Menningar- og tómstundanefnd, fundur nr. 11

03.09.2012 20:00

Mánudaginn 3. sept. 2012 kl. 20:00 kom menningar- og tómstundanefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Eftirtaldir nefndarmenn voru mættir: Árni Arnsteinsson, Bernharð Arnarson, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Halldóra Vébjörnsdóttir. Auk þess voru á fundinum Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi, og Bjarni Kristjánsson, staðgengill sveitarstjóra, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Erindi frá Minjasafninu á Akureyri dags. 24. ág. 2012

Í erindinu er óskað  eftir samstarfi við sveitarfélög sem standa að safninu um uppsetningu á sýningu sem nefnd er „Hvar á ég heima“.  Hugmyndin er sú að sýningin verði sett upp í hverju sveitarfélagi fyrir sig þar sem sagt er frá  sveitarfélaginu m. a. með aðstoð gripa, ljósmynda og texta.

Nefndin tekur jákvætt í erindið og felur Árna að ræða við 5 einstaklinga sem nefndir voru sem hugsanlegir fulltrúar í nefnd sem tæki að sér að undirbúa þetta verkefni og hafa umsjón með því.

 

2. Rammi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2013

Fyrir liggur rammi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2013. Þar er áætlað að menningar- og tómstundanefnd hafi 80 millj. kr. til ráðstöfunar.

Lagt fram til kynningar.

 

3. Erindi frá stjórn Gásakaupstaðar ses. dags. 24. ágúst 2012

Í  erindinu kemur fram að styrktarsamningur Hörgársveitar við sjálfseignarstofnunina rennur út um næstkomandi áramót og er óskað eftir því að hann verði endurnýjaður/ framlengdur, t. d. til næstu þriggja ára.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að samningurinn verði framlengdur til þriggja ára.

 

4. Sæludagar í sveitinni – hvernig tókst til

Menningar- og atvinnumálafulltrúi telur að almennt hafi vel tekist til og það var einnig tilfinning nefndarmanna.

Nefndin felur menningar- og atvinnumálafulltrúa að skila nefndinni stuttri greinargerð um verkefnið á næsta fundi.

 

5. Erindi dags. 26. júní 2012 frá menningarráði Eyþings, stefnumótun í menningarmálum

Menningarráð Eyþings vinnur nú að gerð stefnumótunar  í menningarmálum fyrir sveitarfélög á starfssvæði Eyþings. Leiðarljós ráðsins í þeirri vinnu er „samvinna, sérstaða, tengsl“.  Í erindinu eru lagðar fram 7 spurningar sem snerta gerð umræddrar áætlunar og óskað er svara við.

Menningar- og atvinnumálafulltrúa falið að gera tillögu að svörum við fyrrnefndum spurningum.

 

6. Hraun í Öxnadal ehf.

Málefni Hrauns í Öxnadal ehf. hafa verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu m. a. hjá sveitarstjórn, hluthöfum og kröfuhöfum. Fyrir liggur erindi frá Íslandsbanka hf. þar sem sett er fram tillaga að lausn á fjárhagsvanda félagsins og óskað eftir viðræðum við sveitarstjórn um tillöguna.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún gangi til viðræðna við bankann um fyrirliggjandi tillögu.

 

7. Eyðibýli á Íslandi, bréf dags. 20. júní 2012

Stofnað hefur verið til áhugamannafélags sem hefur það að verkefni að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi eyðibýli og annara yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins. Jafnframt að stuðla að björgun áhugaverðra og byggingarsögulega mikilvægra húsa m. a. með endurgerð og nýtingu í ferðaþjónustu í huga. Verkefnið er unnið sem nýsköpunarverkefni í samvinnu við ýmsar opinberar stofnanir. Rannsóknirnar verða gefnar út í bókarformi og er 1. heftið í fyrirhugaðri ritröð þegar komið út og fjallar um Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu ásamt Rangárvalasýslu. 

Lagt fram til kynningar.

 

8. Íbúaþing um menningar- og tómstundamál

Nefndin ákveður að slíkt þing verði haldið laugardaginn 3. nóv. n. k.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22:40.