Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 10

15.06.2002 13:00

Laugardaginn 15. júní 2002 kl. 13:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar á Melum, ásamt fulltrúum úr stjórn Leikfélags Hörgdæla og kvenfélagsins.

 

Mættir voru Ármanna Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Þórður Steindórsson, Sigurbjörg Sæmundsdóttir, Sveinfríður Jóhannsdóttir, Ragnheiður Sverrisdóttir og Sverrir Haraldsson.

Stjórnarmenn komu að Melum til að skoða framkvæmdir sem þegar hafa verið gerðar og til að kynna sé þær hugmyndir sem fram hafa komi ef gera ætti varanlegar endurbætur á öllu húsinu, svo að starfsemin stæðist til frambúðar þau lög og þær reglur sem þarf til rekstrar á samkomuhúsi, en ekki aðeins endurbætur á samkomusalnum eins og gert var ráð fyrir í upphafi. En búið var að samþykkja þriggja milljóna króna fjárveitingu til sveitarfélagsins í það verkefni.

 

Ragnheiður Sverrisdóttir kynnti nýjar hugmyndir að breytingum á húsinu ásamt grófri kostnaðaráætlun. Þar er áætlað að rífa innan úr útveggjum, einangra þá og klæða upp á nýtt, útbúa nýtt eldhús, skipta yrði um glugga og þá væri tæpast hægt að skilja snyrtingarnar eftir. Reikna má með að kostnaður verði ekki undir kr. 11.000.000 ef farið væri í allar framkvæmdir sem fram komu.

 

Ármann Búason fór yfir þær bókanir í fundargerðum sveitarstjórnarinnar sem varða umræður og ákvarðanir í sambandi við Félagsheimilið að Melum, í þeim tilgangi að kynna fyrir nýjum  sveitarstjórnarmönnum aðdraganda málsins.

 

Fram kom að einungis tveir kostir væru í stöðunni þ.e. að halda fast við fyrri ákvarðanir um framkvæmdir eða fara út í varanlegar endurbætur á öllu húsinu.

 

Ármann sagði að ef kostnaðaráætlunin hefði legið fyrir í upphafi hefði aldrei verið farið út í þessar framkvæmdir og tóku aðrir sveitarstjórnarmenn undir það.

 

Sveitarstjórn heimilað Ragnheiði Sverrisdóttir að ljúka allri hönnunar og teiknivinnu þar sem nauðsynlegt er að þær séu tilbúnar þegar vinnan við endurbæturnar hefjast, hverjar sem þær verða.

 

Sveitarstjórn ákvað, eftir nokkrar umræður, að endurskoða fjárhagsáætlun sveitarfélagsins áður en hún ákvæði hvort farið yrði út í frekari framkvæmdir við Mela, umfram það sem áður var búið að samþykkja í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

 

Framkvæmdir við Mela eru því stöðvaðar í bili eða þar til sveitarstjórn hefur endurskoðað fjárhagsáætlunina með það í huga hvort hægt sé að veita frekara fjármagn til framkvæmda vegna framkominna hugmynda að breytingum á félagsheimili að Melum.

 

Fulltrúar stjórna leikfélagsins og kvenfélagsins sögðu að sín félög væru tilbúin að standa undir sínum hlut í framkvæmdum að Melum hverjar sem þær yrðu.

 

Sveitarstjórn ákvað að skipa 5 manna húsnefnd fyrir félagsheimilin þ.e. Hlíðarbæ og Mela. Húsverðir félagsheimilanna, Þórður Steindórsson og Sighvatur Stefánsson, eru sjálfkjörnir í nefndina. Sveitarstjórn skipaði fyrir sína hönd í nefndina þau Sverri Haraldsson og Guðnýju Fjólu Árnmarsdóttur.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið.