Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 113

19.03.2008 20:00

Miðvikudaginn 19. mars 2008 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 25. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Aðalskipulag Hörgárbyggðar 2006-2026, kynning á tillögu

Lögð fram umsögn Skipulagsstofnunar um drögin, dags. 25. febr. 2008, og einnig fundargerð fundar um drögin í samráðshópi um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgárbyggðar og Akureyrarbæjar, sem haldinn var að beiðni skipulagsnefndar Akureyrarbæjar, 5. mars 2008. Unnið hefur verið að því að gera breytingar á greinargerðinni í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar og fundargerðar samráðshópsins. Næsta skrefið í áttina að staðfestingu aðalskipulagsins er að halda kynningarfund um tillöguna fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Áætlað er að halda kynningarfundinn um aðalskipulagið í Hlíðarbæ miðvikudaginn 2. apríl nk. kl. 20:00.

 

2. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar Þelamörk, 13. mars 2008

Fundargerðin er í einum lið.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

3. Fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra, 5. mars 2008

Fundargerðin er í fjórtán liðum, enginn þeirra varðar Hörgárbyggð.

Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

4. Fundargerðir héraðsráðs, 12. des. 2007 og 27. febr. 2008

Í fyrri fundargerðinni eru fjórir liðir og í þeir síðari eru sex liðir.

Fundargerðirnar ræddar og afgreiddar án athugasemda

 

5. Skólaakstur 2008-2010, útboð

Lögð fram drög að útboðsgögnum fyrir útboð á skólaakstri í Þelamerkurskóla skólaárin 2008-2009 og 2009-2010. Framlögð útboðsgögn voru samþykkt samhljóða.

Samþykkt var að auglýsa útboðið 2. apríl og opna tilboðin 16. apríl, á undan reglulegum fundi sveitarstjórnar, svo hægt sé að ákveða sem fyrst við hverja verður samið um skólaakstur til næstu tveggja ára.

 

6. Malbikun 2008, útboð

Lögð fram drög að útboðsgögnum fyrir malbikunarverk ársins 2008. Einnig lagt fram minnisblað, dags. 17. mars 2008, um fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins. Framkvæmdir 2008 á vegum Hörgárbyggðar eru áætlaðar þessar helstar: Malbikun á Lækjarvöllum, leggja nýtt malbikslag yfir gamla klæðningu sunnan við Skógarhlíð 10, setja upp óson hreinsibúnað við rotþró á Lónsbakka, lagfæra umhverfi Birkihlíðar, gagngerðar endurbætur á anddyri og snyrtingum í Hlíðarbæ, fá RARIK til að setja upp götulýsingu við Lækjarvelli og endurbæta girðingu við Álfastein og aðkomu að eldhúsi.

Framlögð útboðsgögn voru samþykkt einróma og ákveðið að malbikun verði boðin út í lokuðu útboði.

 

7. Vinnuskóli 2008, fyrirkomulag

Lagt fram minnisblað um fyrirkomulag vinnuskóla sumarið 2008. Samþykkt var að fara í áframhaldandi samvinnu við Arnarneshrepp um vinnuskólann og hann verði með líku sniði og undanfarandi ár.

Ákveðið var að auglýsa eftir verkstjóra fyrir vinnuskólann.

 

8. Umhverfisátak 2008, fyrirkomulag

Lagt fram minnisblað, dags. 17. mars 2008, um fyrirkomulag á umhverfisátaki, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 12. nóv. 2007 um hreinsunarátak sumarið 2008 og með vísan til samþykkta í Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð. Á minnisblaðinu er listi yfir verkefni í slíku umhverfisátaki, ásamt tímasetningum. Áætlað er að það hefjist með kynningu í apríl. Sveitarstjórn samþykkti að leggja fram kr. 600.000 vegna væntanlegs kostnaðar við verkefnið.

 

9. Viðhald ljósastaura, fyrirkomulag

Lögð fram tillaga að reglum um fyrirkomulag á uppsetningu og viðhald ljósastaura við heimreiðar, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 20. febr. 2008, sjá 13. lið fundargerðarinnar.

Tillagan var samþykkt samhljóða og verður hún auglýst á heimasíðu og í fréttabréfi Hörgárbyggðar.

 

10. Álfasteinn, umsókn um leikskóladvöl

Lögð fram umsókn um dvöl á Álfasteini fyrir barn utan sveitarfélagsins. Umsækjanda, sem er kennari við Þelamerkurskóla, hefur verið gerð grein fyrir kostnaði við dvöl barnsins. Akureyrarbær er tilbúin að greiða með barninu sem svarar heimagæslu. Málinu vísað til framkvæmdanefndar ÞMS til afgreiðslu.

 

11. Álfasteinn, starfsmannahald

Lagt fram minnisblað um starfsmannahald á Álfasteini, þar sem m.a. er óskað eftir heimild til að fjölga stöðugildum tímabundið um 1.

Samþykkt var að bæta við starfsmanni í fullt starf frá 1. maí til sumarlokunar leikskólans. Ákveðið var að ráða Stellu Sverrisdóttur í 60% starfshlutfall í stöðu leikskólastjóra á meðan Hugrún leikskólastjóri er í barnsburðarleyfi í eitt ár.

 

12. Samningur um ráðgjafarþjónustu, endurnýjun

Lagður fram samningur milli Hörgárbyggð og Akureyrarbæjar um ráðgjafarþjónustu. Um er að ræða endurnýjun á samskonar samningi, dags 25. febr. 2005, sem rann út um síðastliðin áramót, með smá efnislegri breytingu sem varða uppsagnarákvæði.

 

13. Fornhagi II, umsögn um umsókn um stofnun lögbýlis

Bréf, dags. 29. febr. 2008, frá Önnu Guðrúnu Grétarsdóttir, þar sem óskað er umsagnar um umsókn um að gera Fornhaga II að lögbýli.

Erindið samþykkti og sveitarstjóra falið að afgreiða málið.

 

14. Lánasjóður sveitarfélaga, kosning fulltrúa á aðalfund

Bréf, dags. 11. mars 2008, frá Lánasjóði sveitarfélaga þar sem vakin er athygli á að kjósa þarf sérstaklega fulltrúa sveitarfélagsins á aðalfund sjóðsins, í stað þess að landsþingsfulltrúi sé það sjálfkrafa, eins og hingað til hefur verið. Einnig var lögð fram boðun á XXII. landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga, sem verður haldið 4. apríl 2008 í Reykjavík.

Samþykkt að sveitarstjóri fari með umboð Hörgárbyggðar á aðalfundi sjóðsins.

 

15. Byggingarnefnd Eyjafjarðarsvæðis, kosning varamanns

Að loknum síðustu sveitarstjórnarkosningum var Haukur Steindórsson kosinn varamaður fyrir Hörgárbyggð í byggingarnefnd Eyjafjarðarsvæðis, sbr. gr. 1.2. í samningi sveitarfélaganna um rekstur byggingafulltrúaembættis Eyjafjarðar, dags. 12. des. 2001, en Haukur er nú fluttur úr sveitarfélaginu.

Samþykkt að kjósa Stefán Lárus Karlsson sem varamann í byggingarnefndina.

 

16. Samband ísl. sveitarfélaga, skólamálastefna

Bréf ásamt fylgiskjölum, dags. 4. mars 2008, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem gerð er grein fyrir skólamálastefnu sambandsins, sem stjórn þess samþykkti á fundi sínum 22. febr. 2008.

Lagt fram til kynningar.

 

17. RARIK, samráðsfundur

Bréf, dags. 12. mars 2008, frá RARIK, þar sem boðað er til samráðsfundar með sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi. Fundurinn verður haldinn 11. apríl nk. í Alþýðuhúsinu, Skipagötu 14 kl. 15:00.

Sveitarstjórnarmenn eru hvattir til að mæta á fundinn.

 

18. Hafnasamlag Norðurlands, fundur um norðaustur siglingaleiðina

Bréf, dags. 6. mars 2008, frá Hafnasamlagi Norðurlands, þar sem boðað er til fundar sveitarstjórnarmanna á Eyjafjarðarsvæðinu um norðaustur siglingaleiðina. Fundurinn verður haldinn 18. apríl nk. á Hótel KEA kl. 16:00.

Sveitarstjórnarmenn eru hvattir til að mæta á fundinn.

 

19. Alþingi, umsögn um frumvörp

Bréf, dags. 26. febr. 2008, frá Alþingi, þar sem óskað er eftir umsögnum um frumvarp til skipulagslaga, laga um mannvirki og laga um brunavarnir.

Lagt fram til kynningar.

 

20. Samningur um smíði á ósontækjabúnaði við rotþró

Lögð fram drög að samningi um smíði á ósontækjabúnaði til að setja við rotþró á Lónsbakka. Samningurinn er milli Hörgárbyggðar og Raf ehf.á Akureyri. Skv. samningnum er markmið með því að setja upp búnaðinn m.a. að hreinsa seyruvatn sem kemur frá rotþrónni skv. kröfum heilbrigðiseftirlits, að hreinsibúnaðurinn sé einfaldur í umgengni og að sjálfvirk vöktun sé á rennsli og hreinsun seyruvatnsins. Sveitarstjóra falið að ganga frá samningnum f.h. Hörgárbyggðar á grundvelli framlagðra samningsdraga.

 

21. Fundargerð byggingarnefndar, 17. mars 2008

Fundargerðin er í tíu liðum, engin þeirra varðar Hörgárbyggð.

Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

22. Fundargerð skólanefndar, 3. mars 2008

Fundargerðin er í fjórum liðum.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl.  22:53.