Samkomubann, breytt skólahald og fleira

Kæru íbúar Hörgársveitar

Eins og allir vita hefur verið sett bann á samkomur fjölmennari en 100 frá 16 mars til og með 13. apríl.  Jafnframt eru stjórnvöld og stofnanir að aflýsa eða fresta ýmsum viðburðum.

Lagt er til að minni samkomur og fundir verði einnig takmarkaðir og fjarfundabúnaður nýttur þar sem það er hægt.

Háskólum og framhaldsskólum hefur verið lokað en grunnskólum og leikskólum er heimilt að starfa áfram með aðgerðum sem miða að því að takmarka samgang milli nemendahópa. 

Starfsdagur verður mánudaginn 16. mars í Þelamerkurskóla og Heilsuleikskólinn Álfasteinn opnar kl. 11:30.  Stjórnendur og starfsmenn munu nota daginn til að setja upp nýja áætlun um starf skólanna og verða foreldrar upplýstir jafnskjótt og fært er og eru þeir hvattir til að fylgjast vel með skilaboðum.

Íþróttamiðstöðin og sundlaugin eru enn opin eins og venjulega.  Það gæti breyst á næstu dögum og eru íbúar beðnir um að fylgjast með tilkynningum.

Skrifstofa sveitarfélagsins er opin áfram á auglýstum tímum.  Það gæti þó breyst á næstu dögum einnig.

Viðbragðsáætlun sveitarfélagsins í heild var birt á heimasíðu nú fyrir helgina.  Áætlunin miðar að því að kortleggja viðbrögð og að halda úti starfsemi sveitarfélagsins eins og kostur er með lágmarksáhættu. Aðgerðaráætlanir leik- og grunnskóla í breyttum aðstæðum munu verða birtar mánudaginn 16. mars.

Rétt er að huga sérstaklega að öldruðum og þeim sem eru viðkvæmir fyrir.  Umgengni ætti að takmarka, þannig er ekki sjálfgefið að börnin umgangist afa og ömmu með sama hætti og fyrr.  Hér verður hver að hugsa um sig og sína og nota skynsemi og meðalhóf.

Búið er að opna nýja upplýsingasíðu, www.covid.is/  Þar er að finna greinargóðar upplýsingar og leiðbeiningar, nýjustu fréttir og tölulegar upplýsingar.  Allir sem eru óvissir um sína stöðu ættu að skoða síðuna.

Þá er öllum velkomið að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins. Við reynum að svara eftir besta megni eða afla upplýsinga.

Við munum reyna að setja inn upplýsingar eftir því sem fram vindur á heimasíðu sveitarfélagsins, Þelamerkurskóla og Álfasteins, sem og íbúasíðu.  Staðan breytist svo hratt að ekki er einfalt að fylgja öllu eftir.

Mikilvægt er að halda ró sinni og reyna líka að láta lífið hafa sinn vanagang eftir því sem kostur er.

Öll erum við almannavarnir.

Kveðja

Snorri Finnlaugsson

Sveitarstjóri