveitarstjóra sem varamann í verkefnisstjórnina.

 

9. Félag íslenskra atvinnuflugmanna, Reykjavíkurflugvöllur

Bréf, dags. 25. mars 2010, frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna með hvatningu um að unnið verði að því að Reykjavíkurflugvöllur verði til frambúðar þar sem hann er núna og að nú þegar verði hafin bygging samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni.

Til kynningar.

 

10. FS áhugamannafélag, rannsóknir á strandveiðistöðum

Bréf, dags. 30. mars 2010, frá Félagi áhugamanna um ferðamennsku við strandir í Eyjafirði, sem hyggst standa fyrir rannsóknum á strandveiðistöðum við strendur Eyjafjarðar. Í bréfinu er óskað eftir að sveitarfélagið lýsi áhuga á verkefninu, veiti ráðgjöf um málið og aðstoði eftir föngum við að finna sjálfboðaliða til þess.

Sveitarstjórn telur að verkefnið sé áhugavert og er reiðubúin að aðstoða við framkvæmd þess eftir föngum.

 

11. Fundargerð stjórnar Eyþings, 4. mars 2010

Fundargerðin er í 12 liðum.

Lögð fram til kynningar.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:20