Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 11

18.06.2002 20:30

Þriðjudaginn 18. júní 2002 kl. 20:30 komu sveitarstjórnir Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps, ásamt skólanefnd, saman til fundar í Þelamerkurskóla vegna útboðs skólaaksturs fyrir Þelamerkurskóla. Á undan fundi sveitarstjórnar opnaði skólanefnd útboð í skólaakstur Þelamerkurskóla í viðurvist tilboðsaðila.

 

Mættir voru Ármanna Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Ingibjörg Stella Bjarnadóttir, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Árni Arnsteinsson, Sturla Eiðsson, Ingibjörg Smáradóttir, Sigrún Jónsdóttir, Jón Þór Benediktsson, Jósavin Gunnarsson, Hjördís Sigursteinsdóttir, Lilja Gísladóttir ásamt kennurunum Baldvini Hallgrímssyni og Unnari Eiríkssyni.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar settri fundinn og bauð menn velkomna. Klængur Stefánsson sat ekki fundinn þar sem hann er einn af þeim sem gerði tilboð í skólaaksturinn. Í stað hans koma varamaður hans Ingibjörg Stella Bjarnadóttir.

 

Hjördís Sigursteinsdóttir oddviti Arnarneshrepps hóf máls á því hvort áhugi væri fyrir að skipta leið skólabíls frá Skógarhlíð – Bitra – Moldhaugar – Skottið – Þelamerkurskóli í tvær leiðir þ.e. að leið 4 yrði lögð niður og leiðir 5 og 6 yrðu teknar upp í staðinn.

Leið 5 yrði Glæsibær – Gásir – Tréstaðir – Þelamerkurskóli þ.e. Skottið og leið 6 yrði Skógarhlíð – Bitra – Moldhaugar – Þelamerkurskóli.

 

Fram kom almennur áhugi foreldra í Kræklingahlíð og á Skottinu er á því að þessi leið verði tvískipt þar sem ljóst er að umtalsverð hætta stafar af því að snúa við svo stórum skólabíl sem til þarf, fyrir leið 4, við Bitru og Moldhauga en 40% barnanna hafa komið eftir leið 4.

Öryggisins vegna væri miklu betra að bílarnir væru minni og í hverjum bíl yrðu færri börn og aksturstími hvers barns í bílnum mundi styttast. Einnig kom fram að í útboðin er þess krafist að allir bílarnir standist kröfur um hópferðaakstur.

Oddvitarnir reiknuðu það út það yrði u.þ.b. kr. 1.020.000 dýrar að taka upp leiðir 5 og 6 og leggja niður leið 4. Sveitarstjórnarmenn úr Arnarneshreppi tóku fram að þeir styddu það að leið 4 yrði lögð niður.

 

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar vék afsíðis til að ræða málin og var ákveðið að leggja niður leið 4 og taka upp þess í stað leið 5 og 6. Þá leggur sveitarstjórn Hörgárbyggðar til að þeir bílstjórar sem voru með skólaakstur fyrir Þelamerkurskóla sitji fyrir skólaakstrinum áfram.

 

Sveitarstjórn Arnarneshrepps fór því næst afsíðis til að ræða skólaakstur í Arnarneshreppi. Þegar þeir komu til baka lýstu þeir því yfir að áhugi væri á að taka lægsta tilboðinu í skólaaksturinn á leið 2 en það tilboð kom frá Klængi Stefánssyni að upphæð kr. 219 pr. km. Valur Daníelsson, sem hefur ekið þessa leið bauð kr. 225 pr. km. Einnig kom fram að nokkur óánægja er með Val Daníelsson hjá sumum sveitarstjórnarmönnum Arnarneshrepps og vildu þeir meina að hann gætti ekki fyllsta öryggis á sinni leið. Aftur á móti ef Klængur getur ekki staðið við tilboð sitt í skólaaksturinn fyrir Arnarneshrepp þá verði gengið til samninga við Val Daníelsson á grundvelli tilboðsins.

 

Í framhaldinu var síðan ákveðið að semja við eftirtalda í samræmi við útboðið.

 

Leið 1.             Sigurður Skúlason       kr. 130 pr. km.

Leið 2.             Klængur Stefánsson    kr. 219 pr. km. m/fyrirvara

Leið 3.             Sigurður Gíslason        kr. 114 pr. km.

Leið 5.             Klængur Stefánsson    kr. 219 pr. km. m/fyrirvara

Leið 6.             Klængur Stefánsson    kr. 219 pr. km. m/fyrirvara

 

Ljóst er að Klængur Stefánsson, sem átti hagstæðasta tilboð í þrjár af fimm akstursleiðum getur ekki ekið nema á einni leið sjálfur og verður hann því að fá bíla og aðra bílstjóra til að sinna þessu verkefni með sér ef hann ætlar að standa við tilboðin í skólaaksturinn.

Sveitarstjórnirnar gerðu því eftirfarandi bókun: Ef samningar nást við Klæng Stefánsson á grundvelli útboðsins verður sá fyrirvari að sami bílstjóri aki allan veturinn á þeirri leið sem viðkomandi bílstjóri hefur tekið sér.

 

Haft var samband við Klæng Stefánsson og fékk hann frest til kl 12:00 þann 19. júní að svara því hvort hann ætlaði að standa við tilboð sín í skólaaksturinn og þá með þeim fyrirvara sem að framan greinir.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið 22:55.