Framkvæmdanefnd Þelamerkurskóla, fundur nr. 1 - 2005

27.01.2005 15:10

Fimmtudaginn 26. janúar 2005, kom framkvæmdanefnd Þelamerkurskóla saman til fundar í Þelamerkurskóla. Mætt voru:  Anna Lilja Sigurðardóttir, Ármann Búason, Helgi Steinsson, Hjördís Sigursteinsdóttir og Unnar Eiríksson.  Auk þess komu Helgar Erlingsdóttir (vegna annars til sjötta dagskrárliða) og Ásgeir Már Hauksson (vegna sjötta dagskrárliðar). 

 

Fundurinn hófst kl. 15:10

 

Fyrir var tekið:

 

1. Kaup á innanstokksmunum.

Anna Lilja bar fram fyrirspurn, vegna kaupa á innanstokksmunum sem samþykktir voru á fjárhagsáætlun, hvort hún hefði heimild til þess að ganga í það núna strax að kaupa þá alla eða hvort dreifa þyrfti kaupunum á allt árið.

Önnu Lilju var falið að forgangsraða kaupum en hún fékk einnig heimild til þess að ráða framkvæmdarhraðanum sjálf.  Jafnframt var ítrekað að leggja bæri fram tilboð í viðhaldsverkefni og tækjakaup fyrir framkvæmdanefnd til staðfestingar og bókunar.

 

2. Gamlar skuldir
Helga lagði fram lista yfir gamlar mötuneytisskuldir að upphæð kr. 101.656 og ofgreidd laun að upphæð kr. 102.605.  Tölurnar eru á verðlagi þess árs sem til skuldarinnar var stofnað og án vaxta.

Framkvæmdanefnd samþykkti að afskrifa kr. 24.428 vegna mötuneytisskulda og að Arnarneshreppur tæki á sig kr. 28.396 og Hörgárbyggð kr. 48.832.  Jafnframt var samþykkt að afskrifa ofgreidd laun þar sem ítrekaðar innheimtuaðgerðir hafa ekki borið árangur.

 

3.  Rafmagn og leiga, ÍMÞ og ÞMS

Ásgeir lagði fram útreikninga milli Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar varðandi rafmagn, kalt vatn og leigu á íþróttasal.  Þelamerkurskóli skuldar Íþróttamiðstöðinni kr. 928.304.

Samþykkt var að millifæra þessa fjárhæð til Íþróttamiðstöðvarinnar.

 

4. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags

Helga lagði fram beiðni frá Skólaskrifstofu Akureyrar þar sem óskað var eftir námsvist fyrir einn nemanda búsettan á Akureyri.  Akureyrarbær samþykkir að greiða kostnað vegna nemandans.

Samþykkt var að verða við beiðninni.

 

5. Innistæður á reikningum utan bókhalds.

Á sparisjóðsbók og tékkareikningum liggja peningar að upphæð kr. 121.970.

Samþykkt var að verja þessum peningum í tómstundaherbergi fyrir efsta skólastig (8-10 bekk).  Helgu var jafnfram falið að eyðileggja þessa reikninga.

 

6. Staða bókhalds

Helga upplýsti að búið væri að færa allt bókhald á síðasta ári fyrir utan ógreidda reikninga.  Ásgeir Már upplýsti hvernig vinnu við leiðréttingu launa vegna starfsmats væri háttað.  Þar sem búið var að samþykkja fjagra flokka hækkun á annað starfsfólk verður niðurstaðan þannig að sumir eru undir því og ná að hækka sig vegna starfsmatsins en aðrir yfir. 

Helgi upplýsti að sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefði þegar fjallað um málið og var það þeirra álit að launahækkunin væri hluti af starfsmatshækkunum og því ætti enginn starfsmaður að vera yfir starfsmati.  Túlki verkalýðsfélagið þessa fjóra launaflokka öðruvísi þá er það vilji sveitarstjórnar Hörgárbyggðar að segja þessum fjórum launaflokkum upp. 

Samþykkt var að greiða samkvæmt starfsmati í janúar og skoða nánar réttindi starfsmanna vegna fyrri hækkana.

 

7. Húsnæði skólans – skrifstofa Hörgárbyggðar í húsnæði skólans

Ekki liggur fyrir leigufjárhæð vegna skrifstofu Hörgárbyggðar í húsnæði skólans en sveitarstjórn Hörgárbyggðar óskar eftir því að hafa skrifstofuna þarna áfram um óákveðinn tíma.

Samþykkt var að oddvitar og varaoddvitar sveitarfélaganna skoðuðu málið nánar.

 

8.      Önnur mál

·        Greiðslur til skólanefndar og fundarmenn.

Samþykkt var að oddvitar og varaoddvitar sveitarfélaganna komi með tillögu sem lögð verður fram hjá báðum sveitarstjórnum.

 

·        Tapaðar kennslustundir vegna kennaraverkfalls.  Skólastjórnendur fara fram á að fá 60 kennslustundir aukalega fyrir 10. bekk.  Kostnaður vegna þess er um kr. 150 þús + launatengd gjöld (23%).  Anna Lilja telur að þetta rúmist innan núverandi fjárhagsáætlunar.

 

·        Mötuneyti.  Sumt starfsfólk fær frítt að borða í mötuneytinu.  Eðlilegra er að sá kostnaður lendi á skólanum sjálfum en ekki foreldrum.  Einnig var velt upp þeirri spurningu hversu marga kennara þarf í gæslu í hádeginu og þá hversu margir bekkir eigi að fá slíka þjónustu. 

Ákveðið að skoða betur fyrir næsta vetur.

 

Húsvörður er í veikindafríi og er búið að ráða staðgengil fyrir hann.  Jafnfram verður þessi afleysingarmaður stuðningsfulltrúi inni í bekk í febrúar.  Anna Lilja telur að sá kostnaður sem fellur til vegna þessa rúmist innan núverandi fjárhagsáætlunar. 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl.  17:20