Atvinnumálanefnd, fundur nr. 7

13.01.2012 13:00

Föstudaginn 13. janúar 2012 kl. 13:00 kom atvinnumálanefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru: Guðmundur Sturluson, Helgi Þór Helgason, Inga Björk Svavarsdóttir, Jón Þór Brynjarsson og Þórður R. Þórðarson nefndarmenn, svo og Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Styrkveitingar

Auglýst var eftir umsóknum um styrki til eflingar atvinnulífs í sveitarfélaginu, sbr. samþykkt atvinnumálanefndar 27. október 2011, í fréttabréfi Hörgársveitar 21. nóvember og 19. desember 2011. Umsóknarfrestur var til og með 10. janúar 2012. Lagðar voru fram þær sem umsóknir bárust, sem eru frá Skíðarútunni ehf. og frá Huldu Arnsteinsdóttur.

Atvinnumálanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að Skíðarútunni ehf. og Huldu Arnsteinsdóttur verði veittir styrkir til eflingar atvinnulífs að fjárhæð kr. 200.000 til hvors aðila.

Atvinnumálanefnd samþykkti að auglýst verði að nýju í september nk. eftir umsóknum um styrki til eflingar atvinnulífs í sveitarfélaginu með umsóknarfresti til 10. október 2012.

Þórður R. Þórðarson vék af fundi við afgreiðslu þessa máls.

 

2. Óskir um aðstöðu í verksmiðjuhúseignunum á Hjalteyri

Lögð fram að nýju eftirtalin þrjú bréf þar sem óskað er eftir aðstöðu í verksmiðjuhúseignunum á Hjalteyri: Frá Gústav G. Bollasyni, dags. 5. maí 2010, frá Erlendi Guðmundssyni (Neðansjávar ehf.), dags. 12. september 2011, og frá Erlendi Bogasyni, dags. 20. september 2011. Bréfin voru á dagskrá á fundi nefndarinnar 27. október 2011. Þá var efnislegri afgreiðslu þeirra frestað.

Atvinnumálanefnd samþykkti að þeim aðilum sem sent hafa óskir um aðstöðu í verksmiðjuhúsunum á Hjalteyri verði gerð grein fyrir því að húseignirnar hafi verið seldar og þeim beint á að snúa sér til Hjalteyrar ehf. um aðstöðu í húsunum.

 

3. Ráðning framkvæmdastjóra AFE

Rætt um nýafstaðna ráðningu framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE).

 

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 14:35.