Menningar- og tómstundanefnd, fundur nr. 10

18.06.2012 20:00

Mánudaginn 18. júní 2012 kl. 20:00 kom menningar- og tómstundanefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru: Árni Arnsteinsson, Bernharð Arnarson, Gústav G. Bollason, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Jósavin H. Arason. Auk þess voru á fundinum Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Þorrablót 2013, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 7. júní 2012, frá þorrablótsnefnd, þar sem óskað er eftir styrk til að standa straum af kostnaði við húsaleigu íþróttahúsins á Þelamörk vegna þorrablóts 2013. Bréfinu fylgdi kostnaðaráætlun fyrir þorrablótið.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að þorrablót 2013 verði styrkt um kr. 50.000.

 

2. UMSE, styrkur til „Fyrirmyndarfélags ÍSÍ“

Lagt fram bréf, dags. 17. apríl 2012, frá Ungmennasambandi Eyjafjarðar (UMSE) þar sem gerð er grein fyrir samþykkt 91. ársþings sambandsins um æskilegar styrkveitingar sveitarfélaga til þeirra aðildarfélaga sem öðlast viðurkenninguna „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að taka jákvætt í að styrkja umf. Smárann aukalega ef félagið fær viðurkenninguna „Fyrimyndarfélag ÍSÍ“.

 

3. UMSE, samningur um rekstrarstyrk

Lagt fram bréf, dags. 1. júní 2012, frá Ungmennasambandi Eyjafjarðar (UMSE), þar sem gerð er grein fyrir þeirri hugmynd að gerður verði samningur til nokkurra ára í senn um rekstrarstyrk sveitarfélags til sambandsins í stað árlegrar afgreiðslu á slíkum styrkjum.

Menningar- og tómstundanefnd telur eðlilegt að gerður sé samningur til nokkurra ára í senn um styrk sveitarfélagsins við UMSE.

 

4. Sæludagur í sveitinni

Rætt um fyrirkomulag „Sæludags í sveitinni“ nk. sumar.

Menningar- og tómstundanefnd ákvað að kallaðir verði saman fulltrúar félaga og ferðaþjónustuaðila í sveitarfélaginu til að móta dagskrá „sæludagsins“ þann 4. ágúst nk. og samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að dagskráin verði styrkt af sveitarfélaginu um 200 þús. kr.

Jón Þór Brynjarsson sat fundinn undir þessum dagskrárlið.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:05.