Leikskólanefnd, fundur nr. 2 - 2004

22.03.2004 00:00

Mættir voru Hugrún Ósk Hermannsdóttir, Logi Geir Harðarson, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Sigíður Kristín Sverrisdóttir, Helgi Steinsson og Sigríður Síta Pétursdóttir.

 

1-2     

Nú er ljóst að nýting leikskólans verður mjög slæm í sumar og haust þar sem börnum fækkar við leikskólann. 3 börn hafa óskað eftir því að hætta í vor en koma aftur inn í haust og 6 börn fara í skóla í haust. Ekki liggja fyrir margar umsóknir á móti. Rætt um að lækka aldurinn og taka inn ársgömul börn. Á síðasta fundi var talað um að auglýsa pláss fyrir svo ung börn og taka sama gjald og dagmömmur gera. Sigríður Síta veltir upp þeirri spurningu hvort það sé í lagi lagalega séð, bendir á það þurfi allavega að athuga vel. Með því að taka inn tvö eins árs gömul börn í 8 tíma (eða fjögur í 4 tíma) nýtist þriðja manneskjan mun betur. Eins og staðan verður án ársgömlu barnanna þarf þriðja manneskjan að vera inni og því mikilvægt að geta fullnýtt hana. Nefndin leggur til að bjóða þessi pláss fyrst til íbúa  sveitarfélagsins og sjá hvað kemur út úr því.  Ef ekkert kemur út úr því þarf að skoða þann möguleika að auglýsa þetta í nærliggjandi sveitarfélögum. 

Nú eru 312% stöðugildi við leikskólann og það helst þannig ef tekin eru  inn tvö eins árs börn. Eins árs gamalt barn reiknast tvö barnsgildi og gjaldskráin fyrir þau er sú sama og fyrir önnur börn. 

 

Sigríður Gréta 100% deildarstjóri

Gulla 100% á deild

Helga 88 % á deild

Silla 75% eldhús

Hugga 24% á deild og 38 % sérkennsla.

Hugrún 50 % leikskólastjóri og 18% sérkennsla.

 

3.  Ákörðun aukagjalds þar sem foreldrar sækja börn sín ekki á réttum tíma.

Ákveðið að fyrir hvern byrjaðan hálftíma sem vitað er  um fyrirfram , séu greiddar 300 kr.   Ef ekki er látið vita um seinkun skal greiða 600 kr. fyrir hvern byrjaðan hálftíma. 

 

4.  Mál er varðar afslætti vegna skólafólks og einstæðra foreldra. Það er rétt eins og það er.

 

5. Hugrún kom með athugasemd við dvalarsamninginn. Þar stendur “skipulagsdagar leikskólans eru a.m.k. tveir á ári”. Hún vill breyta því í skipulagsdagar leikskólans eru tveir á ári auk námskeiðsdags”. Hugrún ætlar að senda þessar breytingar til sveitarstjóra. 

Nemandi í VMA hefur boðist til að gera heimasíður fyrir leikskólann í verkefnavinnu skólans. Því boði var tekið með ánægju þar sem heilmikið kostar að láta búa til svona síðu. Ákveðið að kynna þetta fyrir foreldrum þegar nær dregur og óska eftir því að fá að vita ef einhver vill ekki láta birta myndir af börnum sínum á heimasíðunni. Einnig að fólk láti vita ef það vill að einhverjar ákv. myndir verði teknar út. 

 

Tölvumál.  Það hefur verið erfitt að tengjast netinu hér og alltaf þurft að taka síma á skrifstofu út sambandi á meðan. Hugrún fékk mann til að líta á málið og sagði hann meðal annars að það þyrfti að vera þráðlaus sími.  Einnig þarf að kaupa nýjan kassa  í tölvuna. 

Það vantar orðið leikföng, sérstaklega handa eldri börnunum. Ákv. að prófa að auglýsa eftir þeim fréttabréfinu. 

 

Veikindi starfsfólks.  Í febrúar voru 17 veikindadagar og  8 dagar fyrir miðja mars. Starfsfólk leikskólans ákvað að láta mæla rafmagnsspennuna í leikskólanum og greiða það úr starfsmannasjóði. Það kom illa út. Mælingin var yfir 200 milligás, en til samanburðar er stofnunum lokað í Svíþjóð ef hún  fer yfir 5 milligás. Brynjólfur S.  sagði að sýkingar héldust vel við í svona lofti og það gæti því skýrt veikindin að einhverju leyti. Til að bæta þetta þarf að setja jarðskaut við húsið, og það myndi kosta 40-50 þúsund. Brynjólfur ætlar að skila greinargerð um málið, sem vonandi skilar sér sem fyrst. Hugrún spyr hvort ekki sé hægt að gera eitthvað í þessu.  Við [leikskólanefnd] gerum okkur grein fyrir því að þarna geti verið um huglægt mat að ræða. Þó finnst okkur sjálfsagt að ath. þetta frekar ef það yrði til þess að líðan og heilsa starfsfólks og barna myndi batna. Þá jafnvel að fá annan aðila til að kanna þetta og gera fast verðtilboð. Í þessu sambandi var mælt með Arnari Pálssyni eða Rafeyri til verksins. 

Leggjum til að þetta verði rætt á næsta sveitarstjórnarfundi og afstaða tekin í málinu.

                        Fundi slitið kl. 23:00