Pistill sveitarstjóra

Kæru íbúar Hörgársveitar

Árið 2018 var kosningaár til sveitarstjórnar.  Hér í Hörgársveit buðu tveir listar fram og voru kjörnir í sveitarstjórn fimm öflugir fulltrúar, tvær konur og þrír karlar.  Tvö komu ný inn en þrjú voru fulltrúar í sveitarstjórn kjörtímabilið áður.  Eins og í fyrri sveitarstjórn hefur ríkt mikill einhugur í núverandi sveitarstjórn og starfið farið vel af stað.  Nefndir hafa verið virkar og þar hafa líka komið til starfa nýir fulltrúar með nýjar og ferskar hugmyndir og sýn á samfélagið.

Fjölgun íbúa

Óhætt er að segja að starfsemi sveitarfélagsins á þessu ári hafi talsvert mótast af undirbúningi fyrir stækkun sveitarfélagsins og uppbyggingu næstu ára.  Íbúar eru nú orðnir 615 og hafa ekki verið fleiri um nokkurn tíma.  Nemendum Þelamerkurskóla hefur fjölgað lítið eitt og eru þeir nú 76.  Á þessu skólaári er Ingileif Ástvaldsdóttir skólastjóri í námsleyfi og er Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir skólastjóri.  Skólastarf Þelamerkurskóla er öflugt og gott og mörgum öðrum til eftirbreytni.  Mikil  fjölgun hefur orðið hjá börnum á leikskólaaldri.  Nú eru 35 börn í vistun á leikskólanum Álfasteini og er hann fullsetinn.  Á næsta ári verður þó fjölgunin enn meiri og gert er ráð fyrir að á haustmánuðum næsta árs verði komin 44 börn í vistun í leikskólanum.   Þessi ánægjulega þróun leiðir til þess að undurbúningur fyrir stækkun leikskólans strax á næsta ári er hafin og reiknað er með að taka í notkun 70 m2 viðbyggingu við leikskólann uppúr miðju ári.  Horft er jafnramt til þess að gangi áætlanir um íbúðabyggingar við Lónsbakka eftir, þá verði strax á árinu 2020 þörf á enn frekari stækkun og er nú þegar gert ráð fyrir því við hönnun stækkunar.

Fjárhagslegur rekstur

Fjárhagslegur rekstur sveitarfélagins gengur vel.  Rekstur sveitarfélagsins hefur verið jákvæður undanfarin ár og skilað ágætum afgangi.  Slíkt hið sama verður á árinu 2018 og er áætlað að á árinu 2019 verði góður afgangur frá rekstri.  Þrátt fyrir að afgangur hafi verið nýttur til að greiða niður skuldir og þær nú með því lægsta sem verið hefur verið lengi,  þá hefur með þessu meðal annars tekist að safna í sjóð sem nýttur verður til framkvæmda og uppbyggingar.

Framkvæmdir og uppbygging

Undanfarin misseri hefur sveitarstjórn verið að undirbúa stækkun sveitarfélagsins og fjölgun íbúa.  Deiliskiplag hefur verið samþykkt bæði fyrir Hjalteyri og þéttbýlið Lónsbakka.  Á báðum þessum stöðum eru nú tilbúnar lóðir til húsbygginga.  Hjalteyrin okkar er perla við Eyjafjörðin og kæmi ekki á óvart að þar myndi áður en langt um líður hefjast byggingar íbúðarhúsa í grónu þéttbýli sem hefur uppá að bjóða einstakt umhverfi og útsýni.  Við Lónsbakka eru hafnar gatna- og veituframkvæmdir við Reynihlíð sem er ný gata þar sem byggðar verða á næstu árum íbúðir í rað- og parhúsum sem og smærri fjölbýlishúsum.   Í undirbúningi fyrir þessa uppbyggingu var gerður samningur við Norðurorku um yfirtöku á fráveitu hverfisins alls frá 1. Janúar 2019, með það að markmiði að koma á umhverfisvænni fráveitu með dælingu í fráveitukerfið á Akureyri, hreinsun og síðan útrás á haf út.  Hörgársveit mun á árinu 2019 greiða um 50 milljónir til fjármögnunar á stofnlögn frá Lónsbakkahverfinu inn í fráveitukerfi Akureyrar.

Hörgársveit er nú í samningaviðræðum við þrjá aðila um að byggja íbúðir á þeim lóðum sem eru í 1. áfanga uppbyggingar við Reynihlíð.  Þar er um að ræða 12 parhúsaíbúðir þar sem hver íbúð með bílskúr verður um 180 m2, 18 raðhúsaíbúðir í þremur 6 íbúða raðhúsum þar sem hver íbúð verður um 75 m2. Gert er ráð fyrir að hluti þessara raðhúsaíbúða verði leigðar út á vegum leigufélags. Síðan er um að ræða 3 fjölbýlishús með um 4 til 12 íbúðum í hverju húsi.  Alls geta þetta orðið 58 íbúðir í þessum áfanga.  Gatna- og veituframkvæmdum fyrir þennan áfanga á að vera lokið 31. maí n.k. og er áætlanir uppi um að þá þegar hefjist byggingaframkvæmdir og hús rísi þarna strax á árinu 2019.  Á skipulagi er gert ráð fyrir að fyrir utan þennan fyrsta áfanga verði til boða 13 lóðir við göturnar Reynihlíð og Víðihlíð fyrir um allt að 57 íbúðir á næstu árum.  Þarna getur því orðið til á allra næstu árum hverfi með yfir 100 nýjar íbúðir og má að þá verði íbúafjöldi í Lónsbakkahverfinu orðinn um 400 sem er fjórföldun frá því sem er í dag.

Menningin

Eitt sinn sagði góður maður að allt sem tengdist manninum væri menning.  Ráðamenn sveitarfélaga ættu alltaf að hafa þetta í huga með það að markmiði að styðja og efla alla menningu í samfélaginu.  Sveitarfélagið hefur stutt við hið fjölbreytta menningarstarf sem fram fer í sveitarfélaginu og mun svo verða áfram. Sveitarfélagið veitir árlega frístundastyrki til barna og unglinga og hefur hann hækkað jafnt og þétt síðustu ár og verður kr. 35.000,- á árinu 2019. Íþróttamiðstöðin og sundlaugin eru að mínu mati helsta menningarmiðstöð okkar og þar geta allir íbúar sveitarfélagins áfram mætt í sund og heita potta án endurgjalds.  Það er hluti af góðum lífsgæðum í Hörgársveit.

Framtíðin

Í þessum stutta pistli hef ég að þessu sinni fjallað fyrst og fremst um það sem framundan er.Slíkt er kannski ekki óeðlilegt ef við miðum við þau tímamót sem eru hjá okkur í sveitarafélaginu þar sem við erum með stórhuga áætlanir um að íbúum hér geti fjölgað mjög á stuttum tíma og að íbúar geti eftir tiltölulega stuttan tíma verðið orðnir yfir eittþúsund.  Slíku munu fylgja vaxtaverkir og því nauðsynlegt að hlutirnir séu vel undbúnir og það finnst mér hafa verið styrkur hér í Hörgársveit.

Sveitarfélagið hefur á að skipa góðum hópi starfsmanna sem leggja sig fram um að vinna faglega og af dugnaði að störfum sínum.  Öll störf sveitarstjórnar og starfsmanna miða að því að sveitarfélagið veiti íbúum Hörgársveitar sem bestu þjónustu sem hægt er á öllum sviðum.

Um leið og ég þakka ykkur fyrir árið sem er að líða, færi ég ykkur kæru sveitungar bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með von um áframhaldandi gott samstarf og góð samskipti.

Snorri Finnlaugsson

sveitarstjóri